Meira er ekki endilega betra! – Hversu mikil hreyfing er æskileg?

0

Enginn efast um að hreyfing er góð fyrir heilsuna. Vitað er að hreyfing minnkar líkur á ýmsum sjúkdómum og ótímabærum dauða ásamt því að auka vellíðan og lífsgæði fólks. En hversu mikið þurfum við að hreyfa okkur til að minnka líkur á sjúkdómum tengdum kyrrsetu og ótímabærum dauða? Samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis ættu fullorðnir að stunda miðlungserfiða hreyfingu í að minnsta kosti 30 mínútur daglega og börn og unglingar í að minnsta kosti 60 mínútur til að viðhalda góðri andlegri og líkamlegri getu (1).

En eru þeir sem hreyfa sig mjög mikið í betri málum en þeir sem hreyfa sig lítið og er einhver viss ákefð betri en önnur?

Sérfræðingar hafa ekki verið sammála um hversu mikla hreyfingu við þurfum til að bæta og/eða viðhalda heilsu og auka lífslíkur okkar. Niðurstöður stórrar rannsóknar sem birtist nýverið í hinu virta vísindatímariti JAMA varpa ljósi á þessa óvissu sem hefur verið til staðar um magn hreyfingar. Í þessari rannsókn var miðað við bandarískar ráðleggingar; að fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í 150 mínútur á viku eða erfiða hreyfingu í 75 mínútur á viku, hið minnsta. Aldur þátttakenda var á bilinu 20-98 ára.

Niðurstöðurnar voru þær að borið saman við einstaklinga sem hreyfðu sig ekkert voru þeir sem hreyfðu sig eitthvað (en þó minna en  samkvæmt ráðleggingunum) í 20% minni áhættu á ótímabærum dauða. Þeir sem hreyfðu sig samkvæmt ráðleggingunum eða tvöfalt meira voru í 31% minni áhættu á ótímabærum dauða og þeir sem hreyfðu sig tvöfalt til fimmfalt meira en ráðleggingarnar voru í 37-39% minni áhættu á ótímabærum dauða. Þeir sem hreyfðu sig tífalt meira en ráðleggingar voru svo í 31% minni áhættu á ótímabærum dauða.

Niðurstöðurnar sýna að það að fara í göngutúr daglega í 30 til 60 mínútur eða skokka í 12 til 21 mínútur lengir líf fólks marktækt. Auðvitað er þetta bara ein útfærsla á magni hreyfingar og það að skokka eða ganga til dæmis þrisvar í viku, en þá lengur í hvert sinn, hefur einnig sömu gagnlegu áhrif.

Samkvæmt þessum nýju niðurstöðum virðist öll hreyfing vera betri en engin hreyfing. Jafnvel þótt einstaklingar nái ekki að hreyfa sig samkvæmt ráðleggingum er ávinningurinn af einhverri hreyfingu mikill. Enginn viðbótarávinningur virðist vera á því að hreyfa sig tífalt meira en ráðleggingar segja til um borið saman við þá sem hreyfa sig samkvæmt ráðleggingum hvað varðar áhættu á ótímabærum dauða. Sömu niðurstöður fengust þegar áhætta á hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameinum var skoðuð. Ráðleggingar Embættis landlæknis eru því gott viðmið til að bæta og/eða viðhalda heilsu og auka lífslíkur.

 

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum