Loftgæði – hvernig á að lesa úr upplýsingunum?

0

Rannsóknir hafa sýnt að loftmengun geti haft neikvæð áhrif á heilsu og því er vert að fylgjast með loftgæðum. Á vef Umhverfisstofnunar, www.loftgæði.is, má finna mælingar á ýmsum loftmengunarefnum, s.s. svifryki, ósoni, niturdíoxíði, koltvísýringi, brennisteinsdíoxíði, brennisteinsvetni og fleirum. Mælieining loftgæða er yfirleitt metin í míkrógrömmum á hvern rúmmetra lofts, eða µg/m3. En hvernig á að lesa úr þessum mælingum?

Byrja skal á að velja það svæði sem áhugi er fyrir en hægt er að velja milli ýmissa staðsetninga í Reykjavík, Hafnarfirði, á Akureyri og á Suðurlandi. Næst er valið það loftmengunarefni sem skoða á, en það getur verið svifryk undir 2,5 µm (míkrómetrar) (PM2,5) eða undir 10 µm (PM10), brennisteinsvetni (H2S), brennisteinsdíoxíð (SO2), koldíoxíð (CO2), kolmónoxíð (CO), köfnunarefnisoxíð (NOx), óson (O3) og öskumistur.

Að lokum er styrkleiki efnanna skoðaður. Hafa ber þó í huga að heilsuverndarmörk eru mismunandi fyrir hvert og eitt loftmengunarefni og því eru loftgæði mismunandi eftir því á hvaða efni er litið. Loftgæði geta flokkast sem góð þegar litið er t.d. á svifryk en á sama tíma geta þau verið slæm ef t.d. brennisteinsdíoxíð er hátt. Umhverfisstofnun reynir að einfalda þetta með því að hafa litakóða fyrir styrk hvers efnis.

Skilgreining litanna er eftirfarandi:

  • Grænt: merkir að styrkur loftmengunarefnisins er undir heilsuverndarmörkum þess efnis (góð loftgæði) og ættu allir að geta notið útiveru.
  • Gult: merkir að styrkur loftmengunarefnisins er nokkuð hærri en heilsuverndarmörkin segja til um (sæmileg loftgæði) en flestir geta verið úti án vandkvæða. Mjög viðkvæmir einstaklingar gætu fundið fyrir neikvæðum áhrifum efnisins.
  • Appelsínugult: merkir að styrkur loftmengunarefnisins er nokkuð hærri en heilsuverndarmörkin segja til um (slæm loftgæði fyrir viðkvæma) en þá munu viðkvæmir mjög líklega finna fyrir einkennum og jafnvel einhverjir hraustir einstaklingar líka.
  • Rautt: merkir að styrkur þess efnis er vel yfir heilsuverndarmörkum (óholl loftgæði) og allir einstaklingar líklegir til að finna fyrir neikvæðum einkennum, einkum viðkvæmir einstaklingar.
  • Fjólublátt og brúnt: merkir að styrkur loftmengunarefnisins er mjög vel yfir heilsuverndarmörkum (mjög óholl loftgæði/hættuástand) og ættu allir að forðast útiveru, viðkvæmir og hraustir.

Í þessu samhengi er gott að minna á að viðkvæmir eru ekki bara þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma heldur líka börn og eldra fólk. Einnig má nefna að líkamleg áreynsla í mengun utandyra getur ýtt undir frekari einkenni þar sem mengunin nær lengra niður í lungun og hefur því víðtækari áhrif á líkamann.

Að lokum má nefna að almenn skynsemi er mjög góður mælikvarði og nær ansi langt. Líttu í kringum þig. Sérðu mistur? Finnurðu einhverja lykt? Ef svo er, þá má vera að það sé hækkun á styrkleika einhverra loftmengunarefna. Ef þú hefur möguleikann á því, athugaðu þá á www.loftgæði.is hvort aukin mengun sé á þínu svæði. Mundu, ef þú ert í vafa, þá er betra að halda sig innandyra, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar.

 

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.