Hentar CrossFit fyrir þig?

0

Gígja Hrönn Árnadóttir CrossFit þjálfari sem hefur keppt á tveimur Evrópukeppnum og tveimur heimsmeistarakeppnum svarar hér spurningum um þessa nýju íþróttagrein sem er sífellt að verða vinsælli.

Gígja Hrönn Árnadóttir, CrossFit þjálfari
Gígja Hrönn, CrossFit þjálfari

Hvaða bakgrunn hefur þú sem þjálfari? Ég er íþróttafræðingur (B.Sc) frá Íþróttafræðasetri Háskóla Íslands á Laugarvatni og með meistaragráðu (M.Sc) í æfinga- og heilsufræðum frá Kingston University í London.

Ég hef mikla reynslu í þjálfun frá því ég var unglingur, hef þjálfað sund, BootCamp og hóptíma í líkamsræktarstöðvum og síðustu árin hef ég verið að þjálfa CrossFit og er orðin algjörlega háð því.

 Hvenær byrjaðir þú að æfa fyrst CrossFit? Ég byrjaði að æfa í janúar 2011. Áður æfði ég sund og aðrar íþróttagreinar ásamt því að æfa hjá BootCamp í nokkur ár.

 Hvernig varð CrossFit til? Þetta æfingakerfi var hannað árið 2000 af Greg Glassman og Lauren Janie. Búið til með þeim tilgangi að fá fleiri til að hreyfa sig og ætlað fyrir bæði almenning til almennrar hreyfingar en einnig fyrir keppnisfólk. CrossFit skilar miklu líkamlegu hreysti á mjög breiðum grunni.

CrossFit kerfið er hannað þannig að hægt er að aðlaga æfingarnar að getu allra, óháð líkamlegri færni og þess vegna er það tilvalið fyrir hvern sem er.

Sömu æfingar eru gerðar af eldri borgurum og afreksíþróttamönnum, þyngdir og ákefð er aðlöguð en við breytum ekki kerfinu.  Það eru yfir 10.000 CrossFit stöðvar í Ameríku og örugglega álíka um allan heim.

Hvert er markmiðið með CrossFit? Markmiðið með CrossFit er að fá fleiri til að hreyfa sig og auka lífsgæði og heilsu fólks. Einnig að stuðla að fjölbreyttari hreyfingu með aukinni hreyfigetu. Festa ekki íþróttamanninn í ákveðnum hreyfingum, eins og föstu æfingatækin gera.

Hvernig er prógrammiðPrógrammið er sett þannig upp að við þjálfum allan líkamann með sífelldum breytileika. Þar eru fimleikaæfingar og æfingar með eigin líkamsþyngd eins og armbeygjur og upphífingar, lyftingaæfingar eins og ólympískar lyftingar, kraftlyftingar og æfingar með lóð t.d ketilbjöllur og þriðji þátturinn er þolæfingar eins og hlaup, hjól og róður.

Getur hver sem er æft þessa íþróttagrein og hvað ber helst að varast? Já, það geta allir æft CrossFit. Það fara allir á sínum hraða og gera eins og þeir geta. Við pössum vel upp á að fólk geri æfingarnar vel, en það að gera æfingar illa eða það að fara of geyst af stað er það sem þarf að mest að varast. Mestu erfiðleikarnir snúa að hreyfigetu eða þegar iðkendur eru mjög stífir og eiga þar af leiðandi erfitt með að gera æfingarnar rétt. Við, þjálfararnir leggjum mikið upp úr því að  hjálpa iðkendum að liðka sig og er partur af hverjum tíma tileinkaður liðleikaæfingum.

 Fréttir hafa borist af því að sumir fái rhabdomyolisis (alvarlegt vöðvaniðurbrot) eftir CrossFit æfingar – verðið þið vör við það? Hef ekki heyrt um neitt tilfelli hjá okkur. En við pössum upp á að fólk geri ekki of mikið af æfingum sem geta valdið rhabdomyolisis eins og armbeygjur og upphífingar. Þetta á helst við um fólk sem var í góðu formi og kemur aftur eftir langa pásu og fer á sama stað og það hætti. Þegar við erum með margar endurtekningar af þessum æfingum þá biðjum við fólk um að gera minna sérstaklega þeir sem eru að byrja eða hafa verið í fríi.

Margir gagnrýna þessa íþróttagrein og segja hana allt of erfiða fyrir hinn venjulega meðalmann og jafnvel ganga líka of langt fyrir atvinnumenn – ertu sammála þvíNei, er ekki sammála því. Held að fólk sé búið að mikla þetta of mikið fyrir sér af sögum út í bæ og hefur ekki prufað af eigin reynslu. Eins og í öðrum íþróttagreinum þá ber að gera æfingarnar vel, hlusta á líkamann og gera æfingar miðað við eigin getu. Sem dæmi myndi meðalmaður aldrei æfa sund eins og ólympíufari en það er ekki þar með sagt að sundæfingar séu ekki góðar fyrir þig og öfugt að sundæfingar geti ekki verið alltof erfiðar.

Ertu með einhver ráð til þeirra sem eru að spá hvort þær ættu að prófa þessa gerð af heilsurækt? Skella sér á grunnnámskeið í CrossFit. Í versta falli lærir fólk að gera æfingarnar vel og lærir allt um íþróttina sem nýtist þeim óháð því hvaða tegund af hreyfingu það velur að æfa seinna meir.

 Viltu deila með okkur hvaða lífsspeki hentar vel til að ná jafn langt og þú hefur gert í þessari íþróttagrein? Mikilvægt að hafa gaman af því sem þú gerir og njóta þess að æfa í góðum félagsskap. Hver æfing er mikilvæg og þarf að gera eins vel og maður getur á hverri æfingu. Einnig þarf að hlusta á líkamann og ef maður er mjög þreyttur þá þarf að hvíla hann.

 Hvað er skemmtilegast við starfið þitt? Það er svo margt, en sérstaklega er gaman að fylgjast með árangri og gleði fólks sem kemur til okkar. Það eru forréttindi að fá að vera með fólki í þeirra frítíma og sjá þau þjást og gleðjast yfir erfiðum æfingum og góðum árangri. Að hvetja fólk áfram er skemmtilegt því að allir eiga alltaf einhverja auka orku til.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.