Passaðu þrýstinginn maður

0

Hækkaðan blóðþrýsting má gjarnan rekja til lífstíls og erfða, en langvarandi streita, kyrrseta, hreyfingarleysi, offita og of mikil áfengis- og saltneysla eru meðal annars þættir sem geta haft þau áhrif að blóðþrýstingur hækkar. Allt eru þetta nokkuð kunnuglegir lífsstílsþættir í nútímasamfélagi og er nú talið að yfir 30% einstaklinga á heimsvísu séu með of háan blóðþrýsing. Árlega má rekja um 9,4 milljónir andláta til of hás blóðþrýstings, enda einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma.

Hvað er háþrýstingur ?

Æskilegast er að blóðþrýstingur sé í kringum 120 mmHg í efri mörkum og 80 mmHg í neðri mörkum. Hjartað  dælir blóði af miklum krafti (mæld efri mörk) inn í æðakerfið, sem tekur við blóðinu og heldur þar ákveðnum þrýstingi (mæld neðri mörk). Þegar blóðþrýstingur er endurtekið mældur hærri en 140 í efri mörkum og 90 í neðri mörkum er talað um að viðkomandi sé með of háan blóðþrýsting eða háþrýsting (150/90 eru mörkin fyrir einstaklinga eldri en 60 ára).

Há neðri mörk segja okkur það að viðvarandi þrýstingur í æðum er mikill. Æðaveggurinn þolir það illa til lengri tíma og það koma skemmdir í hann. Þegar skemmdir eru komnar í æðaveginn eykst hætta á að blóðfitur komi sér fyrir þar, safnist upp og stífli æðarnar – með tilheyrandi álagi á nágrannaæðar sem áfram verða að sinna því hlutverki að færa nálægu líffæri blóð. Þegar svo jafnvel fleiri þrengingar eru komnar í æðarnar eykst krafan á hjartað að dæla af meiri krafti til að þrýsta blóðinu í gegnum þessi þrengsli. Þetta myndband útskýrir ferlið nokkuð vel.

Háþrýstingur er stundum kallaður „hinn þögli bani“ eða „silent killer“ vegna þess hve algengt er að einstaklingur hafi ekki hugmynd um að hann sé með of háan blóðþrýsting. Sumir eru hugsanlega ofan við æskileg mörk (120/80) án þess að teljast vera með háþrýsting og því óþarfi að vera á lyfjum, en svo þegar mikil streita og álag á sér stað í lífinu og við „höfum ekki tíma“ til að sinna hollum heilsuvenjum er líklegt að hjarta – og æðakerfið okkar taki sinn skerf af því álagi, með tilheyrandi hækkun á blóðþrýstingi.

Góðu fréttirnar eru þær að rannsóknir hafa sýnt að hreyfing er gríðarlega mikilvægur þáttur sem forvörn gegn háþrýstingi, einnig hjá þeim sem eru í auknum áhættuhópi (1, 23) .  Þetta er meðal annars vegna þess að í hvert sinn sem hreyfing er stunduð, þá lækkar blóðþrýstingur um allt að 10-20mm Hg næstu klukkustundir eða allt að sólarhring eftir hreyfinguna (post-exercise hypotension) (4, 5). Rannsóknir benda til að þjálfun á 50-85% af hámarkspúls, eða af miðlungsmikilli ákefð sé hæfileg til að ná þessum áhrifum fram (hámarkspúls er mældur 220 mínus aldur) (6).

Magn og ákefð

Þó þjálfun sé stunduð stutt, eða í um 5 mínútur getur það strax haft áhrif á lækkun blóðþrýstings næstu klukkustundirnar. Betri árangur næst þó ef þjálfun er stunduð af hæfilegri ákefð og í lengri tíma, eða 30-40 mínútur (7). Ekki er nauðsynlegt að þjálfa allar 40 mínúturnar í einni lotu, því það að ganga 4 x 10 mín yfir daginn getur haft jafn góð áhrif á blóðþrýsting (8). Þar sem blóðþrýstingslækkunin varir í allt að sólarhring eftir þjálfun, er æskilegt að þjálfunin sé stunduð sem ofast, eða um 5-6x í viku. Fyrst og fremst er mælt með þolþjálfun (ganga, sund og hjólreiðar). Styrktarþjálfun hefur einnig reynst vel og er þá mælt með að taka frekar léttari þyngdir og fleiri endurtekningar (til  dæmis þannig að 2 lotur af 15 endurtekningum séu teknar fyrir hverja æfingu).

Hægt er að fá ókeypis blóðþrýstingsmælingu í flestum apótekum. Ef borið hefur á einkennum eins og þrálátum hausverk eða langvarandi þreytu, eða háþrýstingur er hluti af ættarsögu þá er kjörið að fá slíka mælingu. Ef blóðþrýstingur mælist ítrekað of hár er ráðlagt að leita ráða hjá lækni um viðeigandi meðferð. Áhrif hreyfingar á blóðþrýsting skilar sér vel ef háþrýstingur er nú þegar til staðar og þó einstaklingar séu nú þegar á lyfjum, en þá getur verið gott að fylgjast með viðbrögðum við hreyfingu áður en hún er stunduð af miklum krafti. Læknar flestra heilsugæslustöðva landsins geta þá til dæmis ávísað á hreyfiseðil, þar sem hreyfistjóri getur mælt blóðþrýsting undir léttu álagi og ráðlagt frekar um æskilegt magn og ákefð sem hentar með tilliti til mælinga og einkenna hvers einstaklings. Samhliða skipulagningu á marvissri hreyfingu er einnig ákjósanlegt að finna leiðir til að minnka magn salts í fæðunni og er hægt að nálgast upplýsingar um hvernig það er gert hjá Embætti landlæknis.

Share.

Hildur er sjúkraþjálfari, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Hún starfaði sem Hreyfistjóri við ráðleggingar í Hreyfiseðlum hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðis.