Veldur kúamjólk brjóstakrabbameini?

0

Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum og Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands rita:

Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum

Í sérblaði Fréttablaðsins um vegan fæði þann 1. nóvember 2017 var því haldið fram að kúamjólk væri einn helsti áhættuþáttur fyrir hormónatengdum krabbameinum á borð við brjóstakrabbamein.

Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri

Þessi staðhæfing á sér enga stoð samkvæmt þeim fjölmörgu rannsóknum sem gerðar hafa verið til að kanna hvort neysla á mjólk og mjólkurvörum sé áhættuþáttur fyrir brjóstakrabbamein. Árið 2011 var birt safngreining (meta-analysis) þar sem teknar voru saman niðurstöður 18 ferilrannsókna með alls um milljón þátttakendum. Niðurstaðan var sú að ekkert samband fannst á milli mjólkurneyslu og brjóstakrabbameins og í raun mátti sjá vísbendingar um lækkaða áhættu hjá konum með aukinni neyslu mjólkurafurða (1). Svipaðar niðurstöður komu fram í safngreiningu frá árinu 2015 þegar skoðaðar voru 27 rannsóknir, með alls um 1,5 milljón þátttakendum. Aftur bentu niðurstöður til minnkandi áhættu á brjóstakrabbameini með aukinni neyslu mjólkurafurða, sérstaklega meðal asískra kvenna (2).

Þess ber einnig að geta að bæði Bandaríska krabbameinsrannsóknastofnunin og Alþjóðakrabbameinsrannsóknasjóðurinn (American Institute of Cancer Research og World Cancer Research Fund) gefa reglulega út ítarlegar skýrslur um tengsl mataræðis, hreyfingar og krabbameins þar sem farið er yfir nýjustu rannsóknir á þessu sviði. Í skýrslu sem gefin var út á árinu 2017 var það mat þeirra að neysla á mjólkurvörum væri ekki áhættuþáttur fyrir brjóstakrabbamein. Þvert á móti fundust vísbendingar um að neysla á mjólkurvörum gæti dregið úr hættu á brjóstakrabbameini sem greinist fyrir tíðahvörf (3).

Mun minna hefur verið rannsakað hvort neysla mjólkurafurða eftir greiningu á brjóstakrabbameini hafi áhrif á framgang sjúkdómsins og gefa þær örfáu rannsóknir sem til eru misvísandi niðurstöður. Árið 2013 birtist bandarísk rannsókn sem benti til þess að neysla á fituríkum mjólkurafurðum, smjöri og eftirréttum með rjóma, hefði tengingu við verri horfur kvenna með brjóstakrabbamein, auk þess sem tenging við aukna dánartíðni af öðrum orsökum en brjóstakrabbameini sást samhliða neyslu fituríkra mjólkurvara eftir greiningu. Engin tengsl fundust hins vegar milli neyslu á fituminni mjólkurafurðum og lífshorfa kvennanna (4). Í sambærilegri ítalskri rannsókn fannst hins vegar ekki samband á milli neyslu fituríkra mjólkurafurða og verri lífshorfa eftir greiningu (5). Ljóst er að þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum mjólkurneyslu á framgang brjóstakrabbameins.

Almennar ráðleggingar varðandi áherslur í mataræði má finna hjá Embætti landlæknis. Þar er ráðlagt að velja fituminni, ósykraðar eða lítið sykraðar mjólkurvörur án sætuefna. Hæfilegt magn er talið vera tvö glös, diskar eða dósir af mjólk eða mjólkurvörum á dag (500 ml).

Þessi pistill birtist á visir.is þann 11. janúar 2018. 

Heimildarskrá:

  1. Dong JY, Zhang L, He K, Qin LQ. Dairy consumption and risk of breast cancer: a meta-analysis of prospective cohort studies. Breast cancer research and treatment. 2011;127(1):23-31.
  2. Zang J, Shen M, Du S, Chen T, Zou S. The Association between Dairy Intake and Breast Cancer in Western and Asian Populations: A Systematic Review and Meta-Analysis. J Breast Cancer. 2015;18(4):313-22.
  3. World Cancer Research Fund International/American Institute for Cancer Research Continuous Update Project Report: Diet N, Physical Activity, and Breast Cancer. 2017.
  4. Kroenke CH, Kwan ML, Sweeney C, Castillo A, Caan BJ. High- and low-fat dairy intake, recurrence, and mortality after breast cancer diagnosis. Journal of the National Cancer Institute. 2013;105(9):616-23.
  5. Zucchetto A, Franceschi S, Polesel J, Parpinel M, Dal Maso L. Re: High- and low-fat dairy intake, recurrence, and mortality after breast cancer diagnosis. Journal of the National Cancer Institute. 2013;105(22):1759-60.

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.