Hvert og eitt okkar getur bætt andrúmsloftið

0

Umhverfisstofnun hefur auglýst drög að áætlun um loftgæði á Íslandi til umsagnar og skilafrestur er til 31. ágúst 2017. Um er að ræða aðgerðaráætlun til að stuðla að góðum loftgæðum og heilnæmu umhverfi í landinu. Í áætluninni eru sett  fram tvö markmið. Annars vegar að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi og hins vegar að fækka árlegum fjölda daga sem svifryk fer yfir skilgreind heilsuverndarmörk.

Sjá má í áætluninni að margt er hægt að gera til að bæta loftgæði í landinu og allir geta lagt hönd á plóg.

Til að mynda er lagt til að gert verði fræðsluátak þar sem kynnt er að lausaganga bíla er bönnuð. Með því að draga úr lausagöngu bíla (t.d. þegar við sköfum rúðuna á bílnum á veturnar) dregur úr losun loftmengunarefna í andrúmsloftið.  Einnig slíta nagladekk götum margfalt meira en ónelgd dekk og því er æskilegt að nota aðeins negld dekk á skilgreindum leyfilegum tímum nema þörf sé fyrir annað. Með betra upplýsingaflæði til almennings um hvað hefur áhrif á loftgæði, er vonast til þess að íbúar landsins verði meðvitaðri um það að hver og einn getur tekið þátt í að stuðla að betri gæðum andrúmsloftsins.

Ein helsta uppspretta loftmengunar á Íslandi er umferð bifreiða

Drögin má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar en allir mega gefa umsögn um drögin. Fyrirhugað er að gefa áætlunina út næsta haust þegar unnið hefur verið úr öllum umsögnum.

Til að fræðast frekar þá var fréttastofa RÚV með stutta umfjöllunum málið þann 30. júní. Fréttina má nálgast hér: “Drög að áætlun um loftgæði“. Einnig ræddi Kári Gylfason við einn höfund áætlunarinnar í Speglinum sama dag og nálgast má þá umfjöllun hér en hún byrjar á mínútu 8:50.

 

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.