D-vítamín og sólarljós

0

Við þurfum öll D-vítamín fyrir eðlilega líkamsstarfsemi og til að ná betur kalki og fosfóri úr fæðunni þegar við meltum hana. D-vítamínskortur hefur verið tengdur mörgum kvillum svo sem beinþynningu hjá fullorðnum og beinkröm hjá börnum. Eitt aðaleinkenni D-vítamínskorts er að beinin verða mjúk og aflagast með tilheyrandi hættu á beinbrotum (1).

Á Íslandi þurfum við að treysta á að fá D-vítamín úr fæðunni því við búum við svo lítið sólarljós stóran hluta ársins. En þegar sólin skín þá getum við framleitt D-vítamín í gegnum húðina.

Hvernig getum við notið sólarljóssins án þess að hafa áhyggjur af því að fá húðkrabbamein?

Áður hefur verið fjallað um ráðleggingar til að koma í veg fyrir sólbruna. Þegar við notum sólarvörn þá getur húðin ekki framleitt D-vítamín í miklu mæli. Hvað er þá til ráða?

Fyrir flesta er nóg að vera í 10-15 mínútur á dag í sólinni til að fá nægjanlegt magn sólargeisla til að framleiða D-vítamín. Eftir þann tíma er gott að bera á sig sólarvörn ef til stendur að vera lengur í sólinni.

Það eru þó ýmsir þættir sem hafa áhrif á hvort 10-15 mínútur sé nægur tími fyrir D-vítamínframleiðslu. Þau atriði sem þarf að hafa í huga eru að:

  • Því stærri sem snertiflötur húðar er við sólargeislana því styttri tíma þarf í sólinni – með öðrum orðum fækkum fötum í sólinni eða notum föt sem hylja minna af húðinni.
  • Einstaklingar með dökkan húðlit þurfa að vera lengur í sólinni til að framleiða sama magn af D-vítamíni og einstaklingar með ljósan húðlit.
  • Bæði tími dags og árstíð hafa áhrif á hversu mikið magn er hægt að framleiða af D-vítamíni.

Til að tryggja okkur sem best er mikilvægt að muna daglega eftir að fá nægjanlegt magn af D-vítamíni með fæðunni og með því að taka lýsi, lýsisperlur eða D-vítamín í töfluformi.

Heimild: HHS Choices – How to get vitamin D from sunlight

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.