Mikilvægt að beina sjónum að heilsusamlegum lífsvenjum í stað þess að einblína á líkamsþyngdarstuðulinn

0

Ný íslensk rannsókn birtist í PloS One á dögunum þar sem sagt er frá 18 ára ungmennum sem öll voru í kjörþyngd en markmið rannsóknarinnar var að bera saman lífsstíl og valda heilsufarsþætti þeirra þátttakenda sem voru með hlutfallslega háa líkamsfitu og þátttakenda með lægri líkamsfitu. Efnaskiptavilla (metabolic syndrome) er oft undanfari þess að viðkomandi þrói með sér sykursýki af gerð tvö og hjarta- og æðasjúkdóma og því er mikilvægt að horfa til áhættuþátta tengda efnaskiptum.

Þar sem konur eru almennt með hærri líkamsfitu (tengist kynhormónum) þá var skilgreiningin á hárri líkamsfitu mismunandi eftir kyni. Þannig voru kvenkyns þátttakendur skilgreindir með hátt hlutfall líkamsfitu ef þær mældust með meira en 30,6% af fitu í líkamanum. Karlkyns þátttakendur voru skilgreindir með hátt hlutfall líkamsfitu ef þeir mældust með meira en 17,6% af fitu í líkamanum. Þessi viðmið voru byggð á rannsókn eftir Lohman og félaga frá árinu 1997.

Ýmsir þættir voru mældir hjá þátttakendum svo sem þrek, mataræði, almennur lífsstíll og teknar voru blóðprufur. Síðan voru hóparnir (hærri samanborið við lægri líkamsfitu) bornir saman með tilliti til þessara þátta.

Af 182 þátttakendum voru 42% skilgreindir með hátt hlutfall líkamsfitu. Fleiri karlkyns þátttakendur voru með hátt hlutfall líkamsfitu (62%) miðað við kvenkyns þátttakendur (38%)

Helstu niðurstöður voru þær að ekki var marktækur munur á orkuinntöku milli hópanna en þeir sem voru með hærra hlutfall líkamsfitu voru síður að borða morgunmat og borðuðu einnig sjaldnar grænmeti borið saman við þá sem voru með lægra hlutfall líkamsfitu. Þeir sem voru með hærra hlutfalli líkamsfitu sögðust stunda líkamsrækt sjaldnar og skoruðu marktækt lægra á þrekprófi. Þátttakendur með hátt hlutfall líkamsfitu voru einnig tvisvar sinnum líklegri til að vera með einn eða fleiri áhættuþætti fyrir efnaskiptavillu en þátttakendur með lægra hlutfall líkamsfitu.

Höfundar rannsóknarinnar ályktuðu að mikilvægt væri að hvetja til heilsusamlegra lífsvenja fyrir öll ungmenni óháð líkamsþyngdarstuðli (BMI). Það er umhugsunarvert hversu margir þátttakendur voru með hátt hlufall líkamsfitu þrátt fyrir ungan aldur og beinir það sjónum að því hversu nauðsynlegt er að skapa ungmennum aðgengi að heilsusamlegum mat og bjóða upp á hreyfingu sem hentar hverjum og einum.

Jafnframt má velta fyrir sér þeirri orðræðu sem á sér stað þar sem næring og hreyfing er oftar en ekki tengd útliti og holdafari í stað þess að fókusinn sé settur á heilsuna. Hætta er á að slík áhersla verði til þess að ungt fólk i kjörþyngd taki síður til sín hvatningarorð um mikilvægi heilsusamlegra lífsvenja.

Rannsóknin var gerð á vegum Íþrótta, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Höfundar þessarar rannsóknar voru Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, nýdoktor og Sigurbjörn Ásgrímsson, prófessor.

Tengt efni:

Líkamsþyngdarstuðull – úrelt leið til að meta heilsu?

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.