RS-veiran og ungbörn – ráð frá barnalækni

0

Nú á vetrarmánuðum eru svokallaðar RS veirusýkingar algengar, einkum hjá ungbörnum. Nýlega birtist frétt um að Landspítalinn hafi takmarkað heimsóknir á Vökudeild, fæðingarvakt og meðgöngu- og sængurlegudeild vegna RS-veirusýkingar.

En hver eru einkenni sýkingarinnar og hvernig er best að forðast smit? Við leituðum til Þórðar Þórkelssonar, yfirlæknis Vökudeildar Barnaspítala Hringsins og báðum hann að segja okkur nánar frá RS-veirunni.

Þórður Þorkelsson yfirlæknir
Þórður Þórkelsson, barnalæknir

Hvað er RS-veira?

RS-veiran, eða nánar tiltekið Respiratory syncytial vírus, veldur  sýkingu sem einkennist af kvefi og hósta. Allir geta smitast af RS, en sýkingin leggst þyngst á börn á fyrsta æviári og eldra fólk. Hægt er að smitast oftar en einu sinni og flest börn hafa smitast af veirunni að minnsta kosti einu sinni við 2 – 3 ára aldur.

Eldri börn og fullorðnir fá ofast væg kvefeinkenni, það er nefrennsli og nefstíflu, hálssærindi og/eða vægan hósta. Hins vegar fá sum börn bráða berkjungabólgu, sem einkennist af hvæsiöndun með surgi í lungunum. Það eru einkum yngstu börnin sem fá þau einkenni.  Þetta er hin eiginlega „RS-sýking” sem svo er nefnd í daglegu tali. Það líða yfirleitt 4 – 5 dagar frá smiti þar til einkenni bráðrar berkjungabólgu koma fram. Sjúkdómurinn gengur yfirleitt yfir á 10 – 14 dögum. Einstaka sinnum verða minnstu börnin það móð að þau eiga erfitt með að nærast og þurfa jafnvel að fá meðferð með súrefni. Þau börn getur þurft að leggja inn á sjúkrahús, en það er undantekning að til þess komi.

Hverjir eru viðkæmastir fyrir RS-veirunni?

Börnum sem fædd eru fyrir tímann eða eru með hjarta- eða lungnasjúkdóm er hættara við að fá meiri einkenni en önnur börn. Börn á fyrsta æviári eru einnig í meiri hættu á að veikjast en aðrir.

Getur þú gefið nokkur góð ráð til að forðast smit? 

Handþvottur

Veiran er mjög smitandi og berst milli fólks með hnerra, hósta og snertismiti. Hún lifir á höndum fólks, fötum og einnig á yfirborði hluta, t.d. hurðarhúnum. Því er handþvottur mjög mikilvægur til að fyrirbyggja smit.

Hvítvoðungar- ráð til foreldra

  • Ítreka við fólk að koma ekki kvefað eða veikt í heimsókn.
  • Biðja gesti um að þvo sér um hendur með sápu áður en þeir snerta barnið.
  • Forðast að leikskólabörn séu í mikilli nálægð við nýfædda barnið.
  • Forðast að vera með nýfædd börn í margmenni, t.d. í veislum eða í verslunarmiðstöðum.
Share.

Dr. Edda Björk er með doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum og með bakgrunn í sálfræði. Hún starfar sem nýdoktor við Háskóla Íslands og sinnir kennslu við þá stofnun. Helstu rannsóknir hennar eru á sviði áfallafræða.