Skaðleg áhrif fitufordóma

0

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun geisar nú „offitufaraldur“ um allan heim (1) og á undanförnum árum hefur fjölmiðlaumfjöllun um málefni er varða offitu aukist gríðarlega (2). Samhliða því hafa fordómar gagnvart feitum einstaklingum aukist umtalsvert (3) og hafa fjölmiðlar dregið upp mynd af þeim sem lötum, vitlausum, með litla sjálfstjórn og fjallað um þá sem bagga á heilbrigðiskerfinu (4). Sérfræðingar hafa bent á að með því að fjalla um málaflokkinn á þennan neikvæða hátt hvetji það einstaklinga til að léttast, einfaldlega vegna þess að þeir vilja ekki falla undir staðalímyndina (5). Þó eru fáar rannsóknir til sem benda til þess að þetta sé rétt nálgun. Ýmsar rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á hið gagnstæða (6, 7) en samkvæmt þeim eru einstaklingar sem telja sig vera feitir og upplifa fitufordóma frá samfélaginu:

  • Ólíklegir til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.
  • Ólíklegir til að stunda reglulega hreyfingu.
  • Ólíklegri til að viðhalda jákvæðri heilsutengdri hegðun en þeir einstaklingar sem telja sig vera of feitir en upplifa ekki þessa fordóma.
  • Með minni trú á eigin getu þess að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.

Samfélagsleg ógn

Það að óttast, búast við og upplifa fitufordóma frá samfélaginu getur leitt til þess að einstaklingur sem telur sig of feitan, upplifir fordómana sem samfélagslega ógn (8). Þessi upplifun stafar af því að einstaklingurinn þekkir þá neikvæðu staðalímynd og þá fordóma sem fylgja holdafari hans, ásamt því að hann trúir því að aðrir sjái hann og setji hann í samfélagslega flokkinn „offitusjúklingur”. Rannsóknir (9, 10) hafa sýnt að einstaklingur sem upplifir þessa samfélagslegu ógn er líklegur til að:

  • Bæla niður tilfinningar sínar.
  • Fela hegðun sem tengist staðalímyndinni.
  • Vinna óeðlilega hart að því að koma vel fyrir í samfélaginu.
  • Forðast aðstæður þar sem hann getur orðið fyrir niðurrifi sökum eigin þyngdar.

Ýmislegt í umhverfi einstaklingsins getur ýtt undir þessa upplifun. Til dæmis getur það að hitta nýtt fólk, fara í atvinnuviðtal, heyra út undan sér brandara þar sem gert er grín af feitu fólki og það að fylgjast með fjölmiðlum þar sem meðvitað eða ómeðvitað er gert lítið úr feitu fólki ýtt undir það að einstaklingurinn upplifi þessa ógn. Allt þetta getur leitt til þess að of feitur einstaklingur einangri sig frá samfélaginu og upplifi mikinn kvíða og þrói með sér króníska streitu (11).

Krónísk streita getur haft ýmsar heilsufarsafleiðingar í för með sér eins og neikvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið, ónæmiskerfið og efnaskipti líkamans svo fátt eitt sé nefnt (12). Einnig getur streita orðið þess valdandi að matarlöngun eykst, þá sérstaklega löngun í sætan og fituríkan mat, og áhugi fyrir hreyfingu minnkar (13). Með því að ýta undir fitufordóma og staðalímyndir í fjölmiðlum er því sá möguleiki fyrir hendi að við gerum meiri skaða en gott.

Gefum öllum tækifæri til þess líða vel í eigin skinni, með því að beita annarri nálgun á viðfangsefnið.

Búum til pláss fyrir alla, elskum fjölbreytileikann. Beinum athyglinni fyrst og fremst að heilsunni og hvernig okkur líður. Fyrir þá einstaklinga sem stefna að lífstílsbreytingum til að bæta heilsu og lífskjör sín og/eða minnka áhættu á sjúkdómum (hvort sem er vegna fjölskyldusögu eða offitu) er mikilvægt að taka lítil en jákvæð skref með aðstoð fagfólks.

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum