Ertu að skokka í mengun?

0

Alltaf eru fleiri og fleiri að bætast við þá sem stunda skokk að staðaldri. Skokk er ódýr og heilsusamleg íþrótt sem er hægt er að stunda nánast hvar og hvenær sem er. Eða hvað? Þarf maður að huga að einhverju öðru en veðrinu þegar maður er kominn í skokkfötin? Jú, kannski.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að umferðarmengun og jafnvel brennisteinsvetni í lofti frá háhitasvæðum og jarðvarmavirkjunum (1) getur haft neikvæð áhrif á heilsuna og ýtt undir einkenni á borð við astma og önnur lungnaeinkenni, hjartsláttaróreglu, hærri blóðþrýsting og fleira (2, 34).

Innlendar rannsóknir hafa að auki sýnt fram á að samband sé milli aukinnar loftmengunar og sölu lyfja við astma og hjartaöng (56) og hærri tíðni innlagna á sjúkrahús (7).

En hvernig tengist þetta því að fara út að hlaupa? Við áreynslu öndum við meira og öðruvísi en ella og þannig nær loftmengunin lengra niður í lungun og á greiðari leið inn í líkamann okkar. Þannig geta áhrif loftmengunar verið meiri þegar við stundum líkamlega áreynslu.

Með þetta í huga er gott að velja leiðirnar sem á að skokka út frá m.a. umferðarþunga og nálægð við umferðaræðar.

Eins og gefur að skilja er meiri mengun við stærri umferðargötur og því er gott að forðast þær.

Góð þumalputtaregla er að ef þú finnur mengunarlykt þegar þú skokkar þá er góð hugmynd að velja aðra leið næst.

En einnig er gagnlegt að skoða loftgæðasíðu Umhverfisstofnunar en stofnunin sér um stöðugar mælingar á loftgæðum í Reykjavík, Hafnarfirði, á Akureyri og víðar. Upplýsingarnar má finna hér: www.loftgæði.is.

En hvað á að skoða á heimasíðu Umhverfisstofnunar áður en farið er út að skokka?

  • Byrjaðu á að velja það svæði sem er næst þér eða þar sem þú ætlar að skokka.
  • Næst er gott að skoða eitt loftmengunarefni á borð við svifryksmælingar („Svifryk undir 10 µm“) og hver gildin eru fyrir það efni. Á heimasíðunni eru heilsuverndarmörk tilgreind en þau eru mismunandi fyrir hvert og eitt efni (sjá almennar upplýsingar um loftgæði og mælingar ). T.d. getur svifryk verið undir heilsuverndarmörkum en annað efni, á borð við niturdíoxíð (NO2), verið yfir þeim.
  • Þetta getur því orðið svolítið flókið en til að einfalda þetta er best að skoða annað hvort svifryk eðaNO2 og miða við þau mörk. Á vefnum er þetta gert skiljanlegra með því að nota liti til að auðkenna loftgæðin.
  • Fyrir heilsuhrausta einstaklinga ætti að vera í lagi að skokka annað slagið ef gildin eru aðeins yfir heilsuverndarmörkum en fyrir aðra ætti að miða við mörkin.
  • Ef þú finnur fyrir áhrifum loftmengunar þegar þú kemur inn (t.d. hósti, astmaeinkenni eða hjartsláttaróregla) þá ættirðu að varast aðstæður þegar loftmengun er yfir heilsuverndarmörkunum.

Og mundu, almenn skynsemi er besti mælikvarðinn! Þú veist að loftmengun hefur áhrif á líkamann. Líttu í kringum þig. Sérðu mistur? Finnurðu lykt? Forðastu stórar umferðaræðar.

Svo skaltu bara njóta þess að skokka í hreinu lofti. Gangi þér vel.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.