Ný íslensk rannsókn skoðar tengsl milli fiskneyslu og krabbameins í brjóstum

0

Í október á þessu ári birtist ný íslensk rannsókn um tengsl milli fiskneyslu og krabbameins í brjóstum í tímaritinu Cancer Epidemiology, Biomarkers & Prevention. Rannsóknin skiptist í tvo hluta þar sem annars vegar er skoðaður hópur sem ólst upp í sjávarþorpum og hinst vegar hópur sem greinir frá fiskneyslu sinni á þremur tímabilum ævinnar.

Álfheiður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum
Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Álfheiðar Haraldsdóttir í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Búseta fyrstu ár ævinnar

Í rannsókninni voru notuð gögn frá Hjartavernd en á árunum 1967 til 1996 voru rúmlega 9000 konur á miðjum aldri spurðar hvar þær ólust upp sem börn. Þessum konum var svo fylgt eftir til loka árs 2014 með tilliti til hvort þær greindust með krabbamein í brjóstum. Búsetan á fyrstu árum ævinnar var flokkuð í þrjú svæði sem voru sveit, sjávarþorp og höfuðborgarsvæði.

Rannsóknin sýndi að konur sem bjuggu í sjávarþorpi fyrstu 20 ár ævinnar eða lengur voru í 22% minni áhættu á að fá brjóstakrabbamein síðar á ævinni borið saman við konur sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu.

Við útreikningana var tekið tillit til þekktra áhættuþátta brjóstakrabbameins s.s. hæðar, þyngdar og blæðinga- og frjósemissögu.

Fiskneysla á mismunandi æviskeiðum

Tæplega 3 þúsund konur sem gáfu upplýsingar um búsetu á unga aldri tóku svo þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar á árunum 2002 til 2006. Í þeirri rannsókn voru þær spurðar um mataræðið sitt á þremur tímabilum ævinnar. Þessi tímabil voru unglingsárin, miður aldur (40-50 ára) og efri ár. Allar konurnar höfðu borðað fisk á þessum tímabilum en tíðni neyslunnar var misjöfn milli þátttakenda.

Konur sem borðuðu meira en 4 skammta á viku af fiski  á miðjum aldri voru í 54% minni áhættu á að fá brjóstakrabbmein borið saman við konur sem borðuðu 2 skammta eða minna af fiski vikulega.

Ekki var safnað upplýsingum um eiginlega fiskneyslu í grömmum talið heldur var hér metin tíðni neyslu samanlagt á fiskmáltíðum og fiskiáleggi, gefið upp sem skammtar. Eins og með búsetuna var tekið tillit til þekktra áhættuþátta brjóstakrabbameins sem og neyslu annarra fæðutegunda við útreikningana. Vísir að verndandi sambandi sást einnig fyrir  mikla fiskneyslu á unglingsárunum en sambandið var ekki tölfræðilega marktækt.

Unglingsárin, og þá sérstaklega tíminn frá fyrstu blæðingum fram að fæðingu fyrsta barns, er sá tími sem brjóstavefurinn er talinn einna viðkvæmastur fyrir áreitum. Því er hugsanlegt að mikil neysla á fiski á þeim tíma veiti aukna vernd gegn brjóstakrabbameini.

Hvaða líffræðilegu ferlar gætu útskýrt niðurstöðurnar?

Niðurstöður rannsóknarinnar mætti skýra á nokkra vegu. Mikil neysla á fiski var mjög einkennandi fyrir íbúa sjávarþorpa þegar þátttakendur rannsóknarinnar voru að alast upp og einnig fannst verndandi samband milli mikillar fiskneyslu á miðjum aldri og brjóstakrabbameins.

Þessi jákvæðu áhrif gætu verið tilkomin vegna þess að fiskur er orkusnauð fæðutegund en einnig eru mörg næringarefni í sjávarfangi sem talin eru draga úr  myndum krabbameina s.s. D-vítamín, selen og omega-3 fitusýrur.

Í rannsókninni fannst ekki marktækt samband við neyslu á lýsi á neinu æviskeiði. Hugsanleg skýring á því gæti verið að þátttakendur voru að fá meira omega-3 fitusýrum úr fæðu samanborið við aðrar þjóðir. Þar af leiðandi gætu þau gagnlegu áhrif sem sumar erlendar rannsóknir hafa sýnt að fáist með neyslu þessara fitusýra verið minna sýnileg í þessum rannsóknarhóp.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að mögulega skiptir lífsstíll, jafnvel áratugum áður en greining á meininu verður, miklu máli.

Rannsóknin er samstarfsverkefni milli Hjartaverndar, Krabbameinsskrár Íslands, Miðstöðvar í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, Rannsóknastofu í Næringarfræði við Háskóla Íslands og Harvard School of Public Health.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.