Þurfum við fæðubótarefni?

0

Nýlega var sýndur sjónvarpsþáttur hjá RÚV þar sem því var haldið fram að neysla fæðubótarefna væri svo til óþörf og einnig má sjá nýlega frétt um svipað málefni inná MBL, þar sem segir að: “flest­ir þeirra sem taka fjölvíta­mín eru að greiða fyr­ir kostnaðar­söm þvag­lát, seg­ir for­seti lækna­sam­taka Ástr­al­íu (Austr­ali­an Medical Associati­on), Michael Gannon” og er þar vitnað í upprunlegt viðtal hjá The Guardian.

Hverjir ættu að taka fæðubótarefni?

Ákvörðunin sem liggur að baki því að taka fjölvítamín eða önnur fæðubótarefni ætti að vera vel ígrunduð. En þó þarf að hafa í huga að sum efni þurfum við einfaldlega að fá með fæðubótarefnum. Á þetta sérstaklega við um D-vítamín og fólasín.

Á Íslandi mælir Embætti landlæknis með því að að við fáum D-vítamín aukalega með fæðubót svo sem með því að taka lýsi eða töflur. Einnig er konum á barneignaraldri ráðlagt að taka fólasín aukalega en það minnkar líkur á miðtaugakerfisgöllum hjá fóstri á meðgöngu. Önnur næringarefni ættum við að geta fengið með hollu og fjölbreyttu fæði.

Einstaklingar með fæðuofnæmi og fæðuóþol gætu þurft aukalega fæðubótarefni til að bæta fyrir þau næringarefni sem koma úr fæðutegundum sem sneiða þarf hjá. Einnig má nefna að börn, unglingar og konur á barneignaraldri eru algengasti hópurinn sem þjáist af járnskorti og því þarf að huga vel að fæðutegundum sem innihalda járn fyrir þessa hópa. Grænkerar þurfa aukalega B12-vítamín með fæðubót.

Lokaorð

Spáum vel í hvað við kaupum til að “bæta” heilsuna okkar. Hollt og fjölbreytt mataræði og hreyfing við hæfi kemur okkur ansi langt.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.