Þeir eru margir sem tengjast kaffi sterkum tilfinningaböndum. Hver kannast ekki við að finna ilminn af nýlöguðu kaffi á morgnana og fyllast eftirvæntingu eftir fyrsta bolla dagsins? Nú þegar skammdegið hellist yfir okkur og þörfin fyrir gott kaffi eykst, er ekki úr vegi að fara yfir rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum kaffis á mannslíkamann.
Í gegnum tíðina hefur neysla á kaffi verið talin vera óholl og fólki hefur verið ráðlagt að takmarka kaffidrykkju sína eða jafnvel sleppa henni alveg. Nú hefur hópur vísindamanna við Harvard háskóla í Bandaríkjunum gert viðamiklar rannsóknir á áhrifum kaffineyslu á heilsu og niðurstöður þeirra rannsókna eru sannkallað gleðiefni fyrir kaffiunnendur.
Getur mikil kaffineysla valdið aukinni dánartíðni?
Tengsl kaffis við dánartíðni voru skoðuð í tveimur stórum rannsóknum þar sem 130,000 einstaklingum var fylgt eftir í 18-24 ár.
Skemmst er frá því að segja að neysla á kaffi reyndist ekki hafa nein áhrif á áhættuna á því að deyja, hvorki vegna krabbameina né hjarta- og æðasjúkdóma. Jafnvel þegar fólk drakk mjög mikið af kaffi (yfir 6 bolla á dag) þá varð ekki aukin dánartíðni í þeim hópi (1).
Getur kaffineysla haft jákvæð áhrif á heilsu manna?
Niðurstöður rannsókna benda til þess að kaffineysla geti verið verndandi gegn sykursýki af týpu 2 (2), Alzheimer og Parkison veiki (3) og krabbameini í lifur (4).
Athyglisvert er að verndandi áhrif kaffis á sykursýki voru svipuð hvort sem var um að ræða venjulegt kaffi eða koffínlaust kaffi – sem gefur til kynna að það sé eitthvað annað en koffínið sem veitir þessi verndandi áhrif. Ennfremur virðist sem miðlungsneysla á kaffi veiti mögulega vernd gegn hjarta- og æðasjúkdómum (5, 6) þrátt fyrir að frekari rannsóknir þurfi til að hægt sé að fullyrða að svo sé.
The first cup of coffee in the morning is happiness
Andoxandi eiginleikar kaffis
Kaffi inniheldur mikið magn af andoxandi efnum (7) sem vernda líkamann fyrir skaðlegum áhrifum frírra radikala (sindurefna) auk þess sem þau minnka bólgur í líkamanum. Fríir radikalar myndast við dagleg efnaskipti líkamans og geta, í of miklu magni, valdið frumskemmdum sem geta leitt af sér marga króníska sjúkdóma svo sem krabbamein.
Hversu mikið af kaffi er óhætt að drekka?
Ef þú upplifir skjálfta, streitu eða vanlíðan eða átt í erfiðleikum með svefn eftir að hafa drukkið kaffi þá ertu augljóslega að drekka of mikið af því. Með tilliti til tengsla kaffis og heilsufars þá virðist mikil neysla á kaffi eða allt að 6 bollar á dag ekki auka áhættuna á ótímabæru dauðsfalli né krónískum sjúkdómum.
Eru einhverjir sem ættu að forðast kaffi?
Þrátt fyrir að nýjustu rannsóknir sýni að kaffi sé skaðlaust (og jafnvel gott fyrir heilsu) þorra almennings, þá eru samt ákveðnir hópar sem ættu að sleppa því að drekka kaffi.
Ófrískar konur ættu að sleppa því að drekka kaffi eða drekka mjög lítið af kaffi þar sem koffein virðist valda vaxtarskerðingu fóstra í móðurkviði auk þess að geta mögulega valdið fósturláti (8, 9). Koffín berst yfir fylgju til fósturs en fóstrið er mjög viðkvæmt fyrir koffíni þar sem það hefur ekki þróað með sér hæfileikann til að brjóta það niður.
Vitað er að blóðþrýstingar hjá fólki sem er óvant kaffidrykkju, hækkar töluvert þegar það byrjar að drekka kaffi (koffín). Þessi blóðþrýstingshækkun gengur síðan að mestu leyti til baka – en þó ekki að öllu leyti og regluleg neysla á kaffi veldur lítillegri blóðþrýstingshækkun (10). Því ætti fólk sem er með of háan blóðþrýsting eða fólk sem á í vandræðum með stjórnun á blóðþrýstingi að skipta yfir í koffínlaust kaffi.
Þar sem taugakerfi barna er ekki fullþroskað þá eru þau sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum koffíns og þar af leiðandi er skynsamlegt að halda kaffidrykkjum og öðrum drykkjum sem innihalda koffín, frá börnum og unglingum.
Til að draga saman, þá sýna nýjustu rannsóknir að kaffidrykkja er ekki heilsuspillandi og getur jafnvel haft verndandi áhrif gegn ýmsum lífsstílssjúkdómum. Kaffi er því góður valkostur þegar kemur að því að velja drykki í amstri dagsins – bragðgóður, hressandi og dásamlega ilmandi. Njótið!