Líkamsþyngdarstuðullinn eða BMI stuðullinn hefur lengi verið notaður af bæði vísindamönnum og heilbrigðisstarfsfólki sem mælitæki fyrir heilsu. Til að reikna út BMI er hæðinni (í metrum) í öðru veldi deilt upp í líkamþyngd (í kílóum). Þrátt fyrir að BMI stuðullinn geri ekki greinarmun á fitumassa og fitufríum massa þá hafa rannsóknir sýnt fram á að samband sé milli BMI stuðulsins og beinna fitumælinga (1, 2), því hærri líkamsþyngdarstuðull því hærri er fitumassinn. Þá hefur sterkt samband fundist á milli BMI stuðulsins og ýmissa sjúkdóma eins og sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma og nokkurra tegunda krabbameina (3, 4, 5).
Ný rannsókn sem skoðar samband milli líkamsþyngdarstuðls og annarra heilsufarslegra þátta
Þrátt fyrir að BMI stuðullinn gefi ákveðnar heilsufarslegar vísbendingar þegar stórir hópar eða þjóðir eru rannsakaðar þá er varasamt að nota hann á einstaklingsgrundvelli. Ný rannsókn (6) frá Bandaríkjunum skoðaði hvernig samband var milli BMI stuðulsins og heilsufarslegra þátta eins og blóðþrýstings, kólesteróls, insúlín ónæmis og blóðsykurs. Rannsakendur sáu að um það bil helmingur þeirra sem flokkast í yfirþyngd (BMI = 25-29.9 kg/m2) voru heilbrigðir hvað varðar þessa ofantöldu heilsufarslegu þætti (cardiometabolically healthy), 29% þeirra sem flokkast í fyrsta offituflokki (BMI = 30-34.9 kg/m2) og 16% þeirra sem eru með BMI yfir 35 kg/m2. Til viðbótar kom í ljós að 30% þeirra sem flokkast í kjörþyngd (BMI = 18.5-24.9 kg/m2) voru óheilbrigðir hvað varðar þessa heilsufarslegu þætti (cardiometabolically unhealthy).
Förum varlega í að meta heilsu fólks með líkamþyngdarstuðlinum einum saman
BMI stuðullinn er ódýrt og þægilegt mælitæki og er því notaður víða innan heilbrigðiskerfisins sem mælikvarði á heilsu. Hins vegar getur þessi mikla athygli á þyngd einstaklingins haft gríðarlega neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu einstaklinga (7). Blóðmælingar eru bæði flóknari og dýrari en gefa aftur á móti mun nákvæmari og markverðari heilsufarslegar niðurstöður.
Einnig getur hreyfigeta, þrek og þol einstaklingsins gefið mun nákvæmari upplýsingar um heilsufar heldur en BMI stuðullinn einn og sér.
Til viðbótar hefur nýleg rannsókn sýnt að öflugustu og árangursríkustu inngripin til að hafa áhrif á heilsu eru þau sem leggja áherslu á heilsuhegðun, eflingu sjálfstrausts, trú á eigin getu og kenna praktískar aðferðir við streitustjórnun. Inngrip sem leggja mesta áherslu á þyngd og þyngdartap virðast ekki eins árangursrík til langtíma heilsueflingar (8).