Ljósmæður hjálpa konum að komast yfir erfiða fæðingarreynslu

0

Þrátt fyrir að flestar konur upplifi fæðingar sínar sem jákvæða reynslu, þá eiga sumar konur erfitt með að komast yfir neikvæða upplifun sína. Rannsóknir sýna að konur sem hafa upplifað mikil inngrip meðan á fæðingu stóð, sem og konur sem upplifa að hafa misst stjórn á aðstæðum í fæðingu eru líklegri en aðrar konur til að eiga erfitt með að komast yfir fæðingarreynslu sína. Slæm reynsla í fæðingu (e. Birth trauma) getur haft víðtæk áhrif á líðan og heilsu konunnar en einnig á samskipti hennar og tengsl við barn og maka. Þess vegna er mikilvægt að vinna með erfiða eða neikvæða fæðingareynslu og ávallt betra að leita sér hjálpar fyrr en seinna.

Ef nýbakaðir foreldrar eiga enn erfitt með að komast yfir fæðingarreynslu sína um sex vikum eftir fæðingu er rétt að hvetja þau til að leita sér aðstoðar fagfólks.

 

“Ljáðu mér eyra” er samtalsþjónusta

Á Íslandi stendur konum (og fjölskyldum þeirra) með erfiða reynslu að baki til boða að hitta ljósmæður sem starfa í viðtalsþjónustu sem kallast „Ljáðu mér eyra“. Markmið þessarar viðtalsþjónustu er að veita konum stuðning við að vinna úr erfiðri fæðingarreynslu, stuðla að jákvæðri reynslu foreldra af næstu meðgöngu og fæðingu og veita ráðgjöf.

Konur geta óskað eftir því að ræða við þá ljósmóður sem sinnti henni í fæðingu og jafnframt fengið viðtal við fæðingarlækni eða sálfræðing eftir því sem við á.

Eftirspurn eftir þjónustunni hefur aukist á undanförfnum árum og nú standa fimm ljósmæður að teyminu (Guðlaug Pálsdóttir, Jóhanna Hauksdóttir, Valgerður Lísa Sigurðardóttir, Hrafnhildur Ólafsdóttir og Birna Ólafsdóttir). Bókanir fara fram á göngudeild mæðraverndar í síma 543 3253 (2)

Árlega leita um 50-70 konur til ljósmæðranna í Ljáðu mér eyra og er algengt að konur komi í viðtal þegar þær verða barnshafandi aftur. Þær hafa oft sett erfiða reynslu sína til hliðar en svo hellist minningin yfir þær þegar þær sjá fram á að þurfa að fara í gegnum fæðingu aftur.

 

Hverju má ég búast við í viðtalinu?

Konur geta búist við að fá nægan tíma með ljósmóður í Ljáðu mér eyra en áætlað er að hvert viðtal taki um klukkutíma. Ljósmóðirin er ávallt búin að lesa yfir fæðingarskýrslu konunnar áður en viðtal hefst og er því komin með upplýsingar um gang mála í fæðingu fyrir viðtal. Viðtalið er svo opnað með spurningu um hvað konan vilji ræða og stýrir hún svo ferðinni í viðtalinu.

Konunni er boðið að fara yfir fæðingarlýsinguna og fá útskýringar á textanum sem stendur í fæðingaskránni.

Oft er minning um atburðarrásina óljós og með því að fara yfir fæðingarsöguna er um leið verið að fylla inn í eyður en skýr mynd af atburðarrásinni getur hjálpað til við úrvinnslu tilfinninga tengdum fæðingunni. Oft dugar eitt viðtal en konunni er boðin endurkoma ef ástæða þykir til. Einnig er henni boðin tilvísun til annarra fagaðila ef mál hennar er þess eðlis, t.d. viðtal við sálfræðing eða fæðingalækni.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.