Þarf ég bólusetningu gegn hettusótt?

0

Hettusótt er bráð og mjög smitandi veirusýking. Hettusótt er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir. Flestir fá hettusótt einungis einu sinni á ævinni.

Einkenni svo sem hiti, hausverkur, þróttleysi og hálsbólga koma fram um 2-3 vikum eftir smit. Hettusótt getur einnig valdið bólgum í líkamanum, svo sem í eistum, eggjastokkum, brjóstum og heila en alvarlegir kvillar eins og heyrnarskerðing og fósturmissir eru mjög sjaldgæfir (1) .

Á síðustu öld gengu stórir hettusóttarfaraldrar yfir landið, þeir síðustu á árunum 1968-1986. Byrjað var að bólusetja gegn hettusótt á Íslandi árið 1989 og því ættu allir sem eru fæddir eftir árið 1989 að hafa fengið bólusetningu gegn hettusótt.

Þeir sem eru fæddir fyrir árið 1980 hafa líklega fengið hettusótt. Reynslan sýnir að það er afar fátítt að þeir sem eru fæddir fyrir 1980 hafi sloppið við hettusóttina og ættu því að vera með ónæmi fyrir veikinni.

Þeir sem eru helst í hættu eru þeir sem fæddir eru á árunum 1984 -1986 og náðu ekki bólusetningunni gegn hettusótt sem hófst 1989.

Á síðustu vikum hafa 11 einstaklingar greinst með hettusótt á Íslandi. Þeir hafa flestir verið fæddir milli 1980 og 1989.

Landlæknir mælir með að þeir sem fæddir eru á árunum 1980-1989 og eru óbólusettir láti bólusetja sig hjá heimilislækni (2).

Frekari upplýsingar má finna á vef Embættis landlæknis (3).

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.