Punktar um prump

0

Það er eitthvað við prump (vindgang) sem heillar alla. Ef við á annað borð höfum það óþroskaðan húmor að finnast vindgangur fyndinn, þá er að það líklegast komið til að vera – þetta eldist ekki af manni.

En hvað er þetta furðulega fyrirbæri: vindgangur? Af hverju finnst flestum okkar það fyndið – sérstaklega að prumpa framan í einhvern? Okkur dytti ekki í hug að prumpa hátt á miðjum vinnufundi, það þætti bara ekki fínt – en ef við horfum á saklausu litlu börnin þá ganga þau um og freta eins og trússhestar á leið niður brekku og eru hamingjusamari en allt.

Þetta er hluti af okkar daglega lífi og samt er alltaf eitthvað vandræðalegt við það. Við fengum meltingarsérfræðing til að svara nokkrum spurningum um vindgang:

Hvað er prump nákvæmlega? Það er í raun afurð bakteríanna sem lifa í þörmunum okkar, í sambúi með okkur.

Þarmabakteríur eru  mikilvæg húsdýr í okkar líkama og brjóta niður fæðu sem við getum ekki melt og við það myndast gerjað loft.

Fæðið sem þær nota er til að mynda ómeltanlegar trefjar og gervisykur og þannig myndast gerjað loft (prump) sem er metan og brennisteinsvetni svona að mestu. Einnig mynda bakteríurnar stuttar fitusýrur sem eru mikilvægar fyrir heilsuna.

fartEr þetta hættulegt loft, ef við værum í herbergi fullu af þessu í langan tíma? Nei, prumpið er nú kannski ekki hættulegt þar sem þetta er brot af því sem er hættulegt en brennisteinsvetni er svo sem kannski ekki hollt til innöndunar til lengri tíma.

Nú kemur alltaf indælis blómalykt þegar ég prumpa, en hjá öðrum kemur stundum alveg hræðileg lykt. Hvað er það sem veldur því að stundum lyktar prumpið verr?  Ef það er mikið af brennisteinsvetni í loftsamsetningunni þá verður prumplyktin verri – kjöt og prótein búa til meira brennisteinsvetni og því verður lyktin sterkari.

Sumir tala um að það verði alveg úldin lyktin út úr þeim, þá er það yfirleitt að loftfælnu bakteríurnar í ristlinum hafa náð yfirhöndinni, þær eru þá að búa til sína afurð sem lyktar oft verr.

..en við viljum hafa þessar bakteríur í okkur til að vinna vinnuna? Já þær eru nauðsynlegar til að melta, allt sem við getum ekki melt það melta þær og þær lifa í sambúi með okkur. Ef ristillinn fær eitthvað ómeltanlegt niður í sig þá fáum við niðurgang því ristillinn sér bara um að frásoga vatn og sölt. Ef við borðum mjög mikið af trefjum þá kemur það að einhverju leyti ómeltanlegt niður í ristilinn og ristillinn nær ekki að draga vatnið úr þeim, bakteríurnar sjálfar nýta sér það að einhverju leyti en úrgangurinn af því sem brotnar niður og dauðar bakteríur búa til saurinn. Gasið er hins vegar restin af því sem gerjast og brotnar niður.

Hvað gerist þegar við erum alveg útþanin- eru bakteríurnar þá að búa til enn meira loft?  Uppþensla getur komið til vegna þess að loftmyndandi bakteríur eru yfirgnæfandi.  Þess vegna skiptir höfuðmáli að hafa þarmana í lagi og þar með bakteríuflóruna. Heilbrigt meltingarkerfi er byggt upp með góðu mataræði og þannig myndast góð bakteríuflóra.

Stundum þarf drastískari aðferðir til að fá góða bakteríuflóru í þarmana eins og eftir veikindi og þá gæti þurft að flytja hægðir frá öðrum aðila (s.s. maka eða nánum vin) inn í ristilinn til að fá góða bakteríuflóru í meltingarkerfið.

Af hverju ropa sumir og aðrir prumpa? Það hvert loftið leitar fer eftir því hvor leiðin er auðveldari. Gerjunin á sér samt stað í mjógirni og ristli og því er neðri leiðin auðveldari, mest af loftinu fer niður. Þeir sem drekka mikið gos gleypa mikið loft þegar þeir kyngja og ropa því oft. Þetta er líka einstaklingsbundið. Hins vegar ropum við ekki gerjuðu lofti.

Er hættulegt að halda í sér prumpinu- ýtir það undir hægðatregðu? Nei nei við það að halda í sér prumpi koma oft meiri læti í ristilinn og oft fylgja því spennuverkir. Verkurinn kemur til vegna þrýstings í görnum. Þrýstingurinn getur líka orðið til í smá snúningum í görninni eða ef loftið er mikið efst í ristlinum.

Það prumpa allir á hverjum degi, sumir bara prumpa þannig að enginn tekur eftir því. Við losum hins vegar alltaf eitthvað loft á dag, þannig virkar það.

Prump er semsagt eðlilegt fyrirbæri. Kannski hlæjum við af því að vond lykt og fyndið hljóð kemur saman, sem gerir stemninguna bæði vandræðalega og fyndna.

Mögulega er þetta svipað og með hund Pavlovs, við heyrum hljóðið sem við vitum að fylgir vandræðalegri vondri lykt og þar af leiðandi tengjum við prumpið við gleði.

Líklegast er það líka rétt því prumpið segir okkur að bakteríurnar okkar eru að standa sig í vinnunni og við lifum góðu lífi – það er nú aldeilis tilefni til að fagna í hvert sinn, Prumpið lifi!

Við þökkum Ásgeiri Böðvarssyni meltingarsérfræðingi fyrir svörin.

 

Share.

Hildur er sjúkraþjálfari, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Hún starfaði sem Hreyfistjóri við ráðleggingar í Hreyfiseðlum hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðis.