Við erum hætt að anda djúpt að okkur hveralyktinni

0

Ég á margar góðar minningar af ferðalögum um landið með pabba mínum frá því þegar ég var ung . Eitt af því sem við gerðum oft var að skoða hverasvæði. Þegar við fundum þessa þekktu „hveralykt“ var oft sagt við mig: „Þetta er góð lykt sem er svo holl og góð!“ og „Þessi lykt tekur í burt allt kvef og kvilla.“ Þetta var algeng hugsun og er að einhverju leiti enn við lýði í dag. En er þessi „hveralykt“ holl og góð?

Hvað er hveralykt?

Þegar við finnum hveralykt þá erum við í raun að finna lyktina af brennisteinsvetni (H2S) sem kemur upp á jarðhitasvæðum. Stærsti hluti losunar á þessum svæðum er vatnsgufa, en með henni losnar einnig brennisteinsvetni, koltvísýringur, metan og fleiri gastegundir.

Brennisteinsvetni er litarlaus gastegund og heilsufarsleg áhrif efnisins í háum styrk eru vel þekkt, en þar má nefna áhrif á borð við augnskaða, lungnaskaða, taugaskaða og fleira [1].

Hvað með áhrif efnisins í lágum styrk? Hvað segja rannsóknir?

Niðurstöður erlendra rannsókna sem hafa skoðað möguleg heilsufarsleg áhrif brennisteinsvetnis (H2S) í lágum styrk eru ekki samhljóma. Eldri rannsóknir sýna að spítalaheimsóknir vegna hjarta-, lungna- og taugasjúkdóma aukist þegar styrkur brennisteinsvetnis eykst í umhverfinu [2-4]. Sömuleiðis hefur tíðni dauðsfalla vegna öndunarfærasjúkdóma verið tengd við útsetningu brennisteinsvetnis [5]. En nýlegri rannsóknir finna ekki slíkt samband og benda frekar til verndandi eiginleika efnisins [6,7].

Hvernig er þetta í Reykjavík?

Þrjár rannsóknir hafa verið gerðar á sambandi milli brennisteinsvetnis í Reykjavík og heilsufarsbrests. Fyrsta rannsóknin var birt árið 2012 og þar var sambandið milli loftmengunar í Reykjavík og astmalyfjaúttektar skoðað á þriggja ára tímabili.

Þær niðurstöður sýndu að þegar þriggja daga meðaltalstyrkur brennisteinsvetnis hækkaði var 2% hækkun í úttektum astmalyfja 3-5 dögum seinna [8].

Seinni rannsóknin var birt 2015 og þar var skoðað sambandið milli loftmengunar í Reykjavík og dauðsfalla á sjö ára tímabili. Niðurstöður sýndu að þegar sólarhringsstyrkur brennisteinsvetni jókst yfir sumarmánuðina þá fjölgaði dauðsföllum af náttúrulegum orsökum um 5% daginn eftir að aukningin átti sér stað og þegar aukning á styrk mengunarefnisins var tveimur dögum áður. Að auki var aukning á dánartíðni 2% meðal eldri einstaklinga sama dag og þegar aukningin varð og þegar aukningin á styrk H2S var tveimur dögum áður. Önnur loftmengunarefni voru ekki tengd við dánartíðni [9].

Í nýjustu rannsókninni, sem var birt í maí á þessu ári, voru tengsl milli brennisteinsvetnis og koma og innlagna á Landspítalann yfir sjö ára tímabili skoðuð. Niðurstöður þeirra rannsókna sýndu að þegar sólarhringsstyrkur brennisteinsvetnis fór yfir lyktarmörkin (7 µg/m3) þá fjölgaði komum og innlögnum vegna hjartasjúkdóma á Landspítalann um 7% sama dag. Einnig var fjölgun í komum og innlögnum á spítalann þegar styrkur brennisteinsvetnis hafði verið hærri tveimur og fjórum dögum áður. Að auki var aukning í komum og innlögnum vegna hjartasjúkdóma meðal eldri einstaklinga og karlmanna frá 7-9%. Komur og innlagnir vegna lungnasjúkdóma eða heilablóðfalla voru ekki tengdar við brennisteinsvetni [10].

Vísbendingar eru um að brennisteinsvetni geti haft alvarleg áhrif á heilsu manna, einkum ef sólahringsstyrkur þess fer yfir lyktarmörkin, 7 µg/m3, en geta má þess að íslensku heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3.

Sambandið sem fannst var sterkast yfir sumarmánuðina. Auk þess virtust karlmenn og eldra fólk viðkvæmara fyrir brennisteinsvetni en aðrir. Þó svo að rannsóknirnar bendi til skaðlegra áhrifa brennisteinsvetnis á heilsu er ekki hægt að segja að um raunverulegt orsakasamband þar sem fáar rannsóknir hafa skoðaða þetta samband.

Við pabbi erum samt hætt að anda djúpt að okkur hveralyktinni.

 

Heimildir

  1. WHO (2000) Air Quality Guidelines for Europe. WHO, Copenhagen.
  2. Bates MN, Garrett N, Shoemack P (2002) Investigation of health effects of hydrogen sulfide from a geothermal source. Arch Environ Health 57: 405-411.
  3. Guidotti TL (2010) Hydrogen sulfide advances in understanding human toxicity. Int J Toxicol 29: 569-581.
  4. Chou C (2003) Hydrogen Sulfide: Human Health Aspects. Concise International Chemical Assessment Document 53. WHO, Geneva.
  5. Bates MN, Garrett N, Graham B, Read D (1997) Air pollution and mortality in the Rotorua geothermal area. Aust N Z J Public Health 21: 581-586.
  6. Bates MN, Crane J, Balmes JR, Garrett N (2015) Investigation of hydrogen sulfide exposure and lung function, asthma and chronic obstructive pulmonary disease in a geothermal area of new zealand. PloS One 10: e0122062.
  7. Bates MN, Garrett N, Crane J, Balmes JR (2013) Associations of ambient hydrogen sulfide exposure with self-reported asthma and asthma symptoms. Environ Res 122: 81-87.
  8. Carlsen HK, Zoëga H, Valdimarsdóttir U, Gíslason T, Hrafnkelsson B (2012) Hydrogen sulfide and particle matter levels associated with increased dispensing of anti-asthma drugs in Iceland’s capital. Environ Res 113: 33-39.
  9. Finnbjornsdottir RG, Oudin A, Elvarsson BT, Gislason T, Rafnsson V (2015) Hydrogen sulfide and traffic-related air pollutants in association with increased mortality: a case-crossover study in Reykjavik, Iceland. BMJ Open 5.
  10. Finnbjornsdottir RG, Carlsen HK, Thorsteinsson T, Oudin A, Lund SH, Gislason T, et al. (2016) Association between Daily Hydrogen Sulfide Exposure and Incidence of Emergency Hospital Visits: A Population-Based Study. PLoS One 11: e0154946.

 

 

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.