Valmöguleikar barnshafandi kvenna aukast á ný

0

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á þjónustu við barnshafandi konur. Til ársins 1996 var starfrækt fæðingarheimili við Eiríksgötu en við lokun þess hafa fæðingar á höfuðborgarsvæðinu farið fram á hátæknisjúkrahúsi eða í heimahúsum. Til þess að mæta þörfum hraustra kvenna í eðlilegri meðgöngu stóð konum til boða að fæða í Hreiðrinu, sem var ljósmóðurrekin fæðingadeild á Landsspítalanum. Árið 2014 var Hreiðrinu hins vegar lokað og valkostum fæðandi kvenna fækkaði því enn.

Um leið og ljósmæðrastýrðum einingum hefur fækkað hefur notkun á sértækari úrræðum eins og gangsetningu og mænudeyfingum aukist til muna.

Á síðustu árum hefur fæðingarstöðum á landsbyggðinni einnig farið fækkandi. Barnshafandi konur búsettar utan höfuðborgarsvæðisins hafa því þurft í auknum mæli að koma til Reykjavíkur til þess að fæða börn sín og dvelja þá hjá ættingjum eða vinum bæði fyrir og eftir fæðingu. Þar sem þær eru fjarri heimilum sínum og heimafæðing því ekki valkostur  hafa þær yfirleitt um lítið að velja annað en fæðingu á fæðingarvakt Landspítala.

Á Landspítalnum er nú rekin ein stór þverfagleg fæðingardeild, Fæðingarvaktin, þar sem bæði áhættufæðingar og eðlilegar fæðingar fara fram og hefur fæðingum þar fjölgað undanfarin ár vegna lokunar fæðingarstaða á landsbyggðinni. Árið 2015 fæddust 75% allra barna á Landspítalanum en til samanburðar fæddust þar um 70% allra barna árið 2008 (Skýrslur úr fæðingarskrá).

Valkostum fjölgar á ný fyrir barnshafandi konur

Á dögunum opnaði ljósmóðurrekin fæðingastofa, Björkin í Reykjavík þar sem hraustum konum í eðlilegri meðgöngu býðst á ný samfelld þjónusta ljósmóður á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Þar hafa konur möguleika á fæðingu utan hátækni-sjúkrahúss, hvort sem þær eru búsettar á höfuðborgarsvæðinu eða ekki undir handleiðslu ljósmæðra. Ljósmæðurnar sem starfa í Björkinni sinna konum sem stefna á að eiga barn sitt á Fæðingastofu Bjarkarinnar eða í heimahúsi.

Fjölmargar rannsóknir benda til þess að öruggara sé fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu að fæða utan hátæknisjúkrahúss, annað hvort á heimilum sínum eða á fæðingarheimilum með aðstoð ljósmóður því notkun inngripa sé minni þar og útkoman sú sama fyrir barnið(1, 2). Í samræmi við þessar niðurstöður voru gefnar út nýjar leiðbeiningarnar National Institute of Clinical Excellence (NICE) um meðgöngu og fæðingarhjálp í Bretlandi haustið 2014. Þar er mælt með því að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu, sérstaklega þær sem áður hafa fætt barn, fæði heima hjá sér eða á fæðingarheimilum í umsjá ljósmóður frekar en á fæðingadeild á sjúkrahúsi.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa undanfarin ár stuðst við leiðbeiningar NICE við mótun barneignarþjónustu hér á landi. Íslensku leiðbeiningar um val á fæðingarstað hafa þó ekki verið uppfærðar síðan árið 2007 og því er nýjasta uppfærsla NICE um val á fæðingarstað ekki inn í nýjustu útgáfu okkar leiðbeininga hér á landi. Á Íslandi styðjast ljósmæður og læknar við leiðbeiningar Embættis landlæknis um val á fæðingarstað og þar eru skilgreind fjögur mismunandi þjónustustig fæðingastaða, þar sem A táknar Landspítala og D er fæðingarstaður sem hentar konum aðeins þegar meðganga er eðlileg og fæðing talin verða án aukinnar áhættu að mati læknis og ljósmóður. Fæðingarstofa Bjarkarinnar er skilgreind sem fæðingarstaður með þjónustustig D samkvæmt þessum leiðbeiningum, líkt og fæðingardeildir á Selfossi og í Keflavík.

Hvað eru konur að velja þegar þær fæða utan hátæknisjúkrahúss?

Þær konur sem að velja fæðingarþjónustu utan hátæknisjúkrahúss eiga kost á sammfelldri  þjónustu ljósmóður, en rannsóknir sýna að slík þjónusta styttir legutíma á spítala, fækkar inngripum og bætir útkomu fæðinga auk þess sem ánægja kvenna er meiri (3). Björkin veitir samfellda þjónustu ljósmóður frá 34. viku meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Konurnar eru í mæðravernd á sinni heilsugæslustöð í byrjun meðgöngu en sækja þjónustu frá ljósmæðrum Bjarkarinnar frá 34. viku meðgöngu. Konan kemur í 3-5 í mæðraskoðanir fram að fæðingu, fær aðstoð við fæðingu í fæðingastofunni, dvelur þar fyrstu tímana eftir fæðingu, og fær svo heimaþjónustu í sængurlegu á heimili sínu eða þar sem hún hefur aðsetur ef hún er utan að landi. Allar mæðraskoðanir fara fram á sjálfri fæðingarstofunni sem gefur konunni tækifæri til að þekkja vel sinn fæðingarstað. Sömu ljósmæður sinna henni á meðgöngu og í fæðingu sem gefur þeim tækifæri til að kynnast vel og mynda traust samband.  Þessir þættir stuðla að auknu sjálfsöryggi kvenna sem hefur áhrif á líðan þeirra í fæðingu og ánægju með fæðinguna. Ljósmæður vinna í pörum og sinna ákveðnum fjölda kvenna. Þannig er tryggt að alltaf sé ljósmóðir sem konan þekkir með henni í fæðingu.

Hvenær er ráðlagt að velja fæðingarstað með sérhæfðara þjónustustig?

 Konur með eftirfarandi frábendingar er ráðlagt að fæða á fæðingarstað með sérhæfðara þjónustustig:

 • Sjúkdómur, heilsufarsástand eða lyfjanotkun sem getur haft áhrif á gang fæðingar, meðvitundarástand móður og heilsu barns eftir fæðingu.
 • Líkamsástand móður sem talið er geta haft áhrif á útkomu fæðingar, svo sem BMI undir 18 og yfir 35, reykingar, notkun vímuefna og áfengis.
 • Heilsufar móður og önnur frávik á meðgöngunni, svo sem blóðflokkamisræmi, meðgöngueitrun, meðgöngusykursýki, fjölburameðganga, fyrirsæt fylgja, blóðleysi og alvarlegur gallstasi.
 • Fyrri fæðingasaga móður, svo sem keisaraskurður, axlarklemma og óeðlileg blæðing vegna lélegs samdráttar í legi.
 • Konur sem eiga vona á barni með eftirfarandi frábendingar er einnig ráðlagt að fæða á fæðingastað með hærra þjónustustig:
  • Þekkt heilsufarsvandamál eða þekktur fæðingagalli barns sem þarfnast skoðunar barnalæknis strax eftir fæðingu.
  • Sitjandi staða, þverlega eða skálega barns í lok meðgöngu.
  • Stærð barns utan eðlilegra marka, áætluð vaxtarseinkun meiri en -24%, áætluð þyngd meiri en 4500 gr eða barnið talið of stórt fyrir líkamsbyggingu móður.

Höfundur er ljósmóðir á Fæðingastofu Bjarkarinnar.

Tengt efni

Val á fæðingarstað

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.