Hvernig á ég að flokka heimilisúrganginn til endurvinnslu?

0

Í síðasta pistli fór ég aðeins yfir afhverju við ættum að flokka heimilisúrganginn okkar til endurvinnslu en nú mun ég fara stuttlega yfir hvernig eigi að flokka úrganginn.

Ein algengasta ástæða sem nefnd er við mig þegar fólk segir að það sé ekki að flokka heimilisúrganginn sinn er að það sé svo erfitt að átta sig á því hvað fer í hvaða flokk. Hvernig á t.d. að flokka fernur sem eru állitar að innan? Eru pokar utanum kaffi úr plasti eða áli? Hvernig á að flokka gluggaumslög? Hér ætla ég að reyna að gefa ykkur nokkur svör við þessum algengustu spurningum.

photogrid_1474029479811
Hér er dæmi um állitað plast. Það má staðfesta með að kuðla því saman og sjá það fara í sundur aftur.

Byrjum á állituðu plasti. Hér til vinstri má sjá mynd af umbúðum utanaf kaffi. Þetta er poki með lit að utan og állit að innan. Hvort er þetta ál eða plast? Ein einföld leið til að athuga hvort efnið þetta sé, er hægt að kuðla efninu saman.

photogrid_1474029283031
Ál filma helst kuðluð saman

Ef efnið helst kuðlað saman eftir að þú sleppir eins og sjá má á myndinni hér að ofan til hægri, þá er það ál, annars er það plast.

photogrid_1474029569303

Hvað með safafernur? Það er állitur inni í þeim eins og sjá má mynd til vinstri. Í hvaða flokk fara slíkar safafernur? Þetta er einfalt. Þær fara bara beint í Pappír/Pappa flokkinn þegar búið er að skola fernuna. Stundum losnar tappinn (ef slíkur er til staðar) auðveldlega, þá má gjarnan taka hann (og setja í Plast flokkinn) en þetta tekur 1-2 sekúndur að gera samkvæmt minni mælingu.

2016-09-01-18-22-59
Ferna skoluð, brotin saman og tilbúin til að setja í Pappír/Pappa flokkinn.

En það er plast tappi á mjólkur-/rjómafernunni. Þarf ég að taka hann af áður en ég set fernuna í Pappír/Pappa flokkinn? Hér er annað einfalt svar. Nei, þú þarft þess ekki. Þetta er það lítið magn að það hefur ekki áhrif. Skolaðu bara fernuna, láttu hana þorna og hentu henni svo bara beint í Pappír/Pappa flokkinn. Það sam gildir um gluggaumslög. Settu þau bara beint með öðrum pappír og pappa.

Þarf ég að taka pappírinn utanaf áldósunum? Ef að miðinn er laus, þá er gott að gera það áður en þú skolar dósina en ef hann er límdur allan hringinn, þá skaltu bara skola dósina, láta hana þorna og henda svo í Málm flokkinn. Sama gildir um glerkrukkur. Lokið fer í málm. Krukkan sjálf fer í Gler – þegar búið er að skola hana og þurrka.

Hvað geri ég við pizzakassa? Í pízzukassa er fínn pappi. Hentu öllum matarleyfum úr kassanum og settu beint í Pappír/Pappa flokkinn.

Almenna reglan er að við viljum setja sem minnst af matarleyfum í flokkunina okkar.

Það bæði getur komið lykt hjá okkur ef flokkurinn safnast hægt upp heima hjá okkur, en það getur líka skemmt hráefnið sem er verið að flokka. T.d. getur það tekið nokkra mánuði þangað til að pappír endi í Svíþjóð í endurvinnslunni og þá eru matarleyfar byrjaðar að mygla, en þá er ekki hægt að endurnýta efnið.

Ef þið eruð óviss með hvernig eigi að flokka eitthvað sem ekki er nefnt hér, endilega sendið okkur línu og ég skal gera mitt besta til að svara því.

Næst mun ég segja eigin reynslusögu frá því hvernig ég setti upp flokkun heima hjá mér. Ég bý í blokkaríbúð og nú þar eru allir íbúar stigagangsins komnir vel á veg með flokka.

Fylgist endilega með.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.