Svæðisbundinn ójöfnuður í lýðheilsu á Íslandi

0

Þann 6. júní síðastlliðinn gaf Embætti landlæknis út safn lýðheilsuvísa í fyrsta sinn. Um er að ræða upplýsingar sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar, á landsvísu sem og eftir  heilbrigðisumdæmum.

Birting lýðheilsuvísanna er liður í því að auðvelda sveitarfélögum, aðilum heilbrigðisþjónustunnar og öðrum er láta sig málið varða, að greina stöðuna í hverju umdæmi fyrir sig, þannig hægt sé að vinna í sameiningu að bættri heilsu og líðan íbúanna með markvissari hætti.

crossroads

Það er ótalmargt sem hefur áhrif á heilsu og líðan fólks, bæði einstaklingsbundnir þættir, umhverfis- og samfélagslegir þættir. Sem dæmi má nefna lífsstíl og lifnaðarhætti fólks, félagslega stöðu og efnahag. Við val á þeim mælingum sem birtar voru í þessari fyrstu útgáfu lýðheilsuvísa var horft til þátta sem mögulega er hægt að hafa áhrif á með heilsueflingu og forvörnum. Dæmi um slíka þætti eru mæling á streitu, grænmetis- og ávaxtaneyslu og notkun tóbaks og áfengis. Ennfremur voru valdir vísar sem gefa heilsubrest til kynna með beinni hætti, svo sem dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, nýgengi krabbameina og notkun sykursýkislyfja, svo fátt eitt sé nefnt. Heildarlista yfir lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum má finna hér.

Staða lýðheilsu eftir heilbrigðisumdæmum

Ísland skiptist í 7 heilbrigðisumdæmi sem eru höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland, Austurland, Suðurland og Suðurnes. Þegar lýðheilsuvísarnir eru greindir eftir heilbrigðisumdæmum kemur í ljós talsverður munur á stöðu umdæmanna á mörgum sviðum. Hér að neðan verður farið yfir helstu styrkleika hvers umdæmis fyrir sig, sem og þá þætti sem komu síður vel út samanborið við meðaltal á landsvísu.

Höfuðborgarsvæðið 

Þar sem stærstur hluti landsmanna býr á höfuðborgarsvæðinu hafa gildi lýðheilsuvísa í því umdæmi mikið vægi í útreikningunum og því eru tölurnar ekki mikið frábrugðnar landsmeðaltalinu. Þó má nefna að hærra hlutfall barna skora hátt á vellíðunarkvarða og færri fullorðnir meta bæði andlega- og líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega miðað við landsmeðaltal. Tíðni sykursýkislyfjanotkunar er lægri sem mögulega helst í hendur við lægri tíðni offitu í umdæminu. Streita fullorðinna er jafnframt  lægri. Af áskorunum höfuðborgarsvæðisins má nefna að íbúar á þessu svæði fara frekar til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, nota meira af sýklalyfjum, neysla kannabis er í meira mæli og þeir nota síður virkan ferðamáta, s.s. hjóla eða ganga, til eða frá vinnu/skóla.

Suðurnes 

Almennt má segja að Suðurnesin standi frammi fyrir ýmsum áskorunum varðandi heilsu og áhrifaþætti hennar en íbúar þessa svæðis koma lakar út í samanburði við landið í heild hvað varðar marga þætti sem snúa að heilsu. Sem dæmi má nefna að íbúar á Suðurnesjum eiga erfiðara með að ná endum saman og það eru fleiri sem meta andlega og líkamlega heilsu sína verri, samanborið við landsmeðaltal. Tíðni reykinga er hærri, sem helst mögulega í hendur við háa tíðni langvinnra neðri öndunarfærasjúkdóma, kransæðaaðgerða sem og háa dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á meðal kvenna. Á jákvæðari nótum má nefna að fleiri ungmenni á Suðurnesjum hreyfa sig samkvæmt ráðleggingum og færri ungmenni og fullorðnir drekka áfengi þannig af hljótist ölvun, auk þess sem íbúum hefur fjölgað um tæp 5 prósent á sl. fimm árum.

Vesturland

Á Vesturlandi eru hlutfallslega fleiri sem nota virkan ferðamáta (ganga eða hjóla) til eða frá vinnu, samanborið við landsmeðaltal. Það skýtur því aðeins skökku við að hreyfing skv. ráðleggingum hjá 10. bekk er lægri en hjá landsmeðaltali. Gosdrykkjaneysla ungmenna er mikil og ávaxta- og grænmetisneysla frekar í lægri kantinum.

Vestfirðir

Þetta heilbrigðisumdæmi er talsvert frábrugðið landsmeðaltalinu á mörgum sviðum. Af jákvæðum atriðum má nefna að margir nota virkan ferðamáta til eða frá vinnu/skóla, ölvunar-, kannabis- og tóbaksnotkun í vör er marktækt lægri hjá ungmennum, og sýklalyfjanotkun er lægst á Vestfjörðum. Af áskorunum má nefna vellíðan barna í 8. – 10. bekk var einna lægst í þessu umdæmi, sykursýkislyfjanotkun var mikil sem helst mögulega í hendur við háa tíðni offitu sem var 29%. Hinsvegar var notkun þunglyndislyfja einna lægst á Vestfjörðum – og hér skal ekki lagt mat á hvort það telst vera jákvætt eða neikvætt.

Norðurland

Þvert á það sem pistlahöfundur hafði búist við þá mældist streita fullorðinna einstaklinga einna hæst á Norðurlandi samanborið við landsmeðaltal. Jafnframt voru flestir á Norðurlandi sem mátu líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega og vellíðan hjá börnum í 8. – 10. bekk var marktækt lægri en landsmeðaltalið. Af jákvæðum atriðum má nefna að hlutfallslega fleiri nota virkan ferðamáta til og frá vinnu/skóla, gosdrykkjaneysla, ölvunardrykkja og notkun kannabis var lægri. Eins má nefna að notkun sýklalyfja var talsvert lægri á Norðurlandi sbr. við landsmeðaltal.

Austurland

Hlutfall kvenna sem fer í skipulega leghálskrabbameinsleit er hlutfallslega hæst á Austurlandi og þátttaka í brjóstamyndatöku er líka góð. Nýgengi krabbameina er einnig lægst á Austurlandi. Notkun sýklalyfja er minni en landsmeðaltal og neysla kannabis er minni. Á móti kemur að ölvunardrykkja ungmenna er hlutfallslega mest í þessu umdæmi.

Suðurland 

Nýgengi krabbameina á Suðurlandi er lægra en gengur og gerist á landinu, kannabisnotkun en sjaldgæfari. Tíðni langvinnra öndunarfærasjúkdóma eru yfir landsmeðaltali og hærra hlutfall á erfitt með að ná endum saman í umdæminu, samanborið við landsmeðaltal.

Af ofangreindu má sjá að talsverður ójöfnuður í heilsu og líðan Íslendinga virðist vera til staðar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi. Ekki er hægt að benda á eitthvað eitt atriði sem skýrir þennan ójöfnuð og líklega er um fjölþættar skýringar að ræða, svo sem mismunandi hefðir og mismunandi aðgengi að hollari valkostum í matvöru (grænmeti, ávextir) sem og heilbrigðisþjónustu. Útgáfa lýðheilsuvísanna er stórt skref fram á við og mun án efa nýtast stjórnvöldum og sveitarfélögum vel í stefnumörkum með það að markmiði að bæta heilsu og líðan Íslendinga.

Forsíðumynd pistilsins er birt með góðfúslegu leyfi Embætti landlæknis.

Share.

Védís er matvælafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Embættis landlæknis.