Vistvæn innkaup – Heilræði 2 (verslum vörur úr nærumhverfi)

0

Hvað eru vistvæn innkaup? Það flokkast til vistvænna innkaupa að velja vöru sem uppfyllir ákveðna þörf einstaklings (eða fyrirtækis/stofnunnar) sem hefur sem minnst neikvæð heilsufars- og umhverfisáhrif en aðrar sambærilega vörur.

Hér hef ég skrifað um eitt heilræði til að vera vistvænni í innkaupum með því að minnka plastnotkun en nú er komið að heilræði númer 2 – kaupum íslenskar vörur og þjónustu.

„Local purchasing“, „Buy local“ eða „Verslum úr nærumhverfi“ er að versla vörur (eða þjónustu) úr nærumhverfi (framleitt á Íslandi eða nálægt þar sem þú býrð) frekar heldur en vörur (og þjónustu) sem framleiddar eru lengra í burtu. Þetta er gert til að minnka neikvæð áhrif á umhverfið og heilsu, mynda betri tengsl milli framleiðanda og neytanda og ýta undir sjálfbærni og stöðugleika atvinnulífs.

Með því að kaupa íslenskar vörur á borð við kjöt, grænmeti, ávexti og annað erum við að minnka allan flutning þessara vara milli heimshluta.

Þar sem við búum á Íslandi fer mikil orkunotkun og flutningskostnaður í það að flytja vörur inn til landsins, sem leiðir til mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda og annara skaðlegra efna. Með því að velja vörur úr nærumhverfi (Íslandi) takmörkum við losun gróðurhúsalofttegunda og samkvæmt árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, var hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 85% af orkunotkun Íslands árið 2012. Því má segja að almennt er minni losun gróðurhúsalofttegunda í framleiðsluferlum hér á Íslandi vegna endurnýjanlegra orkugjafa.

Með því að versla vörur og þjónustu úr nærumhverfi (frá Íslandi) minnkum við orkunotkun og flutningskostnað, ýtum undir frumkvöðlastarfsemi sem hvetur til vöruþróunar og fjölbreytileika vöruúrvals og styrkjum íslenskt hagkerfi.

Einnig eru ákveðnar verslanir sem bjóða upp á þann möguleika að kaupa beint af bónda sem styður einnig við einstaklinginn.

Ef þú vilt stunda vistvæn innkaup er gott að muna að því styttri vegalengd sem það tekur til að flytja vöruna í búðina/markaðinn því betra. Ef það er í boði, þá er gott að velja slíkar vörur frekar en þær sem komu lengra frá.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.