Þegar matvörum er raðað í ísskápinn er mikilvægt að passa að hrávörur eins og grænmeti og kjöt komist ekki í snertingu við tilbúinn mat s.s. skinku eða matarafganga. Einnig er mikilvægt að passa að raða þannig að ekki geti lekið af hráum vörum niður í td. opnar mjólkurfernur eða opin matarílát í hillunni fyrir neðan.
Þegar matvæli eru geymd í kæli hægist á fjölgun baktería. Í frysti stöðvast fjölgun baktería, en þær lifa áfram. Ísskápurinn á að vera 0-4°C og frystirinn -18°C eða kaldari.
Algengt er að hitastig í ísskápum sé mun hærra en við höldum. Fylgstu með því, það skilar sér í betra geymsluþoli, auk þess sem það tryggir öryggi matarins.
Til þess að kæling sé góð þarf að gæta þess að yfirfylla ekki ísskápinn.
Heimild: Matvælastofnun