Mamma, viltu lesa fyrir mig stærðfræðisögu?

0

Foreldrar eru hvattir til að byrja að lesa fyrir börnin sín á meðan þau eru ung og að hafa lestur hluta af daglegu lífi. Það er mikilvægt fyrir börn að heyra sögur á hverjum degi því þannig auka þau orðaforða sinn og lesskilning. Við vitum að með þessum hætti getum við undirbúið börnin okkar sem best áður en þau læra svo sjálf að lesa. En það vefst oft fyrir foreldrum hvernig best sé að undirbúa börn sín fyrir nám í stærðfræði.

Rannsóknir gefa þó til kynna að við getum notað nákvæmlega sömu aðferð við að þjálfa stærðfræði eins og við þjálfum lestur.

Með því að lesa fyrir börnin stærðfræðisögur getum við kynnt þau fyrir einföldum hugtökum í stærðfræði frá unga aldri og þannig byggt upp færni og sjálfsöryggi á nákvæmlega sama hátt og við gerum með lestri annarra bóka. Slíkar stærðfræðisögur hafa líka verið settar á tölvutækt form, t.d. sem snjallsímaforrit (app) eða tölvuleikur.

Eitt slíkt snjallsímaforrit var prófað á 587 börnum í fyrsta bekk í Bandaríkjunum. Börnin sem notuðu forritið með foreldrum sínum juku færni sína í stærðfræði mun meira en börnin sem ekki notuðu forritið.

Þau börn sem mest högnuðust á því að nýta forritið voru þau börn sem áttu foreldra sem töldu sig ekki með góða færni í stærðfræði sjálf.

 

Stærðfræði-appið byggir á bókum sem kallast Bedtime Math og hefur það að markmiði að hvetja foreldra og börn til að verja tíma saman við að lesa stærðfræðisögur og leysa einföld dæmi tengd sögunum. Engin tímapressa

eða stig eru gefin, heldur er markmiðið að foreldri og barn geti átt notalega stund við að lesa söguna og leysa saman stærðfræðidæmið sem fylgir. Sögurnar og dæmin verða svo flóknari með tímanum. Velja má um þrjú erfiðleika stig og henta auðveldustu dæmin börnum frá fjögurra ára aldri.

Til eru mörg stærðfræðiforrit sem hafa það að markmiði að kenna börnum stærðfræði en þetta app varð fyrir valinu við rannsóknina í Bandaríkjunum því það krefst samvinnu foreldris og barns, án þess að foreldrið þurfi að hafa mikinn bakgrunn í stærðfræði. Vitað er að samræður og samvera með foreldrum hefur mikil áhrif á hversu mikið krakkar læra og því vildu rannsakendurnar frekar nýta app sem yki samveru frekar en ýta krökkum í að vera einum í tölvunni.

Þar að auki er forritið frekar einfalt í útliti sem rannsakendur töldu mikinn kost því forrit með mikilli tónlist og hröðum myndum dregur athygli barnanna frá því sem þau eru að lesa og gera.

Sögurnar fjalla um allt milli himins og jarðar og sýnir krökkunum glögglega að stærðfræði er allstaðar í kringum okkur og hluti af öllu sem við gerum.

 

Bedtime Math appið er frítt í iTunes Appstore. Efnið er á ensku svo íslenskir foreldrar geta þýtt sögurnar um leið og þeir lesa fyrir börnin (engar áhyggjur! Þær eru mjög stuttar!).

Góða skemmtun í lestri og stærðfræði!

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.