Hversu mikið þurfum við af kolvetnum fyrir góða heilsu?

0

Eitt af verkefnum næringarfræðinnar er að rannsaka hvort ákveðnir matarkúrar geti haft áhrif á langlífi og heilsu. Sem dæmi má nefna þá hafa rannsóknir sýnt að hópar sem fylgja Miðjarðarhafsfæðinu lifa lengur að meðaltali og fá síður ýmsa sjúkdóma.

Undanfarin ár hafa opinberar ráðleggingar um mataræði snúist meira um heildstæða nálgun á mataræðið (í líkingu við Miðjarðarhafsfæðið) í stað þess að einblína of mikið á einstaka fæðutegundir eða hlutföll milli kolvetna, fitu og próteina.

Opinberar ráðleggingar um mataræði eru gefnar til að tryggja að okkur skorti engin næringarefni (orkuefni, vítamín og steinefni) og til að minnka líkur á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum svo sem hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameinum.

Kúrar eins og Ketó – mataræðið og Atkins hafa verið vinsælir þar sem magn kolvetna í fæðunni er takmarkað verulega. Hafa ber í huga að matvæli sem innihalda kolvetni eru ekki öll eins. Hvítur sykur er eitt form kolvetna sem ekki er gott að innbyrða of mikið af og má líka sleppa úr mataræði án þess að við verðum fyrir næringarskorti. Á hinn bóginn er mælt með því að borða daglega fæðutegundir úr jurtaríkinu sem innihalda meðal annars kolvetni eins og ávexti, grænmeti, heilkornavörur (t.d. heilhveiti, bygg, rúg og hýðshrísgrjón) og baunir. Þessar fæðutegundir eru ríkar af vítamínum, steinefnum, ýmsum andoxunarefnum, plöntuestrógenum (phytoestrogen) og trefjum.

Ný langtímarannsókn sem skoðar kolvetnaneyslu og dánartíðni

Í ágúst á þessu ári birtist vísindagrein í Lancet Public Health sem bæði fjallar um rannsókn sem framkvæmd var í fjórum ríkjum í Bandaríkjunum (ARIC – study) en einnig safngreiningu (meta-analýsu) sem höfundar ARIC rannsóknarinnar framkvæmdu þar sem sóttar voru niðurstöður sjö vísindarannsókna til viðbótar og framkvæmdir nýir útreikningar út frá stærri hópi frá fleiri löndum til að skoða samband milli kolvetnaneyslu og dánartíðni. Þátttakendum var fylgt eftir í 5 til 29 ár og gefa þessar rannsóknir því góða mynd af langtímaáhrifum þess að borða lítið af kolvetnum.

Í ARIC rannsókninni voru rúmlega 15 þúsund þátttakendur á aldrinum 45 til 64 ára og svöruðu þeir spurningalista um mataræði á árunum 1987 til 1989. Spurt var um tíðni neyslu á fæðutegundum ásamt skammtastærðum. Útfrá þessum upplýsingum var reiknuð heildar orkuinntaka frá mataræðinu og hlutföll orkuefnanna (prótein, fita og kolvetni). Þátttakendur sem voru með mjög lága eða mjög háa orkuinntöku voru ekki hafðir með í þessari rannsókn. Í þessum sjö rannsóknunum voru samanlagt um 417.000 þátttakendur sem gáfu upplýsingar um mataræði og þeim svo fylgt eftir eins og var áður lýst.

Þátttakendum í ARIC rannsókninni var að jafnaði fylgt eftir í 25 ár. Helstu niðurstöður voru á þá leið að þeir sem borðuðu lítið af kolvetnum (minna en 40% orkunnar kom frá kolvetnum) voru í 15% aukinni hættu á að látast borið saman við þá sem fengu á bilinu 50-55% orkunnar frá kolvetnum. Þátttakendur sem borðuðu mjög mikið af kolvetnum (meira en 70% orkunnar) voru einnig í aukinni áhættu (15%) á að látast borið saman við þá sem fengu á bilinu 50-55% orkunnar frá kolvetnum, sem er einmitt á því bili sem opinberar ráðleggingar segja til um (45-60%).

Þegar allar rannsóknirnar sjö voru reiknaðar með ARIC rannsókninni mátti sjá  20% aukna dánartíðni hjá þeim sem neyttu lítið af kolvetnum (minna en 40% orkunnar) og 23% aukin dánartíðni hjá þeim sem neyttu mikið af kolvetnum (meira en 70% orkunnar).

Skiptir máli hvað er borðað í staðin fyrir kolvetni?

Í rannsókninni var einnig skoðað hvort það skipti máli hvað er borðað í staðinn fyrir kolvetni – ef kolvetnaneyslan var á annað borð lág eða undir 40% af heildarorkuinntöku. Hér skal tekið fram að ef miðað er við 2000 hitaeininga fæði þá samsvarar 40% af heildarorkunni til 200 gramma af kolvetnum.

Það sem rannsakendur sáu var að ef þátttakendur sem fengu minna en 40% orkunnar frá kolvetnum, borðuðu mikið af fæðutegundum úr dýraríkinu þá jókst dánartíðnin en ef þátttakendur borðuð mikið af fæðutegundum úr jurtaríkinu til að fá prótein og fitu þá var ekki aukin dánartíðni.

Hvað er best fyrir heilsuna?

Í þessari samantekt rannsókna sem hér er fjallað um voru skoðuð langtímaáhrif mismikillar kolvetnaneyslu og kom í ljós að bæði lítil og mikil kolvetnaneysla tengist aukinn hættu á andláti sem þýðir að þessir hópar voru að lifa að meðaltali skemur en sá hópur sem fékk á bilinu 50-55% orkunnar frá kolvetnum. Einnig mátti sjá að ef þátttakendur voru að borða lítið af kolvetnum (undir 40% heildarorkunnar) þá virtist það vega upp neikvæð áhrif á dánarlíkur ef viðkomandi borðaði í staðin vel af fæðutegundum úr jurtaríkinu.

Þessar niðurstöður styrkja enn frekar þær opinberu ráðleggingar sem eru gefnar á Norðurlöndunum og þar með talið Íslandi.

Skilaboðin er því áfram þau að við ættum að einbeita okkur að fæðumynstri þar sem meginundirstaðan kemur frá fæðutegundum úr jurta- og sjávarríkinu.

Fyrir þá sem vilja léttast með því að borða minna af kolvetnum er mikilvægt að tryggja að það sé borðað vel af ávöxtum, grænmeti og heilkornavörum m.a. til að tryggja næga trefjaneyslu. Það að taka út margar fæðutegundir skapar hættu á að viðkomandi fái ekki öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Hins vegar er mjög jákvætt að takmarka eða sleppa kolvetnum sem finna má í kökum, kexi, sælgæti og gosdrykkjum.

Höfundar

Thor Aspelund

Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands

Thor Aspelund, tölfræðingur og prófessor við Miðstöð í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands

Tengt efni

Nýjar niðurstöður í næringarrannsóknum eða ekki?

Hjartavænt mataræði

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.