Þekkirðu áhættuþætti magakrabbameins?

0

Alþjóðakrabbameinsrannsóknasjóðurinn (World Cancer Research Fund International) gaf út nýja skýrslu í þessum mánuði, þar sem farið er yfir nýjustu rannsóknir á tengslum lífsstíls og magakrabbameins. Í dag er magakrabbamein fimmta algengasta krabbameinið í heiminum og þriðja algengasta dánarorsök af völdum krabbameins. Á Íslandi hefur nýgengi magakrabbameins lækkað mikið á undanförnum áratugum og er sjúkdómurinn algengari meðal karla. Árlega eru að greinast að meðaltali 18 karlar og 12 konur með sjúkdóminn hér á landi.

Helstu áhættuþættir fyrir magakrabbamein eru:

  • Að drekka þrjá eða fleiri áfenga drykki á dag.
  • Að borða reglulega matvæli sem innihalda mikið af salti eins og kjöt, fisk (t.d. harðfisk og saltfisk) og súrsað grænmeti
  • Að vera í yfirþyngd eða ofþyngd.

Unnar kjötvörur (sem innihalda mikið salt) hafa áður verið tengdar við aukna áhættu á krabbameini í ristli og endaþarmi.

Vísindamaður hjá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðnum skrifaði í kjölfar birtingarinnar á ofangreindri skýrslu pistil um tengsl salts og magakrabbameins. Í pistlinum kemur meðal annars fram hversu erfitt það er að mæla saltneyslu þátttakenda í rannsóknum þar sem ekki er hægt að mæla magn salts til dæmis hjá fólki sem borðar oft á veitinga- og skyndibitastöðum. Það eru í raun rannsóknir frá Asíu og þá sérstaklega Kóreu og Japan sem hafa veitt nýjustu upplýsingar um þátt saltríkra matvæla fyrir hættuna á að þróa með sér magakrabbamein.

Þarft þú að endurskoða saltneysluna þína?

Á Íslandi er ráðlagt að neyta ekki meira en 6 gramma af salti á dag. Það samsvarar rúmlega teskeið á dag.

Hér er ekki verið að tala um það magn sem ætlað er til að salta matinn okkar heldur á þetta líka við um saltið sem er í matnum sem við kaupum og finnst meðal annars í brauði, osti, pakkasúpum, unnum kjötvörum, snakki, poppkorni og morgunkorni, svo dæmi sé tekið.

Til að minnka salt í fæðunni er best að velja sem mest af óunnum matvælum og reyna að nota krydd sem innihalda ekki salt. Margar hollar kryddjurtir geta komið í staðinn fyrir salt eða minnkað það að við söltum matinn okkar. Einnig er gott að velja vörur sem eru með skráargatsmerkinu en þær innihalda minna salt miðað við aðar sambærilegar vörur.

Þó magakrabbamein sé ekki algengt á Íslandi þá ber að geta þess að mikil saltneysla hefur óæskileg áhrif á blóðþrýstinginn okkar og þar af leiðandi á hjarta-og æðakerfið og áætlar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að koma mætti í veg fyrir 2,5 milljónir dauðsfalla árlega í heiminum ef við borðuðum minna en 5 grömm af salti á dag.

Share.

About Author

Jóhanna Eyrún Torfadóttir

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Fara í tækjastiku