Hvernig sýnum við þolendum kynferðisofbeldis stuðning?

0

Að undanförnu höfum við mörg orðið vör við ákveðna byltingu sem beinist að því að brjóta niður þá þöggunarmúra sem umlukt hafa kynferðisofbeldi. Andlitsmyndirnar, appelsínugulu og gulu, sem eru á facebook-síðum margra landsmanna eru þáttur í róttækri hreyfingu til að opna á umræðu um algengi kynferðisofbeldis í okkar samfélagi.

Mörg okkar hafa eflaust velt því fyrir sér hvernig við getum sýnt þeim stuðning sem gengið hafa fram fyrir skjöldu og opinberað að þau hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Hlusta og vera til staðar

Það þarf mikinn kjark til að stíga það skref að tala um reynslu af kynferðisofbeldi. Því skiptir góður stuðningur ástvina veigamiklu máli fyrir þolendur.

Með því mikilvægasta sem aðstandandi getur gert er að vera virkur hlustandi og sýna þolandanum skilning og samkennd.

Gott er að hlusta á frásögn þolanda án þess að grípa fram í eða dæma hana. Krefjist ekki ítarlegra skýringa á atburðinum heldur leyfið þolandanum að ráða því hverju hann treystir sér til að segja frá. Gott er að hafa í huga að áfallaminningar eru oft brotakenndar og sumir þolendur muna ekki eftir ákveðnum hluta atburðarins.

Mikilvægt er að forðast að:

  • dæma þolandann fyrir hegðun sem tengist atburðinum
  • gefa í skyn að ofbeldið hafi verið þolandanum að kenna
  • segja viðkomandi að gleyma ofbeldinu eða komast yfir það
  • gera lítið úr áfallinu eða draga frásögnina í efa

Gott er að minna þolandann á að þú ert ætíð til staðar og minna ástvini okkar nógu oft á hversu vænt okkur þykir um þau. Það eitt að vera til staðar fyrir vini okkar og fjölskyldu, veita þeim skilning og stuðning, getur verið ómetanlegt í bataferli eftir alvarlegt áfall.

 Aðstandendur hugi einnig vel að sér

Að fá fréttir af því að ástvinur hafi orðið fyrir ofbeldi getur vakið upp sterkar tilfinningar hjá aðstandendum svo sem hjálparleysi, reiði, samviskubit og sorg. Því er mikilvægt að aðstandendur hugi einnig vel að sjálfum sér og leiti aðstoðar ef þeir þurfa.

Aðstoð fyrir þolendur

Sumir þolendur kynferðisofbeldis upplifa einkenni áfallastreitu, þunglyndis eða kvíða. Mikilvægt er að þolendur leiti sér faglegrar aðstoðar ef vanlíðan minnkar ekki eða hverfur á fyrstu vikum eftir að áfallið á sér stað.

Hér er að finna góðar upplýsingar um algeng viðbrögð í kjölfar kynferðisofbeldis fyrir aðstandendur og þolendur.

Erlendar rannsóknir benda til að áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð og EMDR (Eye Movement Desensitisation Processing) eru árangursríkustu meðferðir við áfallastreituröskun . Þetta eru þær meðferðir sem helstu sérfræðingar í heiminum í dag mæla með sökum þess og ýmsir sálfræðingar hérlendis veita slíka meðferð.

Sýnum kunningjum og vinnufélögum einnig stuðning

Fyrir þá sem eiga kunningja sem hafa greint opinberlega frá ofbeldi eru margar fallegar leiðir til að sýna stuðning. Sumir hafa sett hjarta fyrir neðan facebook myndina þeirra, en eins getur verið gott að segja þeim hvað þér þykir virðingavert hjá þeim að stíga skrefið að greina frá ofbeldinu eða segja þeim hvað þér þyki leitt að frétta af þessari reynslu þeirra, án þess að spyrja ítarlega um atburðinn.

Share.

Dr. Edda Björk er með doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum og með bakgrunn í sálfræði. Hún starfar sem nýdoktor við Háskóla Íslands og sinnir kennslu við þá stofnun. Helstu rannsóknir hennar eru á sviði áfallafræða.