Hver eru aftur skilaboðin með kjötið?

0

Fyrir stuttu loguðu allir fjölmiðlar vegna nýrrar skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Þar segir að unnar kjötvörur séu krabbameinsvaldandi. Flestir sem þekkja til í þessum fræðum höfðu þessa vitneskju og í  ráðleggingum um mataræði frá Embætti landlæknis er sett fram hámark á neyslu á rauðu kjöti við 500 grömm á viku. Í þessum sömu ráðleggingum er fólk hvatt til að borða ríflega af fiski, ávöxtum, grænmeti og heilkornavörum.

Hvað þýðir að ákveðin fæðutegund sé krabbameinsvaldandi?

Því meira magn sem við borðum  af unninni kjötvöru, því meiri verða líkurnar á að við fáum krabbamein í ristil eða endaþarm. Það er ekki þar með sagð að ALLIR sem hafa einhvern tímann borðað til dæmis beikon eða pylsu fái krabbamein.

Rautt kjöt sem hefur verið saltað, grillað og/eða reykt er það sem við þurfum helst að halda í litlu magni í daglegu fæði, frekari skilgreiningu má finna hér . Leiðbeiningar um hvernig er best að grilla kjöt má finna hér.

Einnig þarf að hafa í huga að flest allt kjötálegg telst vera unnin kjötvara.Til að gæta að fjölbreytni í mataræði  og minnka kjötmagn er gott að nota ýmis önnur álegg, svo sem ávexti, grænmeti, kotasælu, egg, síld, sardínur, túnfisk- og rækjusalat, hummus, pestó og svo framvegis.

Hvernig drögum við úr kjötneyslu?

Ekki má gleyma að við fáum líka mörg mikilvæg næringarefni úr kjöti, svo sem prótein, járn og sink. Neysla á kjöti sem ekki hefur verið unnið þannig að bætt er í salti og/eða nítrati er í góðu lagi innan hóflegra marka. Til dæmis er lambalæri og hakkað kjöt góðir kostir í fjölbreyttu fæði. Til að finna meðalveginn í magni er gott ráð að huga vel að meðlætinu með máltíðinni og borða vel af því, sem leiðir til þess að við borðum minna af kjötinu.

vegetable market

Góð þumalfingursregla er að miða við að 25-35% af disknum innihaldi kjöt en restin af disknum ætti að innihalda meðlæti eins og kartöflur, grænmeti, baunir og kornvörur af einhverju tagi. Einnig er gott að nota jurtaolíu yfir salatið. Rétt hlutfall fæðutegunda á matardisknum er líst nánar hér.

Kostir þess að draga úr kjötneyslu

Það er margt jákvætt sem fylgir því að draga úr kjötneyslu:

  • Það gefur pláss fyrir aðrar fæðutegundir eins og ávexti og grænmeti sem hefur sýnt sig að hafa margvísleg góð áhrif á heilsuna
  • Neytendur eru sífellt að verða meira meðvitaðir um mikilvægi þess að framleiða mat á sjálfbæran hátt og að meðferð á dýrum sé samkvæmt lögum. Það að rækta dýr til manneldis krefst meiri matar (notað sem fóður), vatns, lands en það að rækta fæðutegundir úr jurtaríkinu (1)

Aðrir áhættuþættir fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi

Fjöldi fólks sem greinist með krabbamein í ristli og endaþarmi  á Íslandi hefur aukist undanfarin ár (2). Á árunum frá 2009 til 2013 greindust að meðaltali 73 karlar og 61 konur árlega með krabbamein í ristli og endaþarmi (3).

Helstu áhættuþættir fyrir þetta krabbamein fyrir utan mikla neyslu á unnum kjötvörum er skortur á hreyfingu, hár líkamþyngdarstuðull, lítil neysla á ávöxtum, grænmeti og heilkornavörum, reykingar, áfengisneysla og lélegur D-vítamínbúskapur (4, 5).

Að lokum hvet ég alla til að lesa pistilinn um af hverju sumir fá krabbamein eftir Láru Sigurðardóttir lækni og Laufeyju Tryggvadóttir framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár. Þar segir meðal annars:

Við lifum í tæknivæddum heimi þar sem hraðinn er oft mikill og oft erfitt að finna tíma til að huga að heilsunni. Engu að síður er gott að vera vakandi fyrir þeirri staðreynd að heilbrigður lífsstíll getur komið í veg fyrir stóran hlut krabbameina og aukið lífslíkur þeirra sem þegar hafa greinst.

En gleymum því aldrei að ef við veikjumst þá er enn mikilvægara að ásaka okkur ekki um að hafa gert eitthvað rangt og einnig að sumir veikjast þrátt fyrir að hafa lifað mjög heilbrigðu lífi. Og munum að það er alltaf rúm fyrir breytingar. Þó svo að við getum ekki stjórnað því hvort við fáum sjúkdóminn eða ekki þá getum við alltaf stjórnað því hvort við kjósum heilbrigða lífshætti sem geta bætt og lengt líf okkar.

Share.

Dr. Jóhanna er löggiltur næringarfræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem rannsóknarsérfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sem fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.