Anna Þyrí Hálfdanardóttir BS-nemi í næringarfræði við Háskóla Íslands ritar:
Offita er ört stækkandi vandamál í heiminum í dag og spilar neysla á sykruðum matvörum og drykkjum þar stórt hlutverk. Einstaklingar í offitu eru í aukinni hættu á að fá efnaskiptasjúkdóma, svo sem sykursýki af tegund 2, og hjarta-og æðasjúkdóma. Með aukinni vitundarvakningu meðal almennings um skaðsemi sykurs er eftirsóknarvert að skipta honum út fyrir náttúruleg sætuefni sem innihalda ekki hitaeiningar.
Eru sætuefni betri kostur en sykur?
Sumar rannsóknir sýna að neysla á sætuefnum getur í raun leitt til þyngdaraukningar. Ein rannsókn, sem gerð var á 3.682 einstaklingum, skoðaði langtímaáhrif til átta ára af neyslu drykkja sem innihéldu sætuefni á þyngd. Þeir sem drukku þessa drykki oftar en 21 sinnum í viku juku líkamsþyngdarstuðulinn (BMI) sinn 47% meira en þeir sem ekki drukku drykki með sætuefnum (1). Það virðist vera að heilinn bregðist við sætuefnum með því að kalla á meiri sætindi, en við neyslu á sykri bregst heilinn við með því að kalla á meiri mat. Þegar heilinn kallar á meiri sætindi er því líklegt að neysla á þeim aukist og þar með verði hitaeininga neytt umfram orkuþörf sem leiðir til þyngdaraukningar (2).
Stevía
Stevía hefur mikið verið í umræðunni undanfarið en þetta er sætuefni sem unnið er úr plöntunni Stevia rebaudiana bertoni. Þetta er eitt helsta sætuefnið sem notað er í Japan og Kóreu. Stevía er um 300 sinnum sætari en sykur og því þarf mun minna magn af sætuefninu miðað við sykur (2). JECFA (Joint FAO/WHO Expert Committee on Food Additives) kannaði öryggismörkin fyrir stevíu árin 2000, 2005, 2006, 2007 og 2009 og ákvarðaði að lokum ásættanlegt magn fyrir daglega inntöku (acceptable daily intake), sem er 4 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar á dag (4). Neyslukannanir voru svo gerðar þar sem skoðað var hversu mikils magns almenningur neytti af stevíu að meðaltali og var það frá 1,7 mg/kg og upp í 16,3 mg/kg hjá evrópskum börnum og 5,6 mg/kg–6,8 mg/kg hjá fullorðnum (5). Helsta uppspretta stevíu var þá úr óáfengum, bragðbættum drykkjum. Mikilvægt er að hafa einhver öryggismörk fyrir neyslu aukefna og þess má geta að stevía var upprunalega bönnuð á 10. áratug síðustu aldar vegna ónógra gagna til að meta öryggi þess (5). Þó hefur stevía ekki sýnt merki um erfðaeituráhrif, krabbameinsvaldandi áhrif eða eituráhrif á æxlun eða þróun fósturs og var það því leyft.
Sumir hópar ættu þó að fara varlega í notkun á sætuefninu þar sem það getur haft ertandi áhrif. Þessir viðkvæmu hópar eru börn með ofnæmisexem (efnið gæti valdið bráðaofnæmisviðbrögðum), einstaklingar með sjálfsofnæmissjúkdóma og einstaklingar með bólgur í meltingarvegi (5).
Stevía og lífsstílssjúkdómar
Uppi eru tilgátur um að stevía hafi í raun jákvæð áhrif í baráttunni við hina ýmsu sjúkdóma. Í sumum löndum, svo sem Paragvæ og Brasilíu, er efnið notað í meðferð við sykursýki. Niðurstöður úr einni rannsókn, sem gerð var á 12 einstaklingum með sykursýki af tegund 2, gefa til kynna að stevía lækki glúkósamagn í blóði eftir máltíð (6). Það þarf þó fleiri rannsóknir áður en hægt er að staðfesta slíkt.
Rannsókn sem var gerð á 100 einstaklingum með eðlilegan blóðþrýsting og fremur lágan en eðlilegan, kannaði áhrif stevíu (rebaudioside A) á blóðþrýstinginn þeirra. Annar hópurinn innbyrti 1000 mg/dag af stevíu og hafði það lítil sem engin áhrif á blóðþrýsting þeirra. Þetta magn er mun hærra en gildið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) telur vera ásættanlegt fyrir dagleg inntöku á stevíu (Stevíólglýkósíð) (4).
Dýrarannsóknir á Stevíu
Rannsókn, sem var gerð á of feitum músum, kannaði áhrif stevíu (stevíósíð) á insúlínþol, bólgur og oxunarálag tengt æðakölkun en þetta eru þættir sem tengjast oft offitu (7). Stevía hafði engin áhrif á þyngd og þríglýseríð í blóði, en lækkaði glúkósa og insúlín. Hún hafði jákvæð áhrif á insúlínboð og andoxunarvörn bæði í fituvef og æðavegg og hindrar það þróun æðakölkunar (atherosclerotic plaque development) og hvetur til stöðugleika fituútfellingar. Þó má nefna að tilraunir, sem gerðar eru á dýrum, og niðurstöður þeirra er ekki hægt að yfirfæra á menn en þær geta gefið vísbendingu um áhrif í mönnum sem þarf að rannsaka frekar.
Lokaorð
Það virðist vera að stevía gæti verið betri kostur en sykur, sérstaklega fyrir fólk með sykursýki og einstaklinga á kolvetnaskertu fæði. Vegna óvissu um langtímaáhrif ættu vissir hópar og þá sérstaklega börn og unglingar ekki að fá mikið af þessu efni frekar en af öðrum sætuefnum. Einstaklingar þurfa að passa að neyta ekki meira af efninu en sem svarar til 4 mg á hvert kíló líkamsþyngdar sem er talið ásættanlegt magn til daglegrar inntöku.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að með því að nota sætuefni til að minnka orkuinntöku frá einu matvæli er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að við bætum okkur það upp með neyslu á öðrum matvælum sem eru orkumeiri.