“We All Have Superpowers”

0

Sara Hlín Hálfdánardóttir býr ásamt eiginmanni og þremur börnum í Cambridge. Margir kannast eflaust við barnabækurnar frá henni en hún stofnaði og byggði upp barnabókaútgáfuna Unga ástin mín sem í dag er leiðandi í útgáfu vandaðra og fallegra barnabóka. Nú hefur hún snúið sér að öðru og spennandi verkefni sem við fengum að spyrja hana út í.

Hvað er Happy Academy?

Happy Academy býr til vörur fyrir börn sem hvetja þau til að nota jákvæða hugsun og önnur jákvæð gildi og einblína þannig á það fallega sem býr í þeim sjálfum og öðrum.

Þessum uppbyggilegu hugsunum er síðan deilt í gegnum sköpun og skemmtun. Markmið Happy Academy er því fyrst og fremst að búa til fjölbreyttar og fallegar vörur, sem hafa hversdagslegt notagildi en byggja allar á þessari jákvæðu og uppbyggilegu hugmyndafræði sem nærir hugsun og hegðun barna.

HappyAcademy1
Kort frá Happy Academy

Fyrsta vörulínan frá Happy Academy kom á markað fyrr á þessu ári í Bretlandi. Um er að ræða 8 afmælis-, boðs- og þakkarkort sem innihalda mismunandi límmiða. Á hverjum límmiða er tiltekinn styrkleiki eða eiginleiki sem er lýsandi fyrir jákvæðan einstakling.

Börnin skrifa einfalda afmæliskveðju en geta svo valið límmiða með þeim styrkleika eða eiginleika sem þeim finnst lýsa kostum þess sem á að fá kortið.

Hugsunin er að nýta afmæliskort til að senda ekki bara einfalda afmæliskveðju heldur líka falleg og persónuleg skilaboð sem vonandi ýta undir umburðarlyndi og kærleika á meðal barna.

 

Hvernig fékkstu hugmyndina?

Sara með sonum sínum, Hávari og Alvari

Hugmyndin að Happy Academy er framhald af því sem ég var að gera áður þegar ég stofnaði og byggði upp barnabókaútgáfuna Ungu ástina mína á Íslandi.

Hugsunin að baki forlaginu var að byggja upp vörumerki sem sérhæfði sig í útgáfu þroskandi, lærdómsríkra og fallegra bóka sem ýttu undir jákvæða upplifun og vellíðan barna.

Ég flutti út með fjölskyldu minni árið 2006 og rak bókaútgáfuna þaðan. Þegar ljóst var að við fjölskyldan værum ekki á leið heim til Íslands á allra næstu árum sem og að það reyndist óheppilegt að stýra fyrirtækinu frá Bretlandi fann ég að rétti tíminn væri kominn til að selja og hefja nýtt ævintýri hérna í Bretlandi.

Mig langaði til að taka hugsunina að baki Ungu ástinni minni og þróa hana áfram í eitthvað meira.

 

Samstarf við háskólann í Cambridge

HappyAcademy2
Kortin eru unnin í samstarfi við Háskólann í Cambridge

Árið 2013 fékk ég einstakt tækifæri til að kasta mér út í djúpu laugina og stofna nýtt fyrirtæki í Bretlandi þegar mér bauðst að taka þátt í nýsköpunarverkefni innan háskólans í Cambridge. Verkefnið fólst í því að valin sprotafyrirtæki (e. start-ups) fengu tækifæri til að þróa hugmyndir sínar með aðstoð starfsfólks, sérfræðinga og nemenda innan háskólans og stofnana hans. Þessi aðstoð, sem stóð í tvö ár, var gríðarlega mikilvægur þáttur í öllu ferlinu við að koma Happy Academy á laggirnar og þróa fyrstu vörulínuna. Ég er sérlega stolt af því að mastersnemandi frá háskólanum í Cambridge valdi að gera lokaverkefnið sitt um Happy Academy, sem var mikill heiður fyrir mig.

“We all have superpowers” 

Hugsunin og hugmyndafræðin að baki Happy Academy var útfærð og þróuð áfram í kortalínuna sem að ofan greinir og ég ákvað að nefna “We All Have Superpowers”.

Hugmyndin á bak við Happy Academy á líka sínar rætur í persónulegri reynslu og einlægri trú á að lífið fari mýkri höndum um okkur ef við veljum jákvæða hugsun umfram þá neikvæðu.

Hvernig við hugsum og veljum að horfa á lífið er oftast val og að uppgötva það breytir miklu fyrir líðan okkar.

Happy Academy vill skapa sér vettvang á markaðnum með vörum sem gefa börnum og foreldrum þeirra tækifæri til að fræðast um þessa hugmyndafræði og nýta sér hana á jákvæðan hátt.

Kortin kenna að með því að hrósa öðrum gleður þú ekki bara þann sem fær hrósið (afmælisbarnið) heldur leiðir það einnig til þess að þú finnur sjálfur vellíðan sem aftur ýtir undir löngun til að endurtaka ferlið.

 

Hvernig er að vinna svona sjálfstætt?

Það að vinna sjálfstætt og ráða tíma sínum sjálfur er á margan hátt jákvætt, sérstaklega ef maður á 3 börn sem tilheyra bresku skólakerfi sem gerir ekki endilega ráð fyrir því að mæður vinni úti.

Það hefur verið ómetanlegt að vinna með fjölbreyttum hópi fólks innan Háskólans í Cambridge undanfarin tvö ár við að koma Happy Academy á laggirnar og útfæra hugmyndafræðina í fyrstu vörulínunni.

En það eru líka ókostir sem fylgja því og einn af þeim veigamestu skortur á félagstengslum. Oft er mjög gagnlegt og jafnvel nauðsynlegt að vinna í samstarfi við aðra sem geta gefið viðbrögð á hugsanir og hugmyndir sem maður hefur.

Samstarfið við Háskólann í Cambridge hefur í raun komið mér í gegnum þennan fyrsta fasa og gert það að verkum að mér tókst að stofna Happy Academy og þróa og hanna fyrstu vörulínuna.

 

Yndislegt ævintýri

Sara segir að tíminn sem hefur farið í að setja upp Happy Academy undanfarin tvö ár hafi verið ómetanlegur lærdómur og dýrmæt lífsreynsla. Þetta hefur verið algjört ævintýri og yndislegt að finna það frá fólki að það hafi trú á því sem ég er að gera og óski mér gæfu í því. Það hefur líka gert mikið fyrir mig að fá tvo styrki hérna úti sem hafa gefið mér tækifæri til að vinna með reyndum aðilum að því að þróa framtíðarsýn Happy Academy og gera markaðsrannsóknir á því hvaða leiðir eru færar fyrir fyrirtækið til að öðlast sérstöðu á markaði hér í Bretlandi og víðar. Tímarnir framundan eru því mjög spennandi og nú stefni ég að því að finna samstarfsaðila til að koma að því verkefni með mér. 

 

Kort sem gefa frá hjartanu

havar_happyacacemy1
Hávar með Happy Academy kort

Við þökkum Söru innilega fyrir spjallið og hlökkum til að fylgjast með henni stíga næstu skref. Hægt að kaupa kortin í gegnum heimasíðuna www.Happy-academy.com eða panta beint með því að senda henni tölvupóst á sara@happy-academy.com.

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."