Kókosolía er ekki betri en aðrar jurtaolíur fyrir hjartað

0

Þann 16. mars síðastliðinn birtist yfirlitsgrein í Nutrition Reviews þar sem farið var yfir 21 rannsókn sem skoðað hafa áhrif kókosolíu á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, með sérstaka áherslu á blóðfitur.

Í öllum frumuhimnum líkamans eru fituefni en við þurfum fituefni meðal annars til að:

  • Veita okkur orku til daglegra athafna
  • Veita líkamanum hitaeinangrun
  • Vernda líffærin
  • Mynda hormón

Líkaminn myndar eitt þessara fituefna sjálfur sem er kólesteról en við fáum líka kólesteról úr fæðutegundum eins og eggjarauðu, osti, kjöti, fisk og rækjum.

Til að fituefni geti ferðast um blóðið þarf svokallað lípóprótein til að flytja það af því að fita er ekki vatnsleysanleg. Tvö algengustu lípópróteinin eru HDL (High Density Lipoprotein) sem flytur fitu (þar með talið kólesteról) frá vefjum líkamans til lifrar og LDL (Low Density Lipoprotein) sem flytur fitu til vefja líkamans.

Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru margir og er einn þeirra hátt heildarkólesteról í blóði. Annar áhættuþáttur er hátt gildi LDL-kólesteróls. LDL-kólesteról getur síast inni í æðaveggina og hlaðist þar upp og valdið æðakölkun.

Mikil neysla á mettaðri fitu er talin auka magn LDL-kólesteróls í blóði.

Nýleg stór bandarísk rannsókn frá Harvard, sem fylgdi þátttakendum eftir í 24-30 ár, sýndi að bæði mettuð fita og fínunnin kolvetni/viðbættur sykur auka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Hefur kókosolía áhrif á LDL-kólesterólið?

Kókosolía er mettuð fita en frábrugðin dýrafitu að því leyti að hún er með aðeins meira magn af styttri fitusýrum en til dæmis smjör (tafla 2 í greininni). Samkvæmt áðurnefndri yfirlitsgrein þá virðist kókosolían hækka heildarkólesteról og LDL-kólesteról í meira mæli en mjúk (ómettuð) fita en í minna mæli en smjörið gerir (mettuð fita). Samkvæmt þeim rannsóknum sem voru til umfjöllunar þá kom líka fram að kjötið og safinn í kókoshnetunni hefur ekki skaðleg áhrif á hjarta- og æðakerfið.

Í þessari vísindalegu samantekt voru ekki metnir aðrir þættir sem kókosolían gæti haft á heilsuna. En samkvæmt þeirri þekkingu sem er til staðar núna er ekki hægt að mæla með því að nota frekar kókosolíu í staðin fyrir aðrar jurtaolíur.

Pistlahöfundur mælir ávallt með því að einstaklingar noti fjölbreytt úrval af mjúkri fitu eins og kemur fram í ráðleggingunum frá Embætti landlæknis. Kókosolían ætti því að vera í góðu lagi í hóflegu magni hjá þeim sem borða annars hollt og fjölbreytt fæði en alls ekki eini fitugjafinn.

Ítarefni:

Hvað er kólesteról og hvað telst hæfilegt magn þess í blóði?

Grundvöllur ráðlegginga um mataræði – Embætti landlæknis

Butter is not back: Limiting saturated fat still best for heart health

 

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.