Reynslusaga: Einfalt að flokka rusl þó ég búi í blokkaríbúð

0

Þetta er þriðji pistillinn um flokkun heimilisúrgangs til endurvinnslu. Í fyrsta pistlinum talaði ég um umhverfislegan ávinning á því að flokka úrgang til endurvinnslu og í seinni var ég með nokkur dæmi um hvað ætti að fara í hvern sorpflokk. Nú ætla ég að segja ykkur aðeins um það hvernig ég flokka heima hjá mér. Þegar ég tala um flokkun heimilisúrgangs er algengt að ég heyri fólk tala um að flokkun rusl í fjölbýlishúsi sé of mikil fyrirhöfn. Fyrir stuttu sá ég umfjöllun um flokkun heimilisúrgangs í íslenskum fréttaskýringaþætti.

Í þættinum var  viðmælandi sem talaði meðal annars um hversu erfitt það væri að flokka rusl ef maður byggi í blokk. En við nánari athugun, þá stenst það ekki að þetta sé svona erfitt.

Ég skal viðurkenna að ég hafði sjálf efasemdir áður en ég byrjaði að flokka heimilisúrganginn í minni litlu blokkaríbúð. En þegar ég byrjaði, þá sá ég að þetta var bara lítið mál. Og það var erfiðast að byrja. Því ætla ég að tileinka þessum pistli þeim sem fallast hendur við tilhugsunina að flokka heimilisúrganginn sinn. Hér á eftir mun ég fara aðeins í það hvaða skref ég tók til að byrja að flokka og fá aðra fjölskyldumeðlimi með mér í lið og að lokum alla á stigaganginum.

Maðurinn minn var t.d. ekkert sérlega spenntur í upphafi, en núna er hann einn helsti talsmaður flokkunar úrgangs.

Í fyrsta lagi hélt ég áfram að flokka flöskur og dósir eins og ég hef alltaf gert. Það næsta sem ég gerði var að panta nýjar tunnur í ruslageymsluna (eftir að það var samþykkt á húsfundi). Það sem við gerðum var að bæta við einni pappa/pappírs tunnu og einni plast tunnu – án þess að skipta út svartri (fyrir óflokkaðan úrgang). Með þessu þá vorum við búin að spara okkur sporin með að þurfa að fara með flokkaðan úrgang á endurvinnslustöðvar og fljótlega gátum við losað okkur við tvær svartar tunnur og þannig sparað pening.

2016-09-15-15-26-18
Endurvinnsluflokkar heimilisins

Næst, keypti ég mér tvær litlar tunnur sem smell passa í ruslaskápinn minn (hlið við hlið) á gömlu eldhúsinnréttingunni minni (án þess að ég sé að auglýsa IKEA sérstaklega, en þá fást þær þar). Þær merkti ég með miða: „Rusl“ og „Plast“. En þetta fannst mér mikilvægt aðallega fyrir gesti sem komu í heimsókn og svo líka fyrir börnin mín. Þetta auðveldar margt að mínu mati.

Svo átti ég gamla grind með þremur skúffum sem ég kom fyrir á góðum stað og merkti þar „Pappír/Pappi“, „Ál“ og svo „Gler“. Það þarf auðvitað ekki heila grind undir þetta en þið getið verið hugmyndarík. Sumir koma fleiri flokkum í ruslaskápinn sinn (eru t.d. með stóra skúffu), aðrir nota einfaldlega poka og hafa þetta inni í geymslu/þvottahúsi. Hjá mér er ál og gler lengi að safnast upp og því geta ílátin undir það verið mun minni en fyrir plast og pappa/pappír. Að auki má allur málmur fara beint í svörtu tunnuna án þess að setja í poka, en málmur er flokkaður vélrænt frá heimilisúrgangi með segli.

Það næsta var þá í raun bara að venja mig (og aðra fjölskyldumeðlimi) á að flokka. Þetta var kannski erfiðasta skrefið að mínu mati. Það tók nokkrar daga/vikur að venjast því að nenna því að skola mjólkur-/súrmjólkur-/djúsfernur, plastumbúðirnar, áldósirnar og glerið – og svo að labba með flokkað rusl niður í ruslageymslu. En þetta kemst í vana og mér leið svo miklu betur með að flokka. Það þarf ekki að þvo þetta (og endilega sparið sápuna) en það er yfirleitt nóg að nota bara kalt vatn og hrista í fernunni 1-2 sinnum og láta svo þorna. Auðvitað er ég löt annað slagið og nenni ekki að skola súrmjólkurfernuna og henndi henni bara í ruslið en ég er alltaf að reyna að gera betur.

Ég held að galdurinn við að flokka sé að einfalda hlutina til dæmis með því að vera með  flokkunartunnur í ruslageymslunni.

Það eina sem ég þarf í raun að fara með eru flöskurnar/dósirnar eins og ég hef alltaf gert og svo glerkrukkurnar (og annað gler). Ég tek þetta bara í sömu ferð þar sem að glerið er frekar lengi að safnast upp hjá mér. Það sem ég hugsa er að fyrst að ég get þetta – og maðurinn minn líka, þá ættu lang flestir að geta það – þó að búið sé í blokk. Í þessu tilfelli á orðatiltækið „Hálfnað verk, þá hafið er“ svo sannarlega við.

Hjá okkur skipti miklu máli að húsfélagið sparaði pening við það að losa sig við tvær svartar tunnur (fyrir almennan heimilsúrgang) og taka tunnur fyrir plast og pappír/pappa. Það var hvati fyrir þá sem höfðu ekki eins mikinn áhuga á flokkun. Á innan við 6 mánuði þá var allur stigagangurinn kominn á fullt í flokkun og hver veit nema við getum gert enn betur og losað okkur við fleiri tunnur í framtíðinni.

2016-09-16-14-24-31
“Hver flaska skiptir máli” – Skilti í Endurvinnslunni

Hér fyrir neðan er stutt upptalning um hvað flokkast með hverju (samkvæmt Sorpu og Endurvinnslunni):

Pappír/Pappi: Allar pappírs- og pappaumbúðir, t.d. fernur, pakkningar undan matvælum og pítsukassa, dagblöð og tímarit, auglýsingapóst og prentpappír. Hér má finna frekar fyndna lýsingu á því hvernig má flokka pappír og pappa.

Plast: Allar plastumbúðir, t.d. bakka, sjampó- og sápubrúsa, poka og dollur.

Gler: T.d. glerkrukkur og ílát, spegla, flísar, steinsteypu, grjót, múrsteina, hellur, keramikmuni og postulín. Gler er mjög dýrmætt hráefni þar sem að það er 100% endurvinnanlegt og því hægt að nýta það aftur og aftur án þess að það tapi gæðum.

Málmar: Það sem er frábært við málma, er að þeir mega fara LAUSIR beint í gráu/svörtu heimilstunnuna. Þeir eru flokkaðir vélrænt frá á sorpstöðinni. Það sem er í þessum flokki eru allar tegundir málma, t.d. járn, kopar, blý, brons, stál, ryðfrítt stál, látún og ál. Niðursuðudósir, álpappír (kuðlið saman í bolta), álbakka og málmlok af krukkum, handverkfæri, sprittkertakoppa, rafmagnsvíra og muni að hluta eða alveg úr málmi.

Fróðlegar staðreyndir um plast, gler og málma

  • Plast var fyrst búið til við upphaf 20. aldar. Það tekur um 450 ár fyrir plast að leysast upp í umhverfinu og því má segja að allt plast sem hefur verið framleitt er til í einni eða annari mynd. Hér má sjá stuttan texta um plast.
  • Í umhverfinu getur það tekið gler allt að milljón ár að leysast upp en á móti kemur að það er ekki mjög skaðlegt umhverfinu, þ.e. það losar ekki gróðurhúsalofttegundir né inniheldur mikið af eiturefnum.
  • Það tekur áldós um 200 ár að leysast upp í umhverfinu en einungis um 60 – 80 daga tekur að endurvinna áldós.
  • Til samanburðar tekur það pappa um ca. tvo mánuði að leysast upp í náttúrunni.

 

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.