Vestrænt fæðumynstur eykur dánarlíkur karla með blöðruhálskirtilskrabbamein

0

Nýleg bandarísk rannsókn sem skoðaði mataræði karla sem allir voru með staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli, sýndi fram á mun á lífslíkum eftir fæðumynstri (dietary pattern) þeirra. Þátttakendur voru 962 karlar, læknar að mennt og þeim fylgt eftir að meðaltali í 14 ár.

Samanborið við þátttakendur sem borðuðu mikið af baunum, ávöxtum, grænmeti, heilkorni, hvítlauk, sojavörum, fiski og jurtaolíum (heilsusamlegt fæðumynstur) reyndust þátttakendur sem borðuðu mikið af rauðu og/eða unnu kjöti, feitum mjólkurvörum, sykruðum vörum og fínunnum kornvörum (vestrænt fæðumynstur) í rúmlega tvöfalt aukinn hættu á að látast af völdum krabbameinsins.

Þeir sem borðuðu dæmigert vestrænt fæði voru einnig í aukinni hættu (67%) á að látast af völdum annarra sjúkdóma.

Collection of fresh purple fruit and vegetables on the black wooden table

Í viðtali við Reuters sagði einn höfunda greinarinnar að flestir þeir sem greinast með þessa tegund af krabbameini eigi mjög góða möguleika á að lifa lengi með sjúkdóminn og að það sé ekki of seint að byrja að borða heilsusamlega, þrátt fyrir að menn hafi greinst með sjúkdóminn fyrir nokkrum árum síðan.

Á Íslandi greinast árlega rúmlega 200 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli. Meðalaldur þeirra sem greinast er 69 ár. Við árslok árið 2012 voru tæplega 2000 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtil á Íslandi (1).

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.