Á stund sem þessari, í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Frakklandi, grípur flest okkar sorg og hjálparleysi. Við leitum ósjálfrátt svara við flóknum spurningum um gjörðir manna. Mikilvægt er að huga vel að börnum okkar á þessum tímum og ígrunda hvernig við getum með sem bestu móti veitt þeim stuðning og hjálpað þeim að vinna úr tilfinningum sem óhjákvæmilega vakna í tengslum við atburð sem þennan.
Fyrstu viðbrögð foreldra eru oft að vernda börn sín og segja þeim ekki frá því sem gerðist. Þetta eru eðlileg viðbrögð, enda flestir fullorðnir að vinna úr sínum eigin tilfinningum sem tengjast áfallinu. Það er þó samkvæmt Harold Koplewicz, forseta Child Mind Institute ekki ráðlagt að fresta því að tala um atburðinn við börnin, því það er mjög líklegt að þau frétti af honum.
Það er betra fyrir börn að heyra fyrst frá atburðinum frá foreldrum sínum þar sem þau eru lykilaðilar í að veita þeim réttar upplýsingar og svör við spurningum.
Takmarkaðu aðgang barna að fréttum
Mikilvægt er að koma í veg fyrir eða takmarka verulega aðgang barna að fréttum um hryðjuverkaárásir. Þetta á sérstaklega við um börn á leik- og grunnskólaaldri. Mörg börn hafa talsverðan aðgang að internetinu og sum í gegnum eigin snjallsíma. Börn eru í eðli sínu forvitin og líkleg til að leita sér sjálf upplýsinga um atburðinn á netinu.
Afar mikilvægt er að fylgjast með netnotkun barna svo að við getum bæði stýrt því hvaða efni börn okkar eru útsett fyrir og rætt við þau um það sem þau sjá.
Myndbönd þar sem atburðinn er sýndur og umfjöllun á fréttaveitum getur gefið börnum misvísandi skilning á því sem gerðist. Myndefni tengd atburðinum eru líkleg til að vekja hjá þeim óhug og hræðslu og skilja þau eftir óttaslegin og ráðvillt. Slíkt getur valdið erfiðum minningum sem geta setið lengi í börnum og jafnvel leitt til ótta, kvíða og svefnvanda.
Verum til staðar
Eitt af því besta sem þú gerir sem foreldri er að vera til staðar. Það eitt og sér að verja tíma með barninu þínu og hughreysta það og gera því grein fyrir að slíkir atburðir eru óvanalegir getur skipt miklu máli– Harold Koplewicz, forseti Child Mind Institute,
Það mikilvægasta sem foreldrar, kennarar og aðrir nákomnir barninu gera er að veita því stuðning með því að vera ávallt til staðar til að hlusta á það og skapa nærveru þar sem spurningum þess er svarað af alúð og nærgætni. Mikilvægt er að hvetja barnið til að tjá tilfinningar sínar og að því þyki sjálfsagt að leita til ykkar ef spurningar vakna.
Gott er að hafa í huga að börn vinna á mismunandi hátt úr þeim upplýsingum sem þau fá og mikilvægt er að taka tillit til persónuleika barna ykkar – þið þekkið þau best. Sum börn eru kvíðnari en önnur og sum viðkvæmari, sérstalega þau sem eiga það til að velta hlutunum mikið fyrir sér. Það er mikilvægt fyrir börn að vita að það er eðlilegt að tjá sig á mismunandi hátt –til dæmis eru sum börn sorgmædd án þess að gráta. Hvetjið börnin ykkar til að tala um það sem hræðir þau og ræðið í kjölfarið um hvernig hægt er að vinna úr því. Sum börn þurfa hughreystingu og fullvissu um að þau séu örugg og þurfa oft að ræða um atburðinn. Minntu barnið þitt á á að spurningar þess eru mikilvægar.
Hugaðu vel að því hvernig þú svarar spurningum barnsins og sefar áhyggjur þess. Að segja “þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af” gefur því kannski þau óbeinu skilaboð þú sért ekki rétta manneskjan til að tala við um það sem hræðir þau. Leyfðu barninu að tjá sig og sýndu að þú skiljir og virðir það sem það er að tjá sig um, með því að segja t.d. “Já, ég heyri að þú hefur áhyggjur”.
Hugum að því hvað við segjum þegar börnin heyra til
Mikilvægt er að huga að því hvernig við tölum í návist barna okkar.
Börn eru mjög næm á viðbrögð fjölskyldu sinnar, kennara og vina og litast af skoðunum þeirra og viðbrögðum.
Minnum börnin á að flest fólk er gott, óháð litarhætti, þjóðerni og trú. Forðist að setja fram staðalímyndir. Leggjum frekar áherslu á hvernig koma megi í veg fyrir fordóma og hvað umburðarlyndi er mikilvægt.
Minnust þeirra sem fórust með því t.d. að kveikja á kerti á heimili okkar. Þetta er einnig rétti tíminn til að láta gott af sér leiða og minna börnin á að það er mikill kærleikur í heiminum þrátt fyrir allt.
Times birti eftirfarandi ráðleggingar um hvernig best er að tala við börn eftir þroska þeirra og aldri:
Leikskólabörn
Á þessum aldri er ráðlagt að tala mjög varlega og jafnvel forðast að ræða um atburðinn við börnin. Börn yngri en 5 ára greina illa á milli hræðslu og staðreynda, þannig að það er afar mikilvægt að takmarka aðgang þeirra að fréttum og almennri umræðu um atburðinn. Svarið spurningum þeirra, en gerið það varlega og af nærgætni. Það þarf ekki að veita þeim frekari upplýsingar en um það sem þau spyrja sérstaklega um.
6-11 ára börn
“Samtal barna á þessum aldri ætti að miðast við líðan barnsins” samkvæmt sálfræðinginum Paul Coleman. “Hvað, hvenær og hvernig atburðurinn gerðist ætti að leiða samtalið inn í vangaveltur og áhyggjur barnsins”. Það er óþarfi að tala ítarlega um atburðinn eins og fjölda látinna og mikilvægt er að vera ekki of dramatískur eða nota ógnvekjandi orð.
Fyrir börn á þessum aldri geta staðreyndir minnkað kvíða. Bentu þeim á að atburðir eins og þessir eru sjaldgæfir og afar ólíklegt sé að slíkir atburðir hendi þau.
12-14 ára börn
Þó svo börn séu komin á þennan aldur er ekki víst að við vitum hvernig þeim líður. Góð leið að hefja samtal við börn á þessum aldri er að spyrja hvað þau viti um atburðinn og hvað þeim finnist um það sem gerðist. Það að vera til staðar fyrir börnin til að hjálpa þeim að vinna úr upplýsingum um fréttir af atburðinum og upplifa öryggi er lykilatriðið frekar en að geta endilega gefið svör við öllum spurningum. Það er einnig í lagi að segja af hreinskilni að við höfum ekki svör við öllum spurningum.
Svaraðu spurningum með einföldum svörum og leggðu áherslu á að þau séu örugg og verið sé að vinna í því að koma í veg fyrir að slíkir atburðir komi fyrir aftur. Börn á þessum aldri hafa oft áhuga á smáatriðum, en sérfræðingar mæla með að slíkum upplýsingum sé haldið í lágmarki.
15 ára og eldri
Eldri unglingar eru líklegir til að afla sér ítarlegra upplýsinga um atburðinn í gegnum samfélagsmiðla og í samtölum við vini. Það getur verið gott að skýra út fyrir þeim hvað við vitum og hvað við vitum ekki. Þetta eru oft mjög flókin mál sem ekki upplýsast að öllu leyti strax og verða því jafnvel í umræðunni næstu árin.
Það kemur fyrir að unglingar séu tregir til að ræða svona atburði við fullorðna. Þá getur verið gott að byrja samtalið þegar þið eruð að gera eitthvað annað saman, þannig að samtalið verður óþvingaðra.
Sálfræðingurinn Paul Coleman ráðleggur foreldrum að lofa unglingum ekki einhverju sem þau geta ekki staðið við, svo sem að fullyrða að það muni enginn sem þau þekkja lenda í slíku, heldur að orða það frekar þannig að líkurnar séu mjög litlar eða hverfandi.
Einnig er gott að nýta tækifærið og tala um það við unglinginn sinn hvað þau geta gert ef til neyðarástands kemur – hvern þau geta þá hringt í ef þau ná ekki í ykkur og hvert þau ættu að fara ef þau geta ekki farið heim til sín. Þetta er einnig tækifæri til að tala við unglinga um ofbeldi, afleiðingar þess og aðrar leiðir til að láta í sér heyra og tjá sig án þess að nota ofbeldi.
Vertu vakandi fyrir vanlíðan barnsins
Ef barnið er enn óttaslegið eftir að þú hefur talað við það er ágætt að ræða um það hvað annað hvílir á því varðandi atburðinn, hvað vinir þeirra hafa verið að segja um atburðinn og hvað þau óttast mest núna. Sum börn tala ekki um það sem þau hræðast eða geta ekki mótað spurningar um atburðinn án hjálpar foreldra. Þegar þú hefur talað við börnin þín, minntu þau á að þau eru örugg og að gott fólk sé að vinna að því að koma í veg fyrir að slíkir atburðir gerist í framtíðinni.
Mikilvægt er einnig að halda rútínu, t.d. hvenær þau fara að sofa og vinna heimalærdóm, þar sem að það dreifir huganum. Hjá sumum börnum geta komið fram breytingar á hegðun og skapi svo sem kvíði og svefnvandi. Þessi einkenni eru til marks um að börnin þurfi á aukinni umhyggju og jafnvel faglegri aðstoð að halda.
Greinin er byggð á eftirfarandi fréttum og upplýsingaveitum:
http://www.childmind.org/en/posts/articles/2011-12-27-helping-your-child-cope-deaths-friends
http://time.com/4112751/how-to-talk-to-your-kids-about-the-attacks-in-paris/
http://www.medicinenet.com/script/main/art.asp?articlekey=22905