Spennandi ráðstefna á næsta ári: Foodloose

0

Það hefur ekki örugglega farið framhjá neinum sem fylgist með heilbrigðismálum að það er að hellast yfir okkur faraldur krónískra sjúkdóma með offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma í fararbroddi. Ef ekkert breytist, mun faraldurinn halda áfram að breiðast út og heilbrigðiskerfi Vesturlanda mun ekki ráða lengur við vandann. Eitthvað þarf að breytast, kannski ekki síst okkar eigin hugsun og viðhorf. Það er okkur því sönn ánægja að segja frá því að í maí á næsta ári verður haldin heilsdags ráðstefna í Eldborgarsal í Hörpunni þar sem þessi mál verða krufin til mergjar og mataræði nútímamannsins og áhrif þess á lífsstílssjúkdóma skoðað frá mörgum hliðum.

Ekki síst verður leitað svara hvort vísindin sem við byggjum baráttu okkar gegn þessum sjúkdómum standi á sterkum grunni og þar af leiðandi hvort skilningur okkar á grunnforsendum í meðhöndlun þessara sjúkdóma sé réttur.

Nýstofnað félag, Icelandic Health Symposium, heldur utan um ráðstefnuna en að félaginu standa SÍBS auk nokkurra einstaklinga með áhuga á lýðheilsumálum.

Á ráðstefnunni verða heimsþekktir fyrirlesarar sem kannski mörg ykkar kannast við en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa helgað sig þessum málaflokki og hafa mjög yfirgripsmikla þekkingu á efninu. Kynnir ráðstefnunnar verður Dr Maryanne Demasi frá sjónvarpsþættinum Catalyst, sem er vinsæll vísindaþáttur sýndur á besta tíma í ástralska ríkissjónvarpinu. Auk þess er það okkur sérstök ánægja að greina frá því að sjálf forsetafrúin, Dorrit Moussaieff, er verndari ráðstefnunnar.

Nánari upplýsingar er að finna á www.foodloose.isEinnig má fylgjast með okkar á Facebook, Icelandic Health Symposium, þar sem við munum setja inn meira efni og upplýsingar eftir því sem fram líður.

Fyrir hönd skipuleggjenda, Guðmundur Jóhannsson framkvæmdastjóri IHS.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.