Nýlega bandarísk rannsókn sem biritist í tímaritinu Sleep bendir til að slitróttur svefn hafi verri áhrif á andlega líðan fólks en stuttur svefn.
Í rannsókninni var 62 einstaklingum skipt af handahófi í þrjá hópa, þeir sem upplifðu 1) ótruflaðan svefntíma, 2) slitróttan svefn (voru vaktir reglulega um nóttina) og 3) stuttan svefn (þeir fengu ekki að sofna fyrr en um miðja nótt). Þátttakendum var fylgt eftir í 3 daga.
Niðurstöður leiddu í ljós að þrátt fyrir að hafa misst álíka langan svefntíma, þá voru þeir sem upplifðu slitróttan svefn með lakari andlega líðan (e. low positive mood) næstu daga, en þeir sem fengu stuttan eða ótruflaðan svefn.
Þeir sem upplifðu slitróttan svefn fengu einnig marktækt minni hægbylgjusvefn (e. slow-wave sleep) en þeir sem sváfu stutt, þrátt fyrir að báðir hópar svæfu jafn lengi. Hægbylgjusvefn er nauðsynlegur til þess að fólk vakni endurnært.
Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar og nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir til að kanna nánar sambandið á milli mismunandi birtingarmynda svefnleysis og geðheilsu.