Óla Kallý Magnúsdóttir, doktor í næringarfræði ritar:
Á vef Embættis landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala eru komnar út leiðbeiningar undir heitinu „Næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 – Fræðilegur bakgrunnur leiðbeininga fyrir heilbrigðisstarfsmenn.”
Leiðbeiningarnar unnu næringarfræðingar á Landspítala og Háskóla Íslands í samstarfi við fjölda annarra heilbrigðisstarfsmanna, heimilislækna, innkirtlalækna, hjúkrunarfræðinga o.fl. Leiðbeiningarnar eru gefnar út í samstarfi við Háskóla Íslands, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embætti Landlæknis og Matvæla- og næringarfræðifélag Íslands.
Þessum leiðbeiningum er ætlað að vera fræðilegt yfirlit og stuðningur fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2.
Af hverju leiðbeiningar um mataræði fyrir einstaklinga með sykursýki?
Sykursýki er alvarlegt og ört stækkandi heilbrigðisvandamál og fylgikvillar hennar eru margir, dýrir og alvarlegir. Næringarmeðferð er hornsteinn meðferðar þessa sjúkdóms en jafnframt getur hún verið einn mest krefjandi hluti hennar. Mikil gróska hefur verið í rannsóknum á næringarmeðferð fyrir einstaklinga með sykursýki undanfarin ár og hefur þessi gróska leitt til fjörugra og frjórra umræðna, sem er af hinu góða, en hefur einnig í för með sér að hætta er á misræmi í skilaboðum meðferðaraðila til skjólstæðinga. Það er fátt verra fyrir skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins en að þeir sérfræðingar sem koma að meðferð gefi mismunandi ráðleggingar, misvísandi skilaboð draga úr meðferðarheldni.
Tilgangur með útgáfu þessara leiðbeininga var að taka saman stöðu þekkingar í dag á mismunandi leiðum í næringarmeðferð við sykursýki. Með því að gera þær í samvinnu við sem flesta sem koma að meðferð þessa hóps var það von okkar að þær myndu leiða til betra samræmis í ráðleggingum.
Nota má mismunandi nálganir í næringarmeðferð við sykursýki – en fagaðili þarf að vera með í ráðum.
Rannsóknir benda til þess að unnt sé að beita nokkrum mismunandi aðferðum í næringarmeðferð við sykursýki af tegund 2. Engin ein leið, ein tegund mataræðis eða skipting orkuefnanna er betri en önnur. Í leiðbeiningunum, sem og í flestum erlendum leiðbeiningum, er því mikil áhersla lögð á einstaklingsmiðaða næringarmeðferð, þ.e. að mismunandi leiðir henta mismunandi einstaklingum. Það er því mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn kynni það fyrir skjólstæðingum sínum að nokkrar leiðir séu mögulegar og að lögð sé áhersla á gæði fæðuvals, þ.e. heilsusamlegt fæðuval sem inniheldur næringarþétt lítið unnin matvæli en ekki einblína einungis á skiptingu orkuefnanna eða ákveðin næringarefni. Val einstaklingsins og fæðissaga hans ættu einnig alltaf að liggja til grundvallar í vali á næringarmeðferð, bæði til að tryggja meðferðarheldni og til að forgangsraða breytingum sem ef til vill þarf að innleiða, í samráði við einstaklinginn.
Hvað er einstaklingsmiðuð næringarmeðferð?
Í einstaklingsmiðaðri næringarmeðferð er mikilvægt að meðferðaraðili hafi góða þekkingu á matvælum og næringu til að tryggja gæði mataræðisins og að hæfilegt magn vítamína, steinefna og annarra hollefna fáist úr fæðunni, ekki síst ef mataræði er mjög frábrugðið almennum ráðleggingum um mataræði. Til þess er mikilvægt að tryggja aðgengi einstaklinga með sykursýki að næringarfræðingum sem hafa þekkingu á þessu sviði.
Mikið og gott starf á sér stað á heilsugæslum landsins en eins og staðan er í dag hitta sárafáir einstaklingar með sykursýki af tegund 2 næringarfræðing fyrr en inn á spítala er komið. Enginn næringarfræðingur er til dæmis starfandi á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og einungis þrjár hlutastöður eru á heilsugæslum landsbyggðarinnar. Miklar vonir eru bundnar við að teymi innan heilsugæslunnar breyti þessum áherslum og að aðkoma næringarfræðinga að meðferð þessa hóps verði sjálfsögð. Þverfagleg teymisvinna heilbrigðisstétta er lykilatriði í meðferðum langvinnra sjúkdóma á borð við sykursýki af tegund 2.
Leiðbeiningarnar má nálgast á eftirfarandi slóðum:
Heimasíða Göngudeildar sykursýki á Landspítala
Heimasíða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins