Viltu vita meira um te?

0

Ákveðin efni í fæðunni eru lífsnauðsynleg fyrir okkur mannfólkið og þar undir eru orkuefnin kolvetni, prótein og fita auk vítamína og steinefna. Önnur efni sem finnast í fæðunni eru ekki lífsnauðsynleg til vaxtar og viðhalds en gera okkur gagn á annan máta.

Andoxandi efni í te

Plöntur mynda svokölluð plöntuefni (phytochemicals) sér til varnar en þessi efni virðast einnig veita mönnum vernd gegn ýmsum sjúkdómum. Mörg plöntuefni hafa andoxunarvirkni sem hjálpar til við að verjast frumuskemmdum, önnur stuðla að ákveðnum efnahvörfum sem minnka áhrif estrógens í líkamanum (estrógen tengist aukinni áhættu á krabbameinum í brjósti og æxlunarfærum) og enn önnur hafa bakteríudrepandi áhrif.

Pólýfenólar (polyphenols) eru  plöntuefni sem hafa andoxunarvirkni. Pólýfenólar finnast í mestu magni í drykkjum unnum úr ávöxtum og plöntum. Af drykkjum sem innihalda pólýfenóla má nefna te, ávaxtasafa og kaffi (1).

Hvað gerir tedrykkja fyrir heilsuna?

Margir rannsóknarhópar hafa beint sjónum sínum að áhrifum tedrykkju  á heilsu. Helstu niðurstöður þessara rannsókna sýna að mikil tedrykkja veitir vernd gegn:

  • Hjarta- og æðasjúkdómum og heilablóðfalli (3456, 7)
  • Krabbameinum (8, 9) – hér virðist grænt te minnka áhættuna á krabbameini í brjóstum, legi og blöðruhálskirtli (10)
  • Háþrýstingi (11, 12)
  • Lifrarsjúkdómum – á sérstaklega við um grænt te (13)

Ekki láta blekkjast af því að tedrykkja eigi að valda þyngdartapi en nýleg yfirlitsrannsókn hefur tekið saman áhrif af grænu tei á þyngdartap eða til að viðhalda þyngdartapi og voru áhrifin lítil sem engin (14). Þegar einstaklingur vill léttast er vænlegra til árangurs að taka heildstæða nálgun með lífsstílsbreytingu sem tekur til fleiri þátta í daglegu lífi en bara tedrykkju.

Hins vegar má ekki gleyma að tedrykkja er góð leið til að tryggja að við fáum nægan vökva yfir daginn en mælt er með því að fullorðnir einstaklingar fái um það bil einn til einn og hálfan lítra af vökva daglega (15). Mikið úrval af bragði og tegundum af tei ætti að gera sem flestum kleift að finna eitthvað fyrir sinn smekk og tileinka sér tedrykkju.

Er hægt að drekka of mikið  te?

Eins og fram hefur komið þá virðist tedrykkja hafa góð áhrif á heilsuna og safngreining (meta-analýsa) sem skoðaði samband tedrykkju við heilablóðfall, sýndi að þeir sem drukku 3 bolla af grænu eða svörtu te daglega  voru 21% ólíklegri til að fá heilblóðfall (4). Tvær rannsóknir hafa sýnt að sama magn af tei minnki líkur á sumum tegundum krabbameina (8, 9).

Til að virkni efnanna í tei haldist sem best er mælt með að sleppa því að nota mjólk út í teið – það er þó ekki afgerandi þáttur og betra er að drekka te með mjólk en að sleppa því alveg (1).

Toned photo of woman warming up with hot tea at fireplace

Kostirnir eru margir við  tedrykkju og endilega hugleiðið að bæta allavegana einum bolla inn í daglegt mynstur ásamt fleiri skemmtilegum hlutum eins og að borða vel af ávöxtum og grænmeti daglega og stunda hreyfingu reglulega.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.