Tíðni fyrirburafæðinga jókst eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum

0

Niðurstöður nýbirtrar rannsóknar gefa til kynna að tíðni fyrirburafæðinga í New York jókst eftir forsetakosningarnar árið 2016, sérstaklega meðal kvenna af suður-amerískum uppruna fæddum utan Bandaríkjanna. Tíðni fyrirburafæðinga hjá þessum hópi kvenna jókst um 7% fyrstu mánuðina eftir að Donald Trump var settur í embætti sem forseti Bandaríkjanna samanborið við mánuðina fyrir tilnefningu hans sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Aukningin var enn meiri eða 15% þegar aðeins var litið til innflytjenda frá Mexíkó og öðrum löndum Suður-Ameríku. Tíðni fyrirburafæðinga á meðal kvenna sem áttu uppruna sinn í Bandaríkjunum var hins vegar óbreytt.

Helstu skýringar á þessum niðurstöðum

Rannsakendur leiða að því líkur að þessa aukningu í fyrirburafæðingum hjá suður-amerískum konum megi rekja til kosningabaráttu Donalds Trump sem var mjög lituð af hatursáróðri gagnvart innflytjendum í Bandaríkjunum. Ummæli Trumps um að allir innflytjendur og þá sér í lagi þeir sem eiga uppruna sinn í Mexíkó séu nauðgarar, eiturlyfjasmyglarar og glæpamenn voru gegnumgangandi stef í kosningabaráttu hans. Eftir að Trump var kosinn í embætti hefur hatursorðræðan stigmagnast og þróast yfir í mjög harða innflytjendastefnu. Það er alveg ljóst að slík orðræða hefur neikvæð áhrif á þá samfélagshópa sem hún beinist gegn og er til þess gerð að skapa ótta, streitu og óöryggi.

Aðrar rannsóknir sem hafa skoðað tengsl  milli streitu og meðgöngulengdar, meðgöngukvilla og fæðingaútkoma

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að streita og alvarleg áföll af ýmsum toga á meðgöngu geta orðið til þess að börn fæðast fyrir tímann eða fæðast of létt fyrir meðgöngulengd vegna vaxtarskerðingar (1, 2, 3). Konur sem upplifa missi nákomins á meðgöngu, lifa við ógn af ofbeldi eða eru á annan hátt undir miklu álagi eru í áhættuhóp fyrir þessar óhagstæðu útkomur fæðinga. Ennfremur má geta þess að konur á Íslandi sem voru ófrískar í kringum efnahagshrunið árið 2008 þjáðust frekar af meðgöngutengdum háþrýstingi og voru líklegri til að eignast léttbura samanborið við konur sem voru ófrískar fyrir hrunið (4). Barn telst vera fyrirburi ef það fæðist fyrir 37. viku meðgöngu.

Lokaorð

Ófullburða börn eru minni og oft á tíðum veikburða og stríða oft við heilsufarsvandamál, bæði skömmu eftir fæðingu en einnig þegar fram líða stundir með auknum líkum á krónískum sjúkdómum og frávikum í þroska og hegðun. Af niðurstöðum þessarar rannsóknar virðist ljóst að áhrifa hatursorðræðu Donalds Trump gætir víða og eru ófædd börn í móðurkviði þar ekki undanskilin.

Share.

Védís er matvælafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Embættis landlæknis.