Greint var nýlega frá því í fjölmiðlum að alvarlegt slys hafi orðið við lyfjaprófanir í Frakklandi. Einn þáttakandi var úrskurðaður heiladauður eftir tilraunina og fimm eru alvarlega veikir. Hvað nákvæmlega gerðist er ekki enn vitað. Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild HÍ, tók saman eftirfarandi færslu á Facebook um lyfjarannsóknina í Frakklandi sem leiddi af sér þessa alvarlegu fylgikvilla.

“Í fjölmiðlum hefur á síðustu dögum verið rætt um lyfjarannsókn í Frakklandi sem leiddi til mjög alvarlegra aukaverkana meðal annars heiladauða í einum þátttakenda og alvarlegs heilaskaða í amk 3 öðrum þátttakendum. Slíkar fréttir vekja skiljanlega mikla athygli og ótta. Fullhraustir einstaklingar voru að taka þátt í lyfjarannsókn sem virðist hafa verið framkvæmd samkvæmt öllum réttum leiðum og með samþykki allra þar til bærra aðila.”
Tilraunalyfið sem um ræðir, BIA 10-2474 er svokallaður FAAH-hindri en slíkir hindrar koma í veg fyrir niðurbrot svokallaðra náttúrulegra kannabis-líkra efna (endocannabinoið) sem líkaminn myndar. Með öðrum orðum þá geta slíkir hindrar aukið styrk þessara endocannabínoíða í líkamanum. Kannabis sem fólk tekur inn t.d. gegnum kannabisreykingar verkar á þetta kerfi líkamans.
“Nú er vitað að þetta kerfi hefur víðtæka þýðingu, sérstaklega í miðtaugakerfinu en einnig víðar í líkamanum. Kannabisreykingar verkar með því að líkja eftir endócannabínóðum líkamans og örva þannig þetta náttúrulega kerfi. Það eru tveir mismunandi viðtakar á frumum, sk. CB1 (cannabinoid-1) og CB2 (cannabinoid-2) og finnast þeir á mismunandi stöðum í líkamanum. Viðtakarnir taka við boðum frá cannabínóðunum og senda boð inn í frumur. CB1 er sá cannabínóð-viðtaki sem er í miklum mæli í miðtaugakerfinu en CB2 er meðal annars á úttaugum og víðar.”
Endócannabínoíð hafa flóknu hlutverki að gegna og er þau engan vegin fullskilin. Þau virðast taka þátt í að stilla af boð milli taugafruma. Það er meðal annars talið að truflun í þessu kerfi geti komið við sögu í geðklofa og þannig gæti það skýrt hugsanleg tengsl kannabisreykinga og geðklofa.
“Lyfjafræðilega hefur lengi verið áhugi á að skilja þetta kerfi, þróa lyf sem verka á kerfið og kanna hvort slík lyf gætu haft þýðingu í meðferð sjúkdóma. Þrátt fyrir margra ára tilraunir hefur fremur lítið komið út úr þessum rannsóknum hingað til. Eitt lyf, nabilone hefur verið notað við ógleði, sérstaklega tengt krabbameinslyfjameðferð. Þetta er þó ekki mikið notað lyf. Menn hafa talið að lyf sem verka á þetta kerfi geti haft sársaukastillandi áhrif, sérstaklega í sársauka tengt bólgusjúkdómum. Einngi hafa menn verið að þróa lyf sem hindra þetta kerfi, m.a. lyf sem gætu dregið úr matarlyst og þannig nýst við ofþyngd.”
Tilraunalyfið BIA 10-2474 sem kemur nú við sögu er eins og að ofan sagði sk. FAAH hindri. FAAH er nafn á ensými í líkamanum sem brýtur niður endocannabínóða líkamans. Þannig vildu þeir sem lyfið þróuðu auka styrk þessara endócannabínóða í líkamanum og örva þannig cannabínóð kerfið.
“Það virðist vera að megináhugi lyfjafyrirtækisins sem þróaði lyfið hafi beinst að sársaukameðferð í bólgusjúkdómum (en þetta liggur ekki alveg ljóst fyrir enn).”
“En hvað fór úrskeiðis? Það er engan veginn ljóst. Þarna var um að ræða svokallaða fasa-1 lyfjarannsókn en slíkar rannsóknir eru fyrsta stig lyfjarannsókna sem gerðar eru á fólki. Áður en til þeirra kemur þarf að hafa mikil gögn úr tilraunum í tilraunaglösum og tilraunadýrum. Þær forrannsóknir (oft kallaðr pre-klínsískar rannsóknir) þurfa að gefa sterkar vísbendingar um að lyfið sé annars vegar öruggt og hins vegar að það geti gagnast. Það er mjög sjaldgæft að slíkar rannsóknir hafi slíka fylgifiska sem þessi rannsókn hafði. Nú þurfa frönsk heilbrigðis- og dómsyfirvöld að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega. Var einhver brotalöm í kerfinu? Það þarf ekki að vera að slíkt hafi verið.”
“Tilraunir á fólki eru ekki alveg hættulausar en sem betur fer er þó það sem gerðist í Frakklandi nær óþekkt, en þó ekki alveg óþekkt. Í Bretlandi varð mjög alvarlegt slys árið 2006 þegar menn voru að gera fasa-1 rannsókn á nýju líftæknilyfi sem átti að bæla ónæmiskerfið. Tilraunalyfið reyndist hafa þveröfug áhrif og geysileg örvun varð á ónæmiskerfinu með alvarlegum aukaverkunum hjá nokkrum þátttakendum. Þeir lifðu þó allir af en voru þó lífshættulega veikir á gjörgæslu um tíma.”
“Rannsóknir breskra yfirvalda leiddu ekki í ljós alvarlega misbresti í aðdraganda þeirra tilrauna en þetta hefur þó haft miklar afleiðingar á lyfjatilraunir, sérstaklega í Bretlandi.
Þegar sjúklingar fá aukaverkanir af nýjum lyfjum þá þarf að spyrja hvort aukaverkunin tengist beint verkun lyfsins, í þessu tilfelli hvort örvun á kannabínól kerfinu hafi leitt til þessara aukaverkana. Eða hvort um sé að ræða aukaverkun sem komi vegna allt annarra áhrifa lyfsins, stundum kallað “off-target” áhrif. Það er of snemmt að spá í hvora tegund aukaverkunar hafi verið um að ræða í þessu tilfelli.”
“Það hafa verið gerðar tilraunir með öðrum lyfjum sem hindra FAAH ensýmið og sáust engar slíkar aukaverkanir í því tilfelli en þá sáust heldur ekki mjög markverð áhrif af tilraunalyfinu. Það er þvi erfitt að spá hvað nýja lyfið hefur gert. Það er ekki víst að nokkurn tíma fáist skýring á því. Eitt er þó fullvíst, menn munu líklega missa áhuga á að gera frekari tilraunir með slíka FAAH-hindra.
Mun þetta alvarlega slys hafa áhrif á lyfjarannsóknir? Það veit ég ekki. Það er þó fulljóst að ekki er hægt að koma nýjum lyfjum á markað án slíkra rannsókna. Frekari framfarir eru háðar slíkum rannsóknum. En það verður þó alltaf að vera megináhersla á að tryggja öryggi þátttakenda í rannsóknum. Það skiptir því miklu máli að þetta verði rannsakað af gaumgæfni og menn læri af því.”
Birt með leyfi höfundar