Þingmenn reyna að koma í veg fyrir dauðsföll meðal fyrirsæta

0

Franska þingið setti, í apríl á síðasta ári, lög sem banna tískuiðnaðinum þar í landi að ráða lífshættulega grannar fyrirsætur til að sýna vörur sínar. Fylgdi Frakkland þar í fótspor fleiri landa sem hafa farið svipaðar leiðir, en talið er að með lagasetningunni gætu Frakkar haft raunveruleg áhrif til breytinga.

Sérfræðingar við Harvard School of Public Health telja að með því að banna að lífshættulega grannar fyrirsætur starfi í tískuiðnaðinum megi draga úr líkunum á að fyrirsætur og þeir sem sækjast eftir því að líkjast þeim (þá sérstaklega ungar stúlkur), þrói með sér alvarleg heilsufarsleg vandamál eins og lystarstol.

Talið er að líkamsþyngdarstuðull (BMI) hinnar dæmigerðu fyrirsætu sé töluvert fyrir neðan viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um lífshættulega undirþyngd. Til eru dæmi þess að fyrirsætur hafi látist vegna afleiðinga sveltis, jafnvel strax í kjölfarið af stóru verkefni á sviði tískunnar.

Bandaríkjamenn hafa hug á að setja á svipuð lög en búa sig undir það að tískuiðnaðurinn þar í landi mótmæli harðlega. Þeir telja að möguleg rök gegn lagasetningu verði að BMI stuðulinn sé óáreiðanlegt mælitæki fyrir heilsufar. Bryn Austin, prófessor við Harvard háskóla, bendir hins vegar á að þær takmarkanir sem fylgja BMI stuðlinum hafa minna vægi þegar kemur að öfgum í holdafari, sérstaklega þegar kemur að undirþyngd. Hún bendir á að BMI stuðullinn sé mikilvægt mælitæki til að meta lífshættulega undirþyngd, í ljósi þess hversu algengt lystarstol er meðal fyrirsæta, auk þeirra alvarlegu afleiðinga sem sjúkdómurinn getur haft í för með sér.

Ef Bandaríkjamenn feta í fótspor Frakka og banna ráðningar á lífshættulega grönnum fyrirsætum mun það hrista vel upp í tískuiðnaðinum. Slík löggjöf myndi að öllum líkindum hafa gríðarleg áhrif á nokkrar af stærstu tískusýningum heims eins og New York City og Paris Fashion Weeks og setja þrýsting á hönnuði að ráða fyrirsætur með heilbrigt holdafar til að halda stöðu sinni innan iðnaðarins.

Átraskanir

Átraskanir eru alvarlegir geðsjúkdómar sem einkennast af afbrigðilegu mataræði og megrunaráráttu og valda oftast alvarlegum líkamlegum og andlegum einkennum. Lystarstol (e. anorexia nervosa) einkennist af megrunaráráttu og brenglaðri líkamsímynd og er orsök þess talin vera samspil umhverfis- og erfðaþátta. Dánartíðni einstaklinga sem þjást af lystarstoli er há, en talið er allt að 10% sjúklinga deyi af völdum líkamlegra afleiðinga lystarstols eða sjálfsvígs. Sjá nánari umfjöllun um átraskanir í samantekt Læknablaðsins.

Greinin er unnin í samstarfi við Eddu Björk Þórðardóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum.

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum