Ég á margar góðar minningar af ferðalögum um landið með pabba mínum frá því þegar ég var ung . Eitt af því sem við gerðum oft var að skoða hverasvæði. Þegar við fundum þessa þekktu „hveralykt“ var oft sagt við mig: „Þetta er góð lykt sem er svo holl og góð!“ og „Þessi lykt tekur í burt allt kvef og kvilla.“ Þetta var algeng hugsun og er að einhverju leiti enn við lýði í dag. En er þessi „hveralykt“ holl og góð?
Hvað er hveralykt?
Þegar við finnum hveralykt þá erum við í raun að finna lyktina af brennisteinsvetni (H2S) sem kemur upp á jarðhitasvæðum. Stærsti hluti losunar á þessum svæðum er vatnsgufa, en með henni losnar einnig brennisteinsvetni, koltvísýringur, metan og fleiri gastegundir.
Brennisteinsvetni er litarlaus gastegund og heilsufarsleg áhrif efnisins í háum styrk eru vel þekkt, en þar má nefna áhrif á borð við augnskaða, lungnaskaða, taugaskaða og fleira [1].
Hvað með áhrif efnisins í lágum styrk? Hvað segja rannsóknir?
Niðurstöður erlendra rannsókna sem hafa skoðað möguleg heilsufarsleg áhrif brennisteinsvetnis (H2S) í lágum styrk eru ekki samhljóma. Eldri rannsóknir sýna að spítalaheimsóknir vegna hjarta-, lungna- og taugasjúkdóma aukist þegar styrkur brennisteinsvetnis eykst í umhverfinu [2-4]. Sömuleiðis hefur tíðni dauðsfalla vegna öndunarfærasjúkdóma verið tengd við útsetningu brennisteinsvetnis [5]. En nýlegri rannsóknir finna ekki slíkt samband og benda frekar til verndandi eiginleika efnisins [6,7].
Hvernig er þetta í Reykjavík?
Þrjár rannsóknir hafa verið gerðar á sambandi milli brennisteinsvetnis í Reykjavík og heilsufarsbrests. Fyrsta rannsóknin var birt árið 2012 og þar var sambandið milli loftmengunar í Reykjavík og astmalyfjaúttektar skoðað á þriggja ára tímabili.
Þær niðurstöður sýndu að þegar þriggja daga meðaltalstyrkur brennisteinsvetnis hækkaði var 2% hækkun í úttektum astmalyfja 3-5 dögum seinna [8].
Seinni rannsóknin var birt 2015 og þar var skoðað sambandið milli loftmengunar í Reykjavík og dauðsfalla á sjö ára tímabili. Niðurstöður sýndu að þegar sólarhringsstyrkur brennisteinsvetni jókst yfir sumarmánuðina þá fjölgaði dauðsföllum af náttúrulegum orsökum um 5% daginn eftir að aukningin átti sér stað og þegar aukning á styrk mengunarefnisins var tveimur dögum áður. Að auki var aukning á dánartíðni 2% meðal eldri einstaklinga sama dag og þegar aukningin varð og þegar aukningin á styrk H2S var tveimur dögum áður. Önnur loftmengunarefni voru ekki tengd við dánartíðni [9].
Í nýjustu rannsókninni, sem var birt í maí á þessu ári, voru tengsl milli brennisteinsvetnis og koma og innlagna á Landspítalann yfir sjö ára tímabili skoðuð. Niðurstöður þeirra rannsókna sýndu að þegar sólarhringsstyrkur brennisteinsvetnis fór yfir lyktarmörkin (7 µg/m3) þá fjölgaði komum og innlögnum vegna hjartasjúkdóma á Landspítalann um 7% sama dag. Einnig var fjölgun í komum og innlögnum á spítalann þegar styrkur brennisteinsvetnis hafði verið hærri tveimur og fjórum dögum áður. Að auki var aukning í komum og innlögnum vegna hjartasjúkdóma meðal eldri einstaklinga og karlmanna frá 7-9%. Komur og innlagnir vegna lungnasjúkdóma eða heilablóðfalla voru ekki tengdar við brennisteinsvetni [10].
Vísbendingar eru um að brennisteinsvetni geti haft alvarleg áhrif á heilsu manna, einkum ef sólahringsstyrkur þess fer yfir lyktarmörkin, 7 µg/m3, en geta má þess að íslensku heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3.
Sambandið sem fannst var sterkast yfir sumarmánuðina. Auk þess virtust karlmenn og eldra fólk viðkvæmara fyrir brennisteinsvetni en aðrir. Þó svo að rannsóknirnar bendi til skaðlegra áhrifa brennisteinsvetnis á heilsu er ekki hægt að segja að um raunverulegt orsakasamband þar sem fáar rannsóknir hafa skoðaða þetta samband.
Við pabbi erum samt hætt að anda djúpt að okkur hveralyktinni.
Heimildir
- WHO (2000) Air Quality Guidelines for Europe. WHO, Copenhagen.
- Bates MN, Garrett N, Shoemack P (2002) Investigation of health effects of hydrogen sulfide from a geothermal source. Arch Environ Health 57: 405-411.
- Guidotti TL (2010) Hydrogen sulfide advances in understanding human toxicity. Int J Toxicol 29: 569-581.
- Chou C (2003) Hydrogen Sulfide: Human Health Aspects. Concise International Chemical Assessment Document 53. WHO, Geneva.
- Bates MN, Garrett N, Graham B, Read D (1997) Air pollution and mortality in the Rotorua geothermal area. Aust N Z J Public Health 21: 581-586.
- Bates MN, Crane J, Balmes JR, Garrett N (2015) Investigation of hydrogen sulfide exposure and lung function, asthma and chronic obstructive pulmonary disease in a geothermal area of new zealand. PloS One 10: e0122062.
- Bates MN, Garrett N, Crane J, Balmes JR (2013) Associations of ambient hydrogen sulfide exposure with self-reported asthma and asthma symptoms. Environ Res 122: 81-87.
- Carlsen HK, Zoëga H, Valdimarsdóttir U, Gíslason T, Hrafnkelsson B (2012) Hydrogen sulfide and particle matter levels associated with increased dispensing of anti-asthma drugs in Iceland’s capital. Environ Res 113: 33-39.
- Finnbjornsdottir RG, Oudin A, Elvarsson BT, Gislason T, Rafnsson V (2015) Hydrogen sulfide and traffic-related air pollutants in association with increased mortality: a case-crossover study in Reykjavik, Iceland. BMJ Open 5.
- Finnbjornsdottir RG, Carlsen HK, Thorsteinsson T, Oudin A, Lund SH, Gislason T, et al. (2016) Association between Daily Hydrogen Sulfide Exposure and Incidence of Emergency Hospital Visits: A Population-Based Study. PLoS One 11: e0154946.