Mikið þyngdartap á stuttum tíma getur haft varanleg áhrif á efnaskipti líkamans

0

Miklu þyngdartapi fylgir oft breyting á efnaskiptum líkamans sem gerir það að verkum að mjög erfitt verður fyrir einstaklinga sem léttast mikið að viðhalda þyngdartapinu. Grunnorkuþörf líkamans er sú orka sem líkaminn þarf til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfssemi eins og til dæmis að dæla blóði. Endurspeglar grunnorkuþörfin þær hitaeiningar sem líkaminn þarf sé hann í hvíld og ekki að melta fæðu – þær hitaeiningar sem þarf til að halda líkamanum gangandi.

Rannsókn um Biggest Loser þátttakendur

Nýleg rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Obesity skoðaði langtímaáhrif þyngdartaps á grunnorkuþörf þátttakenda í Bandaríska sjónvarpsþættinum The Biggest Loser – en þar keppa feitir einstaklingar í þyngdartapi. Rannsakendur framkvæmdu hinar ýmsu líkamsmælingar á 14 þátttakendum áður en þeir tóku þátt í keppninni, aftur við lok 30 vikna keppni og svo að lokum 6 árum eftir að keppni lauk.

Rannsakendur komust  að því að grunnorkuþörf þátttakendanna lækkaði á keppnistímabilinu (á 30 vikum) um 700 hitaeiningar og hélst þannig í 6 ár eftir að keppni lauk.

Það er eðlilegt að grunnorkuþörf minnki með aldrinum en sex árum eftir keppnina var grunnorkuþörf þátttakendanna um það bil 500 hitaeiningum lægri en við má búast hjá einstaklingum á þeirra aldri.

Keppendur misstu að meðatali 58 kíló á meðan á keppni stóð en höfðu 6 árum síðar þyngst aftur að meðaltali um 41 kíló. Aðeins einn þátttakandi hafði viðhaldið þyngdartapinu og voru 5 einstaklingar komnir upp í sömu þyngd og í byrjun eða meiri.

Þetta gefur til kynna að við jafn mikið og hratt þyngdartap og sjá má í þessum sjónvarpsþáttum að þá getur orðið varanleg breyting á efnaskiptum líkamans á þann hátt að vilji einstaklingurinn viðhalda þyngdartapinu þá þarf hann að borða mun færri hitaeiningar en aðrir einstaklingar á sama aldri.

Þessi rannsókn sýnir einnig hversu gríðarlega mikil áhrif umhverfið og líffræðilegir þættir hafa á þyngd og þyngdarbreytingar, mun meira en skortur á viljastyrk eins og svo oft er haldið fram. 

 

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum