Mengun og barnshafandi konur

0

Loftmengun og heilsa

Undanfarið hefur mikið verið rætt um möguleg heilsufarsáhrif eldgosa, nú síðast vegna gossins í Holuhrauni sem er uppspretta gífurlegs magns brennisteinsdíoxíðs sem sleppur út í andrúmsloftið. Loftmengun á Íslandi er almennt séð frekar lítil, sér í lagi samanborið við erlendar stórborgir þar sem mengunargildi eru oft mjög há sökum bílaumferðar, iðnaðar ofl. Á Íslandi skapast hins vegar stundum veðurfarsaðstæður sem verða þess valdandi að mikið magn mengunarefna safnast fyrir á ákveðnum svæðum, t.d. í vetrarstillum. Vel þekkt er að loftmengun getur valdið bólgum í öndunarvegi, dregið úr lungnastarfsemi, aukið astmaeinkenni og haft slæm áhrif á hjarta- og æðakerfi líkamans. Börn, aldraðir og barnshafandi konur eru sérstaklega viðkvæmir hópar fyrir skaðlegum áhrifum loftmengunar (1).

Áhrif loftmengunar á barnshafandi konur og ófædd börn þeirra

Vísbendingar eru um að mikil loftmengun geti  haft slæm áhrif á barnshafandi konur og ófædd börn þeirra. Fyrst ber að nefna áhrif á verðandi mæður en niðurstöður fjölmargra rannsókna benda til þess að mikil loftmengun geti valdið háþrýstingi eða meðgöngueitrun hjá barnshafandi konum (2). Hvað varðar áhrif loftmengunar á fóstur þá sýndi samantektargrein aukna áhættu á að eignast fyrirbura, léttbura og vaxtarskert börn á meðan stærri gerðin af svifryki (<10 µM) var tengd fæðingum vaxtarskertra barna. Ennfremur virðist vera sem að hár styrkur af brennisteinsdíoxíði í andrúmslofti geti valdið fyrirburafæðingum (3).

Líffræðilegar orsakir (biological mechanisms) sem mögulega liggja að baki neikvæðum áhrifum loftmengunar á heilsu barnshafandi kvenna og ófæddra barna þeirra eru nokkrar (3):

  • Loftmengun getur valdið bólgusvörun í líkamanum sem getur leitt til fæðingar fyrir tímann
  • Loftmengun getur haft bein eitrunaráhrif á fóstur og fylgju
  • Loftmengun getur valdið röskun á jafnvægi súrefnis og blóðrauða í líkamanum og þannig valdið minnkuðu súrefnisflæði yfir fylgju

Eru raunveruleg áhrif af gosunum í Eyjafjallajökli og í Holuhrauni?

eldgos

Gosið í Eyjafjallajökli, sem stóð yfir í rúman mánuð árið 2010, var að mörgu leyti einstakt. Um var að ræða gjóskugos sem dreifði gífurlegu magni af fíngerðri ösku út í andrúmsloftið. Í marga mánuði eftir að gosi lauk fór styrkur svifryks endurtekið margfalt yfir heilsuverndarmörk (4). Gosið í Holuhrauni var af mjög ólíkum toga; ekki var um að ræða gjóskugos, heldur var hár styrkur brennisteinsdíoxíðs einkennandi fyrir gosið. Styrkur brennisteinsdíoxíðs fór hæst í tæp 21 þúsund µg/m3 í nokkrar klukkustundir en aldrei fyrr hefur jafn hár styrkur mælst af þessari lofttegund hérlendis. Í  rannsóknum sem skoðuðu tengsl loftmengunar og heilsu barnshafandi kvenna/fæðingaútkoma voru notuð mishá mengunargildi en flestar þeirra miðuðu við lægri mörk en sáust hér á landi í tengslum við gosin.

Það er því  ljóst að gosið í Eyjafjallajökli og Holuhrauni gætu fræðilega séð hafa haft áhrif á viðkvæma hópa á Íslandi, þar á meðal ófrískar konur og ófædd börn þeirra og stendur til að rannsaka það á næstunni. Ef gos myndi hefjast aftur er mikilvægt að fylgjast vel með loftgæðum og ekki gera lítið úr viðvörunum og fara eftir ráðleggingum Almannavarna.

Share.

Védís er matvælafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Embættis landlæknis.