Flest viljum fá svar við þessari spurningu og láta laga einn, tveir og þrír. Heitt bað, smá nudd og slökun og þá á allt að vera farið – svo við getum haldið áfram að vinna og gleymt okkur í amstri dagsins.
Málið er að oft kemur verkurinn aftur, vöðvabólgan er ekki farin og lausnin dugði skammt. En af hverju? Ástæðurnar geta verið ótalmargar. Það tekur tíma og orku að gefa því gaum hver undirliggjandi orsök er í raun og sjaldnast nennum við að sinna því – eðlilega. Við höfum ekki tíma og það er erfitt að skilja alla þá þætti sem geta legið á bak við verkinn.
Það er hins vegar töluvert mikilvægt að reyna að finna orsök verkja sem við finnum. Líkaminn er jú að segja okkur eitthvað: Þú vinnur of mikið, álagið er of einhæft, streitan er að taka sinn toll, svefninn skilar ekki nægri hvíld.
Tökum dæmi um þrjár mögulegar ástæður vöðvabólgu:
- Gamall ávani sem erfitt er að losa sig við; að sitja alltaf hokinn við skrifborðið, með hökuna fram og samanbitnar tennur. Við þessa stöðu geta brjóstvöðvar styst og vöðvar aftan til í hrygg og milli herðablaða slappast. Við það að þrýsta hökunni fram kemur aukin spenna aftan í hnakkafestur og kjálkavöðvar stífna upp. Ávaninn þarf ekki að vera leti eða léleg vinnuaðstaða eins og margir halda. Grunnurinn getur líka hafa verið óstöðugleiki í hálsi sem ekkert hefur verið spáð í áður, fyrr en vítahringsvöðvabólgan er að drepa mann.
- Örlítil skekkja til dæmis í mjaðmagrind, sem á uppruna sinn fyrir löngu eins og á meðgöngu eða við fall. Skekkjan og vöðvaójafnvægi getur leitað upp í brjóstkassa og ofhreyfanleiki getur orðið á vissum stöðum meðan aðrir liðir verða stífir. Við getum fljótt farið að misbeita okkur til að forðast verk sem getur valdið yfirspennu á ákveðnum vöðvum.
- Ofálag eða einhæft álag á axlarlið. Röskun á hreyfingu herðablaðs getur valdið því að axlarliður leitar fram og getur valdið bólgu við liðinn eða særingu á sinar vöðvanna í kringum hann. Einhverjir vöðvar eru of veikir á meðan aðrir taka að sér allt álagið og verða jafnvel stífir og stuttir.
Möguleikarnir og ástæður eru í raun endalausar.
Þegar verkurinn segir til sín getur verið gott að fara í heitt bað, taka verkjalyf og vona það besta. Kútur, bíllinn minn er aðeins farinn að kvarta og gefur frá sér skrítið hljóð. Þá finnst mér líka fínt að fara með hann í þvott, gefa honum bensín og klappa honum aðeins. Ég kemst hins vegar ekki upp með það lengi. Þegar að því kemur að ég þarf að binda púströrið upp með teipi, þá er ekki langur líftími eftir hjá honum blessuðum.
Þess vegna fer ég með hann í skoðun og viðgerð – mér ber skylda samkvæmt lögum að gera það á hverju ári. Ég fengi aldrei leyfi til að láta það duga að þvo hann, binda upp rörið og vona það besta. Það er bara hreinlega hættulegt heilsu hans og annarra. Ég veit líka ekkert hvernig ég ætti að skipta um spindilkúlu eða olíusíu. Þess vegna fer ég með hann til fagaðila sem hugsa vel um hann.
Hugsum vel um líkamann. Komum fram við okkur sjálf eins og við myndum gera fyrir börnin okkar og látum skoða okkur þegar við finnum fyrir verkjum.
Sjúkraþjálfarar eru sérmenntaðir í greiningu og meðhöndlun stoðkerfisvandamála. Á www.physio.is má leita upplýsinga um þeirra sérsvið. Það er þó sama hvaðan gott kemur, ýmiss konar fagaðilar geta hjálpað með sértæk vandamál. Aðalatriðið er að hlusta á viðvörunarmerkin og gera eitthvað í þeim. Við erum þess virði.