Tíu ástæður til að nota smokkinn

0

Smokkurinn virðist ekki vera mjög vinsæll um þessar mundir samkvæmt viðtali við lækni á Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans, sem birtist nýverið í fréttablaði.

Í hita leiksins getur þótt lítið spennandi að nota smokk, en afleiðingar þess geta hins vegar verið minna spennandi og valdið mikilli eftirsjá.

Fyrir utan að nota ekki smokkinn þá aukast líkur á smiti samhliða fjölda bólfélaga. Að hafa einungis átt einn rekkjunaut getur þó einnig leitt til smits því ef sá eða sú hefur komið víða við í ástarleikjum, aukast einnig líkur á smiti.

Þumalputtareglan er sú að til að minnka líkur á smiti er best að halda sig við sama bólfélagann, en ef það er ekki í boði gerir smokkurinn einnig sitt gagn. Sumir hafa haldið því fram að smokkurinn veiti ekki fullkomna vörn en hann ver þau svæði sem hann hylur: svæðin sem valda oftast smiti.

Ef þú sefur hjá án þess að nota smokk þá getur það valdið ýmsum kynsjúkdómum. Kynsjúkdómar geta smitast milli allra svæða sem komast í snertingu, t.d. getnaðarlims, legganga og legháls, endaþarms, háls og koks. Hér eru 10 ástæður til að nota smokkinn ef þú sefur hjá nýjum rekkjunaut.

  1. HPV-veirusmit er algengasti kynsjúkdómurinn hér á landi sem annars staðar. Flestir sem smitast ná að losa sig sjálfir við veiruna og vita því oft ekki af því að hafa smitast. Í um 10% tilfella getur veiran valdið alvarlegum frumubreytingum sem með tímanum geta þróast í krabbamein í leghálsi, endaþarmi eða krabbamein í hálsi og koki.
  2. Klamydía er bráðsmitandi kynsjúkdómur og Íslendingar hafa átt Norðurlandamet í tíðni smita undanfarin ár. Menn geta gengið lengi með klamydíu án þess að hafa nokkur einkenni og með tímanum getur klamydía valdið ófrjósemi.
  3. Sýfilis (sárasótt) hvarf næstum af sjónarsviðinu hér á landi síðustu áratugi en virðist vera að ná fótfestu aftur. Í byrjun smits myndast sár sem gróa á 3-6 vikum. Bakterían lifir áfram í líkamanum þrátt fyrir að sárin grói og nokkrum mánuðum síðar geta komið fram flensulík einkenni. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður getur bakterían valdið blindu, vitsmunaglöp, skemmd á hjarta og leitt til dauða síðar meir. Ef þunguð kona smitast af bakteríunni getur bakterían valdið fósturskaða.
  4. Lekandi getur valdið ófrjósemi eins og klamydía, bæði hjá körlum og konum. Einnig getur hann valdið sýkingu og bólgum í liðum, augnsýkingum og kviðarholi.
  5. Herpes getur smitað kynfæri eins og varir eða munnhol. Engin leið er til að losna við veiruna og hún getur smitað barnið lífshættulega í fæðingu sé móðirin sýkt.
  6. HIV/alnæmi veldur ævilöngu smiti en veiran ræðst á ónæmiskerfið og eykur líkur á fjölda annarra sjúkdóma til langs tíma.
  7. Lifrarbólguveira B er lífshættulegur sjúkdómur sem smitast meðal annars með kynmökum. Með tímanum getur hún valdið skorpulifur, lifrarkrabbameini og jafnvel ótímabærum dauða.
  8. Ófrjósemi er einn algengasti fylgikvilli kynsjúkdómasmits eins og klamydíu eða lekanda.
  9. Ótímabær þungun er ein afleiðing þess að nota ekki smokk, þ.e. þegar engar aðrar getnaðarvarnir eru notaðar. Fóstureyðingar eru talsvert algengar en það fylgir mikið andlegt álag fyrir móður að taka þá ákvörðun að láta eyða fóstri.
  10. Ábyrgð og gott fordæmi. Sá sem kýs að nota smokkinn í stað þess að taka ofangreindar áhættur sem fylgja því að stunda óvarið kynlíf tryggir ekki eingöngu sjálfan sig gegn smiti heldur einnig þann sem hann sefur hjá.  

Það er ágæt regla að fara í kynsjúkdómapróf hafi maður sofið hjá einhverjum sem hefur sofið hjá öðrum án þess að nota smokkinn. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málið betur er hægt er að hafa samband eða panta tíma á Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans.

 

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."