Eitt helsta vandamál sem fylgir innkaupum til heimilisins í dag er magn umbúða. Heilsan okkar hefur áður skrifað pistla um vistvæn innkaup, þ.e. hvernig megi draga úr áhrifum einstaklingsins á umhverfið þegar verslað er í matinn en nú hefur Kjarninn vakið athygli á því að Krónan í Lindum og úti á Granda hefur tekið upp á því að bjóða upp á afpökkunarborð fyrir viðskiptavini verslunarinnar þar sem í boði er að skilja eftir umbúðir. Viðskiptavinum býðst kostur á að taka plast, pappa og aðrar umbúðir utan af vörum sínum áður en það yfirgefur verslunina og Krónan sér um að koma umbúðunum til endurvinnslu. Þetta er gert til að minnka úrgang heimafyrir en einnig er langtímamarkmiðið að lágmarka umbúðir í samstarfi við birgja. Heilsan okkar telur þetta vera góða leið til að sýna fram á hversu mikið af umbúðum eru í raun og veru óþarfar en einnig getur þetta ýtt undir endurvinnslu fyrir þá sem flokka ekki heima hjá sér. Mikil vitundavakning er á úrgangsvanda heimsins í dag. Leggjum okkar af mörkunum og minnkum úrgang, flokkum og endurvinnum. Gott framtak hjá Krónunni!
Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir
Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.