Sex mýtur um áhættuþætti brjóstakrabbameins

0

Áhættuþættir krabbameina geta auðveldlega vafist fyrir fólki þar sem ólíkar upplýsingar koma oft fram á veraldarvefnum, í fjölmiðlum og jafnvel hjá sérfræðingum í málefninu.

Október mánuður er  tileiknaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini og af því tilefni hefur American Institute for Cancer Research birt fræðslupistil á vefsíðu sinni um algengar mýtur tengdar lífsstíl og brjóstakrabbameini.

Hér má sjá algengar mýtur og svörin við þeim:

Mýta: Tófú (sojahlaup) og aðrar sojavörur auka hættuna á krabbameini í brjóstum

Mikill fjöldi rannsókna hefur hins vegar sýnt fram á að neysla á sojavörum  í hóflegu magni eykur ekki hættuna á brjóstakrabbameini. Sojavörur eins og tófú og edamame innihalda sérstaka tegund af plöntuestrógenum (Isoflavones) sem herma eftir áhrifum estrógens í líkamanum. Vegna þessara áhrifa var óttast  að neysla á sojavörum gæti aukið vöxt krabbameinsfruma í brjóstum sem eru með viðtaka fyrir estrógeni, en rannsóknir hafa ekki stutt þá tillögu. Einnig hefur verið sýnt fram á að  hófleg neysla á sojavörum  meðal kvenna sem eru greindar með brjóstakrabbamein auki hvorki  líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur eða flýti fyrir framþróun hans.

Athugið að hér er þó ekki verið að mæla með því að taka ætti fæðubótarefni sem inniheldur þessi plöntuestrógen sérstaklega, heldur að það þurfi ekki að forðast vörur sem innihalda soja og að hófleg neysla (t.d. 1-2 skammtar á dag) sé í lagi.

Mýta: Einungis erfðir hafa áhrif á hættuna á að greinast með krabbamein í brjóstum

Rannsóknir sýna að neðangreindir þættir getið komið í veg fyrir um þriðjung krabbameinstilvika í brjóstum. Þessir þættir eru:

  • Heilbrigð líkamsþyngd
  • Takmörkun á áfengi
  • Regluleg hreyfing

Fyrir konur með sterka fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein eru ofangreindir þættir einnig taldir  mikilvægir til að draga úr áhættu á myndun meinsins.

Mýta: Eitt rauðvínsglas á dag er gott fyrir heilsuna

dreamstime_l_26334569_opt

Neysla á áfengi er áhættuþáttur fyrir brjóstakrabbamein og fleiri krabbamein. Rannsóknir sýna að jafnvel konur sem drekka hóflega af léttvíni (eitt glas á dag eða minna að jafnaði) eru í smá aukinni áhættu á greiningu miðað við konur sem ekki drekka áfengi. Sé hins vegar drukkið meira en sem nemur glasi á dag þá eykst hættan samhliða sem þýðir að það er sterkt “dose-response” samband (skammtasvörun). Mikilvægt er því að gæta hófsemi í neyslu áfengis og drekka ekki meira en eitt glas á dag að jafnaði og helst minna en það.

Mýta: Ég veit að hreyfing er góð fyrir heilsuna en helst bara fyrir þá sem vilja léttast og passa uppá hjarta- og æðakerfið

Vissulega er hreyfing talin góð fyrir hjartað en einnig eru sterkar vísbendingar um að dagleg hreyfing í 30 mínútur í miðlungsákefð minnki líkur á krabbameini í brjóstum og á þetta við bæði fyrir mein sem eru greind fyrir og eftir tíðarhvörf. Einnig kemur fram að hreyfingin skiptir máli fyrir verndina óháð líkamsþyngd. Hreyfing eftir greiningu hefur líka jákvæð áhrif á framþróun sjúkdómsins og minnkar dánarlíkur.

Hreyfing af miðlungsákefð er t.d. rösk ganga, garðvinna, heimilisþrif, sund, hjólreiðar og leikfimi

Mýta: Að vera í lítillegri ofþyngd skiptir ekki máli fyrir mína krabbameinsáhættu

Rannsóknir sýna að sambandið milli líkamþyngdarstuðuls og áhættu á krabbameinum er stigvaxandi og því meiri líkamsfita, því meiri er hættan á að fá krabbamein. Líkamsfita er sterkasti áhættuþátturinn fyrir krabbamein í brjóstum greint eftir tíðarhvörf. Með því að huga almennt að lífsstílnum með hreyfingu og mataræði má stemma stigu gegn aukinni líkamsþyngd, og þar af leiðandi brjóstakrabbameini.

Mýta: Sykurneysla ýtir undir krabbameinsvöxt

Það eru ekki bein tengsl  á milli neyslu sykurs og krabbameina. Allar frumur þurfa glúkósa til að lifa (líkaminn fær glúkósa t.d. úr heilkornavörum, ávöxtum og grænmeti) og það eru engar vísbendingar um að sykur í mataræði sé frekar að næra krabbameinsfrumur en venjulegar frumur. Hins vegar er vitað að því meiri viðbættur sykur í fæðinu því meiri hætta er á þyngdaraukningu sem eykur líkamsfituna, en hækkun á líkamsfitu eykur hættuna á að fá brjóstakrabbamein.

Ítarefni:

Eru tengsl milli mataræðis og brjóstakrabbameins?

Líkamsfita eykur hættu á krabbamein í 13 líffærum

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.