Hver er uppskriftin að góðu sambandi?

0

Hér eru taldir upp nokkrir lykilþættir sem einkenna góð sambönd, hvort sem það eru tengsl hjóna, vina eða fjölskyldu. Þetta er ekki tæmandi listi en öll höfum við gott af því að minna okkur á mikilvægi þessara þátta. Rannsóknir hafa sýnt að sambönd þar sem við upplifum að við erum elskuð, að hugað sé vel að okkur og hlustað sé á okkur hafi jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar.

Í lokin er fjallað um þætti sem styrkja samband, sem við veitum gjarnan minni athygli; sambandi okkar við okkur sjálf.

Traust og virðing

Hlustaðu á það smáa og þér verður treyst fyrir því stóra – Hugo Þórisson

Einn af lykilþáttum góðra tengsla er traust. Traust felur í sér að vera hreinskilin hvort við annað og sýna hvort öðru að við erum bæði áreiðanleg og ábyrg, með því að fara vel með það sem okkur er trúað fyrir og standa við það sem við segjumst ætla að gera. Ef við segjum eitt en gerum síðan annað skapar það óöryggi hjá hinum aðilanum.

Fólk mun gleyma hvað þú sagðir, en fólk mun aldrei gleyma hvernig þú lést þeim líða – Carl Buehner

Traust leiðir til þess að okkur líður vel í návist hvors annars og er forsenda þess að við getum deilt mikilvægum atburðum í lífi okkar hvort með öðru sem og talað um líðan okkar. Mikilvægt er að bera virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum hins aðilans og huga að því hvaða orð við látum falla í garð hvors annars.

Að einblína á styrkleika

Vertu regnbogi inn í annarra manna skýi –Maya Angelou

Mikilvægt er að hafa í huga að allt sem við veitum jákvæða athygli vex og dafnar. Með því að einblína á það jákvæða í fari hvors annars ýtum við undir slíka hegðun og aukum líkurnar á að hún endurtaki sig (það er ágætt að muna að það sama á við um neikvæða hegðun). Því er mun mikilvægara að einblína á styrkleika og það sem er jákvætt í fari hvors annars frekar en að nöldra og fussa yfir veikleikunum.

Allir búi yfir hæfileikum sem eiga að geta blómstrað. Í öllum samböndum er gæfuspor að taka eftir styrkleikum hvors annars og hvetja hinn aðilann til að finna farveg til að njóta sín.

Þá er sérstaklega mikilvægt fyrir foreldra að veita börnum sínum þann stuðning og hvatningu sem þau þurfa til að styrkleikar þeirra fái að njóta sín.

Að veita hvort öðru svigrúm til að rækta eigin áhugamál, sinna vinum og fjölskyldu einkennir góð sambönd. Það gefur fólki mikið að upplifa sig sem hluta af hópi, að fá að sökkva sér í það sem það hefur ástríðu fyrir og rækta sjálft sig. Að samgleðjast hvort öðru þegar vel gengur hjá hinum aðilanum (þó við séum ekki hluti af þeirra upplifun) er einnig mikill styrkur fyrir sambönd.

Að sama skapi styrkir það sambönd að veita því athygli sem gerir sambandið gott. Hvaða eiginleika í ykkar sambandi þykir þér vænst um?

Það eru til ýmis ráð til að hjálpa fólki að beina athyglinni að því jákvæða. Foreldrar sem vilja auka jákvæð samskipti við börn sín geta t.d. sett nokkrar teygjur á aðra höndina með það markmiði að hafa fært teygjurnar yfir á hina höndina í lok dagsins. Í hvert skipti sem foreldrið segir eitthvað uppbyggilegt eða jákvætt við barnið sitt, færir það eina teygju yfir á hina höndina. Hrósið þarf ekki að vera stórfenglegt og mikilvægt er að það sem við segjum sé ekki yfirborðskennt. Það er hægt að hrósa barni fyrir að vera gott við systkini sitt eða að standa sig vel í morgunrútínunni, svo dæmi séu tekin.

Góð ráð fyrir par til að auka jákvæð samskipti er að gera ákveðna 2-3 hluti fyrir makann daglega sem bera vott um væntumþykju. Þetta getur verið t.d. að útbúa nesti fyrir hann á morgnana eða nudda á honum axlirnar í lok dags. Nokkrir hlutir sem sýna að maki þinn er þér mikilvægur geta skipt miklu máli í samskiptum ykkar.

Hvernig kemur þú fram við sjálfan þig ?

Eitt mikilvægasta sambandið sem við eigum og ættum að rækta vel er samband okkar við okkur sjálf.

Mikilvægt er að huga að því hvernig við tölum við okkur sjálf og hvaða kröfur við gerum til okkar. Eins og ég bendi á hér að ofan, þá eykst sú hegðun sem við veitum athygli. Það er því mikilvægt að hafa í huga hvaða þættir um okkur sjálf við ákveðum að beina orku og athygli okkar að.

Í sálfræðinni er til hugtak sem heitir self-compassion  og felst í því að sýna sjálfum sér alúð.

Rannsóknir benda til þess að self-compassion tengist vellíðan, betra sjálfstrausti og betri árangri í hinum mörgu hliðum lífsins.

Þegar við erum gagnrýnin á okkur sjálf getur verið ágætt að spyrja sig: Hvernig myndi ég koma fram við vin minn sem væri í þessum sömu sporum? Myndi ég segja það sama við hann og ég er að segja við sjálfan mig?

Margir temja sér að skrifa TO DO verkefnalista. Þar er sett fram t.d. hverju við viljum breyta, bæta og ávinna. Slíkt getur verið gagnlegt ef þessi markmið eru raunhæf, viðráðanleg og uppbyggileg.

En hversu oft hefur þú skrifað lista yfir það sem þú gerir vel? Það er mikilvægt að veita þeim þáttum einnig athygli. Hvað er það sem gerir þig að góðum maka, systkini eða vini? Hvað gerir þú vel í uppeldi barna þinna? Þegar við sýnum okkur sjálfum álúð erum við börnum okkar góð fyrirmynd og eigum auðveldara með að kenna þeim slíkt hið sama.

Það er fátt dýrmætara í lífinu en góð sambönd og ekki síst sambandið við okkur sjálf. Í bók sinni The Top Five Regrets  of the Dying fjallar hjúkrunarfræðingurinn Bonnie Ware um sjúklinga sem hún sinnti á dánarbeði. Ein helsta eftirsjá fólks, var að hafa ekki haldið nógu góðu sambandi við vini sína og að hafa ekki haft kjarkinn til að lifa lífinu eins og það vildi, heldur samkvæmt því sem aðrir ætluðust til af þeim.

Höfum því í huga hvernig við getum styrkt hvert annað í að njóta lífsins, bæði saman og sem einstaklingar.

Share.

Dr. Edda Björk er með doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum og með bakgrunn í sálfræði. Hún starfar sem nýdoktor við Háskóla Íslands og sinnir kennslu við þá stofnun. Helstu rannsóknir hennar eru á sviði áfallafræða.