Offita á unglingsárum hugsanlega tengd ristilkrabbameini

0

Unglingar sem eru í mikilli ofþyngd geta verið í tvöfaldri hættu á að fá ristilkrabbamein fyrir miðjan aldur samkvæmt rannsókn sem birtist nýlega í tímaritinu Gut.

Offita á fullorðinsárum hefur áður verið tengd ristilkrabbameini, sem er þriðja algengasta krabbamein meðal karla á heimsvísu, en lítið er vitað um tengsl offitu á unglingsárum við áhættu síðar á lífsleiðinni.

Þátttakendur voru 240.000 sænskir karlar sem voru á aldrinum 16 til 20 ára kvaddir í herinn. Þeir gengust undir almenna heilsufarsskoðun, meðal annars þyngdar- og hæðarmælingu.

Körlunum var fylgt eftir að meðaltali í 35 ár og reyndust í lok tímabils 1% vera offeitir. Á rannsóknartímanum greindust 885 karlanna með ristilkrabbamein og 384 með endaþarmskrabbamein.

Þeir sem voru offeitir á unglingsárum (líkamsþyngdarstuðull yfir 30 kg/m2) voru í tvöfalt meiri áhættu að greinast með ristil- eða endaþarmskrabbamein.

Þó svo að rannsóknin bendi til þess að offita á unglingsárum geti aukið líkur á að fá ristilkrabbamein síðar á ævinni þá er ekki hægt að draga ályktanir um hvort offitan sjálf sé orsakaþáttur. Frekari rannsókna er þörf til að leiða það í ljós.

 

Share.

Dr. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún er jafnframt annar höfundur bókanna "Útivist og afþreying fyrir börn" og Reykjavik With Kids."